Heimspeki fornaldar

Í málstofunni verður fjallað um ólíka þætti úr sögu fornaldarheimspeki, allt frá gagnrýni á lýðræði og kenningum um svefn til sambands dygðar við farsæld og velþóknun Nietzsches á epikúringum.

Fyrirlesarar:

  • Vilhjámur Árnason, prófessor í heimspeki: Lýðræði að hætti Platons
  • Róbert Jack, doktorsnemi í heimspeki: Mælistika Platons á mannlegan þroska
  • Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki: Orð og gjörðir: Rök laganna í Krítóni og hlutverk þeirra
  • Eiríkur Smári Sigurðarson, heimspekingur og rannsóknastjóri Hugvísindasviðs: Svefn er flogakast
  • Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Hvers konar manneskja er efahyggjumaðurinn?
  • Geir Þórarinn Þórarinsson, doktorsnemi við Princeton-háskóla og stundakennari við HÍ: Hamingja, dygð og mannlegt eðli
  • Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki: Að rækta garðinn sinn: Nietzsche um Stóumenn og epikúringa

Málstofustjóri: Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki

Útdrættir:

Vilhjámur Árnason, prófessor í heimspeki
Lýðræði að hætti Platons

Platon er þekktur fyrir gagnrýni sína á lýðræði en sjaldnar er hugað að því hvað læra má af heimspeki hans til að bæta lýðræðislega stjórnarhætti og stjórnskipan. Í þessu erindi verða dregin fram helstu rök Platons gegn lýðræði og sýnt fram á að þau eigi að nokkru leyti enn við. Jafnframt verða kynnt og metin sjónarmið fræðimanna sem sjá í textum Platons vísa að kenningu um rökræðulýðræði. Í ljósi þessa verður hugað að því hvort hugmyndir Platons geti verið okkur til leiðsagnar í því verkefni að treysta lýðræðislega innviði íslensks samfélags.

Róbert Jack, doktornemi í heimspeki
Mælistika Platons á mannlegan þroska

Heimspeki Platons er sjaldan skoðuð út frá mannlegum þroska, en fyrirlesturinn fjallar um þessa hlið heimspeki hans. Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum: Hvað telst mannlegur þroski hjá Platoni? Og hvernig lýsir Platon þroskaferli einstaklingsins? – Til grundvallar liggja samræðurnar Samdrykkjan og Ríkið.

Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki
Orð og gjörðir: Rök laganna í Krítóni og hlutverk þeirra

Í samræðunni Kríton eftir Platon, þar sem fram kemur eitt fyrsta dæmið um sáttmálakenningu um samfélagið, er til umfjöllunar sú spurning hvort rétt sé að brjóta lögin ef mikið liggur við. Kríton vill að Sókrates geri það með því að flýja úr fangelsinu sem honum er haldið í en Sókrates hafnar því á þeim forsendum að það sé rangt, m.a. vegna þess að þar með væri hann að rjúfa sáttmála sinn við lög Aþenuborgar. Eitt þekktasta atriðið í samræðunni er ræða þar sem Lögin taka sjálf til máls og halda þrumuræðu yfir Sókratesi því skyni að fá hann ofan af því að bregðast þeim. Spurningin sem hér verður rædd er sú hvers vegna Sókrates virðist láta sannfærast af ræðu Laganna, sem er frekar í anda sófískrar ræðumennsku en sókratískrar samræðu.

Eiríkur Smári Sigurðarson, heimspekingur og rannsóknastjóri Hugvísindasviðs
Svefn er flogakast

Litlu náttúrufræðiritin (Parva naturalia) eru að flestra mati í hópi síðustu verka Aristótelesar. Í þeim fæst hann við vandamál sem tengjast líkama og sál sameiginlega, svo sem skynjun og minni; svefn, vöku og drauma; forspá af draumum; langt og stutt líf; æsku og elli, líf og dauða, og andardrátt. Hér byggir hann á kenningu sinni um sálina og eigin rannsóknum á dýraríkinu. Við sjáum í þessum verkum kenningu sem hefur að fullu brotist undan hugmyndum Platons um sjálfstæða tilvist sálarinnar, sem Aristóteles aðhylltist áður, og sér sál og líkama sem tvo óaðskiljanlega hluta eða tvær hliðar á sama hlut. – Í fyrirlestrinum verður fjallað um kenningu Aristótelesar um svefn, hvernig kenningaramminn um orsakirnar fjórar virkar í skýringum á svefni, og hvernig hið sameiginlega skynfæri virkar – eða virkar ekki – í tilfelli svefns og drauma. Gengið verður út frá ritinu De somno (Um svefn) en einnig vísað til De anima (Um sálina) og náttúrufræðiritanna.

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki
Hvers konar manneskja er efahyggjumaðurinn?

Efahyggjumaður nútímans hefur áhyggjur af þekkingunni, hvort maður geti vitað nokkuð fyrir víst, svo að hafið sé yfir allan vafa. Efahyggjumaður fornaldar hafði einnig þessar áhyggjur, en gekk þó lengra, því ekki einasta var vafasamt hvort hægt væri að höndla þekkingu, heldur hvort réttmætt væri að hafa skoðanir. En ef maður hefur engar skoðanir, var spurt, hvernig getur maður gert nokkuð eða ákveðið hvað skuli gera. Sextos Empeirikos, róttækur efahyggjumaður frá 2. öld e.Kr., sagðist fylgja því sem honum virtist vera raunin. En útlegging hans á því sem honum virðist vera raunin bendir til þess að líf hans sé svo fátæklegt að varla sé um mannlegt líf að ræða. Þessi vandi róttækrar efahyggju er viðfangsefni fyrirlestursins.

Geir Þórarinn Þórarinsson, doktorsnemi við Princeton-háskóla og stundakennari við HÍ
Hamingja, dygð og mannlegt eðli

Flestir heimspekiskólar fornaldar höfðu kenningar um mannlegt eðli, misvel útfærðar að vísu. Í sumum tilvikum byggðist siðfræði heimspekinganna beinlínis á kenningum þeirra um manneðlið. Stóuspekingar höfðu kenningu um eðlishvatir og viðfang þeirra (gr. oikeiosis) sem gegndi ákveðnu hlutverki í siðfræði þeirra. Aristótelískir heimspekingar gældu ekki við slíkar hugmyndir fyrr en á fyrstu öldunum eftir okkar tímatal. Hvaða not höfðu þeir fyrir þær? Undir lok annarrar aldar eftir okkar tímatal teflir Alexander frá Afrodisías fram aristótelískri kenningu um eðlishvatir og viðfang þeirra til þess að andmæla kenningu Stóumanna um að dygð sé nægjanleg forsenda hamingjunnar. Þannig er aukin áhersla lögð á náttúruhyggju í aristótelískri siðfræði en hún er í senn mikilvæg þáttur siðfræðinnar og aðlaðandi.

Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki
Að rækta garðinn sinn: Nietzsche um Stóumenn og epikúringa

Margir hugsuðir nítjándu aldar litu til fornaldar til að skerpa heimspekilega sýn sína og greina hana frá hinum kristna tíðaranda. Í erindinu verður skoðað eitt athyglisvert augnablik í ritum Nietzsches þar sem hann ræðir um Stóumenn og epikúringa og virðist staðhæfa að andans menn (þeir sem sinna andlegum verkum) ættu umfram allt að forðast að tileinka sér aðferð Stóumanna en gera þess í stað epikúrískar ráðstafanir.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is