Hinsegin saga og sagnaritun á Íslandi

 

Þótt hinsegin fólk hafi að öllum líkindum verið til frá örófi alda hefur veruleiki þess og menning í gegnum tíðina gjarnan verið sveipuð þagnarhjúpi í sögubókum og sagnfræðiritun. Viðhorf almennings til samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á Íslandi hefur breyst mikið og orðið jákvæðari á undanförnum árum en saga þessa jaðarhóps og menningar hans í íslensku samhengi er engu að síður að miklu leyti enn óskrifuð. Í þessum tveimur málstofum leiða saman hesta sína sex sagnfræðingar, kynjafræðingar og bókmenntafræðingar og taka skref í átt að ritun hinsegin sögu á Íslandi. Fyrirlestrarnir fjalla um breitt svið ólíkra viðfangsefna, fyrst og fremst frá 20. öld en einnig er litið aftur til miðalda og fram til samtímans, og glíma við sögu einstaklinga, hópa og bókmenntaverka jafnt sem söguskoðun og sagnritun.

 

 

Málstofustjórar: Ásta Kristín BenediktsdóttirÍris Ellenberger og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10.30-12.00 (stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, meistaranemi í kvenna- og kynjasögu við Háskólann í Vín: Hinsegin saga: Uppruni og endimörk
  • Kristín Svava Tómasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur: „Hún leysir úr fjötrum fáfræði og hindurvitna“. Vald þekkingarinnar og bókasafn Samtakanna ´78
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, sjálfstætt starfandi fræðimaður: Vörumerki sjúkdóms: Saffó á Íslandi á 19. og 20. öld

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Þorvaldur Kristinsson kynjafræðingur: Glímukappi fellur: Mál Guðmundar Sigurjónssonar 1924 - FELLUR NIÐUR
  • Ásta Kristín Benediktsdóttir, íslensku- og bókmenntafræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og University College Dublin: „Sjoppa ein við Laugaveginn [...] hefur fengið á sig orð sem stefnumótastaður kynvillinga.“ Laugavegur 11 og orðræða um kynvillu á 6. áratugnum
  • Íris Ellenberger, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur í ReykjavíkurAkademíunni: Hinsegin paradísin Ísland í ljósi sögunnar og hinsegin þjóðernishyggju
  • Pallborðsumræður: Hvernig eflum við hinsegin hugvísindi?

​Fundarstjórar: Hilmar Hildar Magnúsarson, formaður Samtakanna '78 og Erla Hulda Halldórsdóttir, sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

Útdrættir:

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, meistaranemi í kvenna- og kynjasögu við Háskólann í Vín: Hinsegin saga: Uppruni og endimörk

Erindið er hugsað sem inngangur að tveimur málstofum sem fjalla um hinsegin sögu og sagnaritun á Íslandi. Í erindinu verður fjallað um grunnspurningar og hugmyndir hinsegin sagnaritunar; hvernig hún skilgreinir sig, hverju hún getur áorkað og hver takmörk hennar eru. Farið verður stuttlega yfir þróun hinsegin sögu og sagnaritunar á Vesturlöndum frá því að þjóna hlutverki sjálfsmyndarsköpunar og þekkingarmiðlunar í pólitískri réttindabaráttu jaðarhóps yfir í akademíska fræðigrein sem leitast við að skýra og greina hugmyndir og formgerðir um kynverund(ir), kyngervi og líkama, svo eitthvað sé nefnt. Ennfremur verður leitast við að máta hinsegin sagnaritun á Íslandi við þessa þróun og staðsetja hana í því samhengi. 

Kristín Svava Tómasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur: „Hún leysir úr fjötrum fáfræði og hindurvitna“. Vald þekkingarinnar og bókasafn Samtakanna ´78

Bókasafn Samtakanna ´78 var stofnað árið 1987 og á 27 ára starfsferli þess byggðu félagsmenn smám saman upp metnaðarfullt safn bóka, tímarita, kvikmynda og blaðaúrklippa um hinsegin líf og málefni. Það var yfirlýst verkefni Samtakanna ´78 frá upphafi að berjast fyrir réttindum og sýnileika samkynhneigðra á Íslandi með markvissri útbreiðslu þekkingar bæði inn á við og út á við. Í erindinu verður stofnun og starfsemi bókasafnsins rædd sem mikilvægur þáttur í þessu verkefni, út frá þeirri hugmynd að þekking sé ekki einhvers konar hlutlaus upplýsing heldur vald sem hópar með ólíka hagsmuni takast á um.

Þorsteinn Vilhjálmsson, sjálfstætt starfandi fræðimaður: Vörumerki sjúkdóms: Saffó á Íslandi á 19. og 20. öld

Forngríska skáldkonan Saffó skrifaði ástarkvæði til kvenna og vísar orðið lesbía beint til uppruna hennar á eynni Lesbos. Hún hefur því lengi verið táknmynd fyrir ást kvenna á milli og sem slík hafa kvæði hennar og ævisaga ýmist verið ritskoðuð eða ýkt upp úr öllu valdi. Íslenskar þýðingar á Saffó og umfjöllun um hana bera skýr merki þessara alþjóðlegu strauma. Þá sjaldan sem rætt var um ástir milli kvenna á Íslandi á 19. öld og snemma á þeirri 20. voru þær jafnan tengdar Saffó, annaðhvort til að neita tilvist slíkrar ástar yfirhöfuð eða fjarlægja hana íslenskum veruleika. Erindið mun skoða þessa umræðu og þýðingar og rannsaka þá margbreytilegu hugmyndafræði sem lá að baki íslenskum viðtökum Saffóar.

FELLUR NIÐUR - Þorvaldur Kristinsson kynjafræðingur: Glímukappi fellur: Mál Guðmundar Sigurjónssonar 1924

Árið 1924 var Guðmundur Sigurjónsson, þjóðþekktur glímukappi, dæmdur til fangelsisvistar fyrir mök við aðra fullveðja karlmenn. Það er í eina sinn sem slíkur dómur var felldur með stoð í fyrstu íslensku hegningarlögunum sem giltu 1869–1940. Fjallað verður um sögulegar forsendur þessara málaferla og hvernig vitundin um samkynhneigða karla sem sérstakan og glæpsamlegan þjóðfélagshóp þróaðist í Evrópu undir lok 19. aldar uns hún nam land á Íslandi. Fjallað er um opinbera og einkalega umræðu eins og hún tengist málaferlunum með hliðsjón af hugmyndum um tungumálið sem rými og leyfilega og óleyfilega orðræðu.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, íslensku- og bókmenntafræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og University College Dublin: „Sjoppa ein við Laugaveginn [...] hefur fengið á sig orð sem stefnumótastaður kynvillinga.“ Laugavegur 11 og orðræða um kynvillu á 6. áratugnum

Framan af 20. öld snerist umræðan um samkynhneigð í íslenskum fjölmiðlum – sem var bæði lítil og snubbótt – að miklu leyti annaðhvort um kynvilluhneyksli erlendis eða kynvillu sem hugmynd eða huglægt fyrirbæri. Afar lítið var rætt um samkynhneigð sem hluta af íslenskum veruleika fyrr en komið var fram yfir 1950 en þá þróaðist nokkuð harkaleg orðræða um kynvillu sem samfélagslegt vandamál á Íslandi – eins konar smitpest sem yrði að bregðast við áður en hún næði að breiðast út. Athygli vekur að í þessari orðræðu, sem var að miklu leyti bundin við Mánudagsblaðið en má einnig sjá í öðrum miðlum, er kaffihúsið á Laugavegi 11 í Reykjavík áberandi en það var talið hýsa ýmiss konar samfélagsleg úrhrök, aðallega kynvillinga og iðjulausa listamenn.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um orðræðu um kynvillu eins og hún birtist í íslenskum fjölmiðlum á 6. áratugnum og hvernig hugmyndin um kynvillinginn annars vegar og listamanninn hins vegar renna þar saman. Þetta verður rætt í tengslum við fræðilega umfjöllun um samkynhneigð í vestrænu samhengi, sér í lagi kenningar danska félagsfræðingsins Hennings Bech sem heldur því fram að samkynhneigð sem fyrirbæri, sér í lagi hinn samkynhneigði karl, hafi orðið ein af birtingarmyndum hins illa í vestrænum hugmyndaheimi nútímans. 

Íris Ellenberger, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur í ReykjavíkurAkademíunni: Hinsegin paradísin Ísland í ljósi sögunnar og hinsegin þjóðernishyggju

Útópían Ísland á ég langa sögu og allt frá því að lýsingar á landinu voru fyrst festar á blað hefur því reglulega verið lýst sem fyrirmyndarlandi. Ein af nýjustu birtingarmyndum þessa fyrirbæris er hugmyndin um Ísland sem hinsegin paradís. Hún er að vissu leyti í takt við eldri ímyndir af landinu en felur einnig í sér ákveðna nýbreytni því þar er jaðarsettur minnihlutahópur notaður sem tæki í ímyndarsköpun. Sú staðreynd bendir til þess að að hinsegin fólk, a.m.k. hluti þeirra, sé ekki lengur í stöðu „hinna“, þeirra sem hin svokallaða íslenska þjóð miðar sig við en stendur einnig ógn af. Þvert á móti bendir hugmyndin um hinsegin paradísina til þess að það hafi fengið aðgang að þjóðinni sem útilokaði það svo lengi, líkt og gerst hefur víðar á Vesturlöndum.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig innlimun hinsegin fólks (þó aðallega samkynhneigðs fólks) í þjóðina fer fram og þá orðræðu sem einkennir hana með áherslu á ímyndina af Íslandi sem hinsegin fyrirmyndarsamfélagi. Varpað er ljósi á tvenns konar orðræður sem hafa mótandi áhrif á hana, annars vegar sögulegar orðræður um útópíur í norðri og hins vegar þverþjóðlegar orðræður hinsegin þjóðernishyggju sem hefur hefur nýlega orðið viðfangsefni rannsókna í Bandaríkjunum og Evrópu. Þar hafa augu fræðimanna beinst að því hvernig innlimun hinsegin fólks í þjóðina á sér stað samfara útilokun annarra jaðarhópa og hvernig hinsegin fólk tekur, viljandi eða óviljandi, þátt í því ferli. Hér er því skoðað hvernig hin íslenska hinsegin útópía fléttast saman við sköpun ógnandi staðalmynda af múslimum og innflytjendum frá Austur-Evrópu. Þannig verður leitast við að skýra ákveðnar breytingar á því hverjir teljist til „okkar“ og hverjir til „hinna“ í íslenskri þjóðernissjálfsmynd á 21. öld og varpa ljósi á orðræður sem normalísera og innlima einn jaðarsettan hóp með því að gera annan jaðarhóp að „hinum“.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is