Heimildir í skjalasöfnum

 

Í málstofunni verður fjallað um einstakar frumheimildir í skjalasöfnum sem að stórum hluta eru varðveittar á Þjóðskjalasafni Íslands. Leitast verður við að varpa ljósi á innihald þeirra og mögulega notkun til rannsókna.

Málstofustjóri: Kristjana Kristinsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði: Heimildir í skjalasafni Bessastaða 1553-1683
  • Þórunn Guðmundsdóttir, skjalavörður og sagnfræðingur: Að nota heimildir úr kirkjubókum í fræðilegum rannsóknum
  • Njörður Sigurðsson, stundakennari og sviðsstjóri skjalasviðs Þjóðskjalasafns: Einkaskjalasöfn, annað sjónarhorn á söguna. Um einkaskjöl sem heimildir
Útdrættir:

Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði: Heimildir í skjalasafni Bessastaða 1553-1683

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Skjalasafn á Bessastöðum eða skjalasafn lénsmanna sem myndaðist á árunum 1553 til 1683. Þetta safn hefur  ekki varðveist sem heild til dagsins í dag en ætla má að þeir skjalaflokkar sem mynduðu safnið hafi m.a. verið þessir: konungsbréf, klaustraskjöl, jarðabækur og máldagabækur. En hvaða skjöl liggja þarna að baki? Og á hvaða söfnum eru þau varðveitt í dag? Tekin verða dæmi af skjölum sem lágu í safninu og sem enn eru varðveitt og sérstaklega fjallað um þau og gerð grein fyrir innihaldi þeirra.

Þórunn Guðmundsdóttir, skjalavörður og sagnfræðingur: Að nota heimildir úr kirkjubókum í fræðilegum rannsóknum

Þegar talað eru um kirkjubækur er almennt átt við prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl. Svo virðist sem nokkur ókunnugleiki sé á þeim möguleikum sem felast í því að nota upplýsingar úr kirkjubókum sem heimildir fyrir rannnsóknarvinnu í hugvísindum, með örfáum undantekningum.

Á fyrri hluta 18. aldar komu tilmæli frá yfirvöldum um formlega skráningu á þeim verkum sem prestar unnu í þágu sóknarbarna sinna. Elstu samfelldu prestþjónustubækur sem varðveittar eru á Þjóðskjalasafni Íslands eru úr Reykholti í Borgarfirði og eru frá árinu 1664.

Í prestþjónustubókum frá 18. öld er það nokkuð mismunandi hversu nákvæmlega prestar skráðu verk sín þó í flestum bókum sé að finna upplýsingar um skírð, fermd, gift og greftruð sóknarbörn. Mismunurinn á milli sókna felst aðalega í því hversu nákvæmlega var skráð t.d. varðandi foreldra skírðra og fermdra barna. Á 19. öld verða skráningar formlegri og sömu upplýsingar er að hafa í prestþjónustubókum úr öllum sóknum. Upplýsingar úr kirkjubókum opna möguleika á rannsóknum í fólksfjöldasögu, auðvelt er að nálgast upplýsingar um fjölda barna á heimili, aldur, fólk, mæðradauða og látna vegna slysa svo fátt eitt sé nefnt. Á 19. öld bætast við skráningar um brottflutta og aðflutta í sóknir sem hafa mikið rannsóknargildi varðandi fólksflutninga innanlands. 

Njörður Sigurðsson, stundakennari og sviðsstjóri skjalasviðs Þjóðskjalasafns: Einkaskjalasöfn, annað sjónarhorn á söguna. Um einkaskjöl sem heimildir

Einkaskjalasöfn spanna afar fjölbreytta flóru skjalasafna sem eru misjöfn að uppruna, umfangi og skipulagi. Skjöl einkaaðila eru ekki síður mikilvægar heimildir um sögu landsins en opinber skjalasöfn og geta þau jafnvel opnað nýja sýn á fyrri tíma sögu. Í erindinu verður fjallað um varðveislu einkaskjalasafna á Íslandi og þann heimildabrunn sem þau geyma.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is