Heimsmyndafræði, náttúruspeki og táknheimur vestrænnar dulspeki

 

Í málstofunni verður sjónum beint að ólíkum þáttum í heimsmyndafræði, náttúruspeki og þjóðfélagssýn vestrænnar dulspeki og leitast við að varpa ljósi á táknheim hennar. Dulspekihugmyndir gegna mikilvægu hlutverki í vestrænni menningu sem oft er litið framhjá, ekki síst vegna skorts á læsi á umræddan táknheim. Fjallað verður jöfnum höndum um náttúruspeki, ósýnileg fyrirbrigði og hugmyndir um líf á öðrum hnöttum.

 

 

Málstofustjóri: Benedikt Hjartarson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Gísli Magnússon lektor: Den stille pige eftir Peter Høeg í ljósi dulspekihefðarinnar
  • Pétur Pétursson prófessor: Bókin um veginn og áhrif hennar á bókmenntir, trú og stjórnmál á Íslandi
  • Sigurlín Bjarney Gísladóttir doktorsnemi: Hið dulræna í Gandreið Jóns Daðasonar
  • Benedikt Hjartarson prófessor: Draumsýnir og líf á öðrum hnöttum: Um empíríska dulspeki Helga Pjeturss

​Fundarstjóri: Benedikt Hjartarson prófessor

Útdrættir:

Gísli Magnússon lektor: Den stille pige eftir Peter Høeg í ljósi dulspekihefðarinnar

Peter Høeg er í hópi mest lesnu höfunda danskra samtímabókmennta. Tíu árum eftir útgáfu síðustu skáldsögu hans, Konan og apinn, beið almenningur í ofvæni eftir nýjustu skáldsögu hans. Þögla stúlkan kom út árið 2006, en viðbrögð við verkinu í Danmörku voru svo nístandi að jafnt gagnrýnendur og höfundar erlendis sáu sig knúna til að koma Høeg til varnar. Í fyrirlestrinum mun ég skoða skáldsöguna með hliðsjón af því sögulega samhengi sem er bundið menningarlegum kóða dulspeki. Á meðal dulspekilegra þráða í Þöglu stúlkunni eru hugmyndir um eilíf gildi, afhelgun og sálgerving trúarinnar, samþætting andlegra strauma og vísindalegrar hugsunar.

Pétur Pétursson prófessor: Bókin um veginn og áhrif hennar á bókmenntir, trú og stjórnmál á Íslandi

Bókin um veginn eftir kínverska spekinginn Lao Tse kom fyrst út í íslenkri þýðingu árið 1921. Þetta fornaldarrit Taoismans hefur haft ómæld áhrif a íslenskar nútímabókmenntir. Bókin varð einskonar biblía listamannaelítunnar í Unuhúsi og Erlendur, sonur Unu og aldavinur bæði Þórbergs og Laxness varð holdgervingur þessarar alþýðuspeki, sem einnig holdgerðist í ýmsum þekktustu og eftirminnilegustu persónum þessara sósíalistísku höfunda. Taoisminn birtist einnig í nútímaljóðlist eins og Timanum og vatninu eftir Stein Steinar og sálmum Matthíasar Johannessens á atómöld. Forn speki kínverska öldungsins rann saman við íslenskan alþýðuhúmanisma og hafði ómæld áhrif á ungar kynslóðir bókmenntasinnaðra Íslendinga sem snerust til sósíalismans, ekki síst 68 kynslóðina. 

Sigurlín Bjarney Gísladóttir doktorsnemi: Hið dulræna í Gandreið Jóns Daðasonar

Jón Daðason frá Arnarbæli (1606–1676) ritaði Gandreið þar sem lýstur saman efni af ólíkum toga sem varðar ýmsa þekkingarheima eins og guðfræði, náttúruspeki, stjörnuspeki, klassíska heimspeki og norræna goðafræði. Ritið verður notað sem gluggi inn í þankagang 17. aldar og það sett í sögulegt samhengi við þá heimsmyndasýn sem ríkti á þeim tíma. Sérstök áhersla verður lögð á þá dulspekilegu þætti sem greina má í verkinu.

Benedikt Hjartarson prófessor: Draumsýnir og líf á öðrum hnöttum: Um empíríska dulspeki Helga Pjeturss

Árið 1919 skrifar Helgi Pjeturss í ritgerð sinni „Hið mikla samband“: „Náttúrufræðin er það sem bjargar“. Þessi orð úr penna jarðfræðingsins væru vart sérstakrar athygli verð frá sjónarhorni rannsókna á dulspeki ef ekki væri fyrir skýringuna sem fylgir í kjölfarið: „Hin nákvæma athugun veruleikamannsins, realistans, áttar sig á því, að draumar eru ekki hugarburður mannsins sjálfs, heldur framkomnir fyrir inngeislun frá öðrum huga (eða hugum); og ennfremur, að þessi annar á heima á öðrum hnetti. Uppgötvun þessi er upphaf hinnar sönnu heimspeki, þokueyðandi framar öllum öðrum, sem gerðar hafa verið á jörðu hér.“ Í erindinu verður leitast við að varpa ljósi á það sérstaka samband á milli náttúruvísinda, vitundarrannsókna, dulvísinda og hugmynda um líf á öðrum hnöttum sem hér kemur fram og myndar grundvöllinn að nýalsspeki Helga.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is