Höfundarréttur er að þenjast út eins og alheimurinn: Höfundarlög í þverfaglegu ljósi

Laugardagur 10. mars kl. 10-12
Stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Höfundarréttur er að þenjast út eins og alheimurinn: Höfundarlög í þverfaglegu ljósi

Frá því að höfundarlög voru fyrst sett hefur gildissvið þeirra með reglulegu millibili víkkað út, rétthöfum fjölgað, gildistíminn lengst, viðurlögin þyngst og verndin dýpkað og styrkst. Í upphafi náði höfundarréttur aðeins til prentaðra bóka, þær urðu að uppfylla skilyrði um frumleika og vera kenndar höfundum, höfundarréttur var bundinn landamærum ríkisins og gildistíminn var aðeins til nokkurra ára.

Mikið vatn hefur síðan runnið til sjávar, en þar til á síðustu árum vakti höfundarréttur þó litla athygli utan lögfræðinnar og útgáfubransans. Nú er höfundarréttur hins vegar ofarlega á baugi í þjóðmálaumræðunni og ratar reglulega á forsíður dagblaða. Höfundarréttur er mikilvægur hluti af umgjörð allrar menningarneyslu og listrænnar sköpunar í nútímasamfélagi, og snertir okkur flest daglega með einum eða öðrum hætti, hvort heldur sem er á netinu eða á næstu leigu, í háskólasamfélaginu, í jarðarförinni eða enn annars staðar. Mikið er í húfi: afkoma listamanna, heiður höfunda og viðskiptalíkan útgefenda vega salt við frjálst flæði hugmynda, réttinn til menningar, réttinn til upplýsinga, tjáningarfrelsi og listræna nýsköpun. Jafnvel má ráða af umræðunni að heilu kynslóðirnar séu glæpamenn – menningarneysla þeirra sé ólögleg og sköpunin sömuleiðis (hér þarf bara að hugsa til allrar umsköpunarinnar á misjafnlega höfundarvörðu efni á youtube, eða sömplunar í hipp-hopp tónlist). Því kemur ekki á óvart að undanfarin ár hefur spunnist lífleg umræða um höfundarrétt bæði innan og utan lögfræðinnar, í hug- og félagsvísindum og í listum.

Í málstofunni verða kynntar nokkrar nýjar rannsóknir í þjóðfræði og hagfræði sem eru framlag til þessarar þverfaglegu samræðna um höfunda, rétt þeirra og eignarhald á menningu.

Fyrirlesarar:

  • Valdimar Tr. Hafstein, dósent í þjóðfræði: Mikki mús byggði hús, húsið brann: Hugmyndaflugið, hefðirnar og höfundarrétturinn
  • Áki G. Karlsson, doktorsnemi í þjóðfræði: Höfundarréttur á þjóðfræðiefni og þjóðnýting almenningsins
  • Egill Viðarsson, þjóðfræðingur og tónlistarmaður: Tár úr steini: Deilurnar um Vísur Vatnsenda-Rósu
  • Kristín Atladóttir, doktorsnemi í hagfræði: Of eða van? Skilvirkni höfundarréttar og þörf höfunda fyrir vernd

Málstofustjóri: Valdimar Tr. Hafstein, dósent í þjóðfræði

Útdrættir:

 

Valdimar Tr. Hafstein, dósent í þjóðfræði
Mikki mús byggði hús, húsið brann: Hugmyndaflugið, hefðirnar og höfundarrétturinn

Í þessum inngangsfyrirlestri málstofunnar rammar Valdimar almennt inn umræðuna um útþenslu höfundarréttar og veltir fyrir sér fórnarkostnaðinum af lengri gildistíma höfundarlaga og fjölgun andlaga þeirra, þyngri viðurlögum og dýpkaðri vernd. Hvaða þýðingu hefur það fyrir samfélagið að óheimilt sé á 21. öld að fara með Mikka mús á sama hátt og Walt Disney fór með sambærilegar fígúrur úr hugmyndaflugi síns samtíma og kynslóðanna á undan?

 

Áki G. Karlsson, doktorsnemi í þjóðfræði
Höfundarréttur á þjóðfræðiefni og þjóðnýting almenningsins

Í fyrirlestrinum ræðir Áki kröfu margra þróunarríkja um hugverkarétt fyrir alþýðumenningu og menningararf og hvernig hún hefur leitt til þjóðnýtingar hugverka sem áður voru talin tilheyra almenningi. Hann veltir upp spurningum um sanngirni þessarar kröfu og ræði rök með og á móti. Eins varpar hann fram spurningunni um stöðu almenningsins á Vesturlöndum og hvort hið opinbera og stofnanir þess hafi í reynd þjóðnýtt almenninginn utan hefðbundins lagaramma.

 

 

Egill Viðarsson, þjóðfræðingur og tónlistarmaður: Tár úr steini: Deilurnar um Vísur Vatnsenda-RósuÍ erindi fjallar Egill um deilur sem spunnust í kring um lagið Vísur Vatnsenda-Rósu fyrir rúmum áratug síðan. Málið hófst þannig að Jón Ásgeirsson tónskáld tók þjóðlagið „Enginn lái öðrum frekt“, sem finna má í þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar, og vann úr því stærra verk, lagið sem þekkt er sem „Vísur Vatnsenda-Rósu“. Árið 1995 gerði Jón athugasemd við notkun lagsins í myndinni Tár úr steini þar sem hann taldi að brotið hefði verið á höfundarrétti sínum. Í kjölfarið urðu deilur milli hans og Hjálmars H. Ragnarssonar, tónlistarstjóra myndarinnar, sem enduðu með því að STEF lét sérfróða menn á sínum snærum vinna mat á eignaraðild Jóns að laginu. Niðurstaðan varð sú að Jón ætti 10/12 hluta þess, en þetta mat varð mjög umdeilt og fleiri deilur spruttu í kjölfarið. Skoðað verður hvernig þessar deilur endurspegla og varpa ljósi á vandamál sem bundin eru við höfundarrétt í víðara samhengi. 

 

 

 

Kristín Atladóttir, doktorsnemi í hagfræði
Of eða van? Skilvirkni höfundarréttar og þörf höfunda fyrir vernd

Virkni höfundarréttar felst í getu rétthafa til að stjórna aðgengi að hinu varða efni. Rétthafar, sem annars vegar eru einstaklingar og hins vegar fyrirtæki,  hafa að mestu sömu réttindi þó þörf þeirra fyrir vernd sé mismunandi. Fyrirtæki í skapandi atvinnugreinum telja sig þurfa frekari vernd og reyna að fá verndartímann lengdan og verndarákvæðin styrkt. Einstaklingar geta að takmörkuðu leyti nýtt sér núverandi verndarákvæði og hafa því lítil sem engin nyt af lengri verndartíma. Vegna þessa má halda fram að höfundarréttarlög séu ekki sniðin að þörfum þeirra sem á vernd þurfa að halda. Erindið byggir á grein höfundar sem nefnist „Does one-size-fits-all fit anyone? Efficiency in copyright for primary creators“ og lýsir allratapi (e. dead-weight loss) sem skapast í kerfi þar sem lögvarin vernd, sem stýrir notkun og neyslu,  er í ósamræmi við þarfir þeirra sem á verndinni þurfa að halda.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is