Heimspeki og upplýsing að fornu og nýju

Laugardagurinn 14. mars kl. 15.00-16.30.

Fjallað verður um heimspeki Upplýsingarinnar og hún rædd bæði hugmyndasögulega og út frá þeirri þýðingu sem hún hefur í samtímaheimspeki. Varpað verður ljósi á nokkrar meginhugmyndir hennar með hliðsjón af hugmyndum Descartes um skynsemina og út frá samanburði á grísku upplýsingunni í fornöld og þeirri evrópsku á 18. öld. Staða Upplýsingarinnar hefur verið mikið bitbein á síðustu áratugum í meginlandsheimspeki en Jürgen Habermas hefur hins vegar lýst heimspekilegum áformum sínum sem upplýsingarverkefni þar sem endurskoðun skynseminnar er í fyrirrúmi.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Efinn og upplýsingin
  • Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki: Upplýsingin og hið náttúrulega skilningsljós
  • Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Habermas og upplýsingin

Málstofustjóri: Björn Þorsteinsson, lektor í heimspeki 

Útdrættir:

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Efinn og upplýsingin

Efahyggja fornaldar, ekki síst í pyrrhonskri útleggingu Sextosar Empeirikosar, hafði töluverð áhrif á nýöld (Michel de Montaigne, Pierre Gassendi, Réne Descartes, Pierre Bayle). Á 16. og 17. öld þótti efahyggja samrýmanleg guðstrú, enda beindist gagnrýnin að getu skynseminnar til að leysa vanda. Þegar kemur að 18. öld hefur efinn einnig beinst að trúnni, enda skynseminni hampað jafnmikið og hjá fornmönnum. Efahyggja hefur umbreyst í eins konar aðferðafræði sem er samrýmanleg raunvísindum. Kannski mætti rekja síðustu áfanga þess ferðalags til Davids Hume. Upplýsingin hefur að geyma efahyggju sem hluta af raunhyggju og skynsemistrú. Henni er beitt af bjartsýni þeirra sem trúa á mátt skynseminnar. Það er ein arfleifð upplýsingarinnar. Hún er þá orðin andhverfa hinnar upphaflegu efahyggju fornaldar sem tortryggir skynsemina.

Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki: Upplýsingin og hið náttúrulega skilningsljós

Í erindinu verður rætt um hugmyndina um hið náttúrulega skilningsljós, einkum eins og hún er notuð í ritum Descartes, tengsl hennar við fyrri hugmyndir, til dæmis hjá Ágústínusi, og samband hennar við skynsemishugtakið. Ýmsir aðrir heimspekingar tóku upp þá hugmynd að skynsemin væri náttúruleg, söm og jöfn, og væri sá mælikvarði sem meta mætti með fyrri lærdóm í vísindum, og viðteknar hefðir og venjur í þjóðfélaginu. Hve mikið af fyrri hugmyndum fylgdu með í hugmyndinni um hið náttúrulega skilningsljós? Hvaða afleiðingar hafði það fyrir möguleika upplýsingarinnar að skilningsljósið var hugsað sem náttúrulegt? Að hve miklu leyti eru þessar gömlu hugmyndir undirstaða hugsunarháttar nútímans?

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Habermas og upplýsingin

Sú gagnrýna kenning um samfélagið sem mótuð var á vegum Frankfurtarskólans hafði frelsun manna undan margvíslegu félagslegu og menningarlegu oki að markmiði. En sumir Frankfurtarskólamanna voru mjög gagnrýnir á áhrif Upplýsingarinnar á samfélagið. Fræg er gagnrýni Horkheimers og Adornos í Díalektík Upplýsingarinnar þar sem rök eru færð fyrir því að skynsemisvæðing vestræns samfélags einkennist af tæknilegum yfirráðum sem hafi leitt menn í ógöngur fremur en uppfyllt þau frelsunarloforð sem einkenndu Upplýsinguna. Habermas tekur að miklu leyti undir siðmenningargagnrýni Horkheimers og Adornos en sýnir jafnfram á mikilvægar takmarkanir hennar hvað varðar afdrif Upplýsingarinnar. Framsókn skynseminnar, eins og hugtak Webers um rökvæðingu heimsins er kallað í íslenskri þýðingu, megi ekki leggja að jöfnu við framgang tæknilegrar rökvísi þar sem æ fleiri svið mannlífsins eru lögð undir tæknivaldið. Það stríði gegn hugsjónum Upplýsingarinnar og eigi að halda tíru á leiðarljósum hennar verði að endurskoða sjálft skynsemishugtakið. Meginverkefni Habermas hefur verið að móta kenningu um samskiptaskynsemi sem á rætur í notkun tungumálsins og lýtur allt öðrum lögmálum en tæknileg rökvísi. Habermas leitast þannig við að skjóta nýjum stoðum undir gagnrýna kenningu um samfélagið og þeim heimspekilegu áformum má lýsa sem upplýsingarverkefni þar sem endurskoðun skynseminnar er í fyrirrúmi.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is