Heiman og heim: Vestur-íslensk fræði

Málstofan fjallar um íslensku vesturfarana og afkomendur þeirra, mál þeirra, menningu og sjálfsmynd.

Málstofustjóri: Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Fyrirlesarar:

Eysteinn Þorvaldsson, prófessor emeritus á Menntavísindasviði: Um íslenskan kveðskap í Vesturheimi

  • Guðrún Guðsteinsdóttir, dósent í ensku: Hverjir eru „við“ í skáldsögunni Baldur's Song eftir David Arnason?
  • Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Dagbók Vesturfara

Útdrættir:

Eysteinn Þorvaldsson, prófessor emeritus á Menntavísindasviði
Um íslenskan kveðskap í Vesturheimi

Kveðskapur var lengi vel helsti þátturinn í menningarlífi Vestur-Íslendinga enda eina listgreinin sem fyrstu landnemakynslóðirnar höfðu vald á. Kveðskapur þeirra er mikill að vöxtum og kvæðin varpa sérstöku ljósi á líf, störf og viðhorf Vestur-Íslendinga meðan íslenska var töluð og ort var á íslensku þar vestra. Athyglisvert er einnig hve mörg þessi skáld voru. Íslensk skáld fluttust ekki til Ameríku, nema fáein tímabundið, en ótrúlega margir urðu skáld þegar vestur var komið. Yrkingar voru m.a. þáttur í löngun þeirra og viðleitni að halda tengslum við uppruna sinn og sýna fornri menningararfleifð ræktarsemi.

Það er einnig athyglisvert að önnur kynslóð Vestur-Íslendinga, þ.e. börn fyrstu landnemanna og þeir sem fluttust vestur á barnsaldri, höfðu sömu afstöðu til íslenska menningararfsins. Flest þeirra ortu á íslensku eins og hinir eldri, t.d. Guttormur Guttormsson, Jakobína Johnson og Jóhann Magnús Bjarnason. Þessi kynslóð var reyndar tvítyngd og sumir þessara uppalninga Ameríku ortu á ensku, t.d. Guðmundur J. Gíslason, Skúli Johnsen og Vilhjálmur Stefánsson.

Guðrún Guðsteinsdóttir, dósent í ensku
Hverjir eru „við“ í skáldsögunni Baldur's Song eftir David Arnason?

Laura Goodman Salverson gat alhæft margvíslega um eðli, atgervi og siðvenjur Íslendinga í samanburði við önnur þjóðarbrot í skáldsögunni The Viking Heart (1923), þar sem hún rekur afdrif íslenskra innflytjenda til Nýja-Íslands. Það virðist nær óhugsandi að póstmódernískur höfundur eins og David Arnason láti freistast til að vera með slíkar alhæfingar um sitt eigið þjóðarbrot eða annarra. Alhæfingar um forfeðurna eru þó samt sem áður helsta uppspretta húmors í bráðskemmtilegum upphafsköflum nýútkominnar skáldsögu Davids, Baldur's Song, sem rekur þessa þjóðflutninga að verulegu leyti eftir hans eigin ættboga. Í erindinu mun ég athuga nánar frásagnartæknina sem David beitir þegar hann dregur upp mynd af „okkur“.

Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Dagbók Vesturfara

Jón Halldórsson frá Stóruvöllum í Bárðardal (1838–1919) var meðal fyrstu vesturfaranna. Hann skrifaði dagbók frá því hann lét úr höfn á Akureyri í maílok 1872 þar til um mitt ár 1877 þegar hann var orðinn bóndi í Nebraska. Í fyrirlestrinum verður fjallað um efni þessarar dagbókar. Einnig verður hún borin saman við allmörg bréf frá Jóni, sem varðveist hafa, og eru frá þessu fimm ára tímabili sem hann hélt dagbókina. Bréfin eru að flestu leyti fyllri heimildir en dagbókin er nákvæmari um tíma atburða og nefnir menn og málefni sem varðveittu bréfin geta ekki um.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is