Heimspeki og líkaminn

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-16.30.

Vestræn heimspeki hefur stundum verið sökuð um að vanrækja líkamann, en á síðustu árum og áratugum hefur líkaminn orðið viðfangsefni æ fleiri heimspekinga. Í málstofunni verður fjallað um líkamann frá mismunandi sjónarhólum bæði austrænnar og vestrænnar heimspeki.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Hlutverk líkamans í daoískri og konfúsíanskri sjálfsrækt
  • Jóhannes Dagsson, aðjunkt við myndlistardeild LHÍ: Mannvélin og vélmennið: Hugleiðingar um skynjun og einstaklinga
  • Gunnella Þorgeirsdóttir, aðjunkt í japönskum fræðum: Taishitsu og Jibyō: Hugmyndir um líkamann í japanskri menningu

Kaffihlé

  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar og kennari við sagnfræði- og heimspekideild: Friðhelgi einkalífsins, líkaminn og sýndarveruleiki
  • Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, MA í heimspeki: Líkaminn í ljósi fyrirbærafræðinnar
  • Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, stundakennari við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands: Líkaminn og fagurfræði

Málstofustjóri: Erla Karlsdóttir, doktorsnemi í heimspeki

Útdrættir (fleiri væntanlegir):

Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Hlutverk líkamans í daoískri og konfúsíanskri sjálfsrækt

Afstaðan til líkamans í kínverskri hugsun fornaldar markast af þeirri heimsfræði sem kennd er við „qi“, grunnefni allra fyrirbæra sem einnig hefur verið kennt við lífsorku. Qi tryggir einingu manns og heims í mjög bókstaflegum skilningi þar sem manneskjan er engu síður en allt umhverfi hennar qi. Með hliðsjón af þessum heimsfræðilega bakgrunni hyggst ég í þessu erindi gera samanburð á nálgunum daoista og konfúsíanista á mennta-, þroska- eða sjálfsræktarferli manneskjunnar en frá sjónarhóli beggja er líkaminn með öllu óaðskiljanlegur liður ferlisins, þótt með eilítið ólíkum hætti sé. Ég kýs að lýsa muninum á þessum nálgunum þannig að í daoisma er „dao holdgað“ meðan konfúsíanistar „holdga dao“ en munurinn ræðst einnig að nokkru leyti af ólíkum skilningi hefðanna á dao. Tekin verða ýmis dæmi úr ritum daoista og konfúsíanista til að varpa ljósi á þessar nálganir en jafnframt vikið að forvitnilegum samanburði við vestræna fyrirbærafræði.

Jóhannes Dagsson, aðjunkt við myndlistardeild LHÍ: Mannvélin og vélmennið: Hugleiðingar um skynjun og einstaklinga

Samkvæmt Donnu Haraway (1991) er sæborg “…samruni vélar og líkama, sköpunarverk félagslegs veruleika, sem og afsprengi skáldskapar … í okkar samtíma erum við öll kímerur, samsuður úr vél og líkama, byggðar á kenningum eða skáldskap, í stuttu máli, við erum sæborgir.” Þessi samruni vélar og líkama gengur auðveldar fyrir sig ef líkami er skilinn sem einhverskonar vélrænt fyrirbrigði, það er fyrirbrigði sem lítur að öllu leyti ákveðnum útskýranlegum efnislegum lögmálum. Eins og Evan Selinger og Timothy Engström hafa bent á (2008) fellur hugmyndin um sæborgina því vel að hugmyndum um mannslíkamann, og mannshugann sem vél og hugbúnað. Ef líkaminn er nokkurskonar lífræn vél, og hugurinn það forrit sem stjórnar henni, virðist ekki margt því til fyrirstöðu að bæta við vélina nýjum hlutum, og jafnvel uppfæra hugbúnaðinn. Þetta samband hugmyndarinnar um sæborgina, og hugmyndarinnar um líkamann og einstaklinginn kallar vitanlega á ótal siðferðilegar og verufræðilegar spurningar.

Í erindi mínu nota ég hugmyndir um skynjun, og þá sérstaklega skynjun og hugmyndir um aðra einstaklinga,  til að varpa ljósi á nokkrar af þessum spurningum. Ég byggi að hluta til á viðtölum sem tekin voru vegna vinnu við NERRI verkefnið sem siðfræðistofnun Háskóla Íslands var þáttakandi í. Margir viðmælanda virtust hafa áhyggjur af því hvaða áhrif mismunandi andleg geta (tilkomin með lyfjagjöf eða öðrum inngripum) hefði á samband einstaklinga á millum, og af því að einstaklingshugtakinu væri hætta búin með tilkomu sæborgarinnar. Þessar áhyggjur virtust oft tengjast hugmyndum um líkama, sem skýrt skilgreindu fyrirbæri, nokkuð sem sæborgin setur í uppnám.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar og kennari við Sagnfræði- og heimspekideild: Friðhelgi einkalífsins, líkaminn og sýndarveruleiki

Einn grundvallar þáttur í skilningi okkar á hugtakinu friðhelgi einkalífsins (e. privacy) tengist því hvernig við myndum tengsl við annað fólk, hvernig við deilum saman svæði og upplýsingum um okkur. Forsenda þessa skilnings á friðhelgi einkalífsins er sá að við erum líkamlegar verur – við sjáum og skynjum aðra sem aftur sjá og skynja okkur. Þessi líkamleiki er ekki fyrir hendi í rafrænum samskiptum, þar sem við getum villt á okkur heimildir, sjáum aðra án þess endilega að sjást, en skiljum samt eftir okkur spor. Hvað merkir friðhelgi einkalífsins eða persónuvernd í þessu samhengi? Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þær breytingar sem orðið hafa á skilningi okkar á friðhelgi einkalífsins með öflugri samskiptatækjum og því velt upp hvort og þá hvernig hægt er að vernda þessi réttindi á þessu nýja sviði. 

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, MA í heimspeki: Líkaminn í ljósi fyrirbærafræðinnar

Fyrirbærafræði hefur oft verið sökuð um að taka illa eða ekki á líkamleika okkar. Þannig hafa gagnrýnisraddir látið að því liggja að fyrirbærafræði sé hughyggja í anda nýaldar sem horfi aðeins til meðvitundarinnar á kostnað líkamans og viðhaldi þannig hinni hefðbundnu kartesísku skiptingu í sál og líkama.

Í fyrirlestrinum verður þessari gagnrýni svarað með því að beina sjónum að tveimur verkum Husserls þar sem hann leggur aukna áherslu á hlut líkamans í stöðu okkar gagnvart heiminum. Annars vegar er það bókin Ideas Pertaining to a Pure Phenomenology and to a Phenomenological Philosophy og hins vegar The Crisis of European Sciences and Transcendental Phenomenology, en sú fyrrnefnda hafði mikil áhrif á verk Martin Heidegger og Maurice Merleau-Ponty. Ég mun kynna stuttlega nokkur leiðarstef í þeirriumræðu, en þar skiptir höfuðmáli greinarmunurinn á hinum hlutgerða líkama (þ. *Körper*) og hinum lifða líkama (þ. *Leib*).

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, stundakennari við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands: Líkaminn og fagurfræði

Vestræn tvíhyggja hugar og líkama hefur haft áhrif á heimspekilega fagurfræði líkt og önnur svið heimspekinnar. Þannig gerir algengur skilningur á fegurð og hinu fagurfræðilega ráð fyrir því að fegurðarupplifun felist í fjarlægri, sjónrænni upplifun, þar sem vitund og viðfang eru aðskilin. Í erindinu verða þessi áhrif tvíhyggju á fagurfræði rædd, auk þess sem áhrif þess að veita líkamanum aukna athygli innan fagurfræðinnar verða skoðuð. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is