Hrafnkell Freyr Lárusson

Tölvupóstfang: hfl2@hi.is

 

Doktorsnám: Sagnfræði

 

Leiðbeinandi: Guðmundur Hálfdánarson

 

Heiti doktorsverkefnis: Lýðræði í mótun: viðhorf, iðkun og þátttaka almennings

 

 

 

Um doktorsverkefnið: 

 

Meginmarkmið verkefnisins er að greina viðbrögð íslensks almennings við róttækum samfélagsbreytingum sem urðu á árunum 1880–1920. Þær birtust hvað skýrast í vaxandi þéttbýlismyndun, auknum lýðræðisréttindum almennings og meiri félags- og menningarlegri virkni. Í rannsókninni verður lögð áhersla á lýðræðisiðkun almennings á tímabilinu og áhrif hennar á þróun samfélags og stjórnmála. Rannsóknin mun einkum beinast að viðhorfum „hins almenna Íslendings“ þessa tíma til lýðræðislegar umræðu og hvernig hann/hún tók þátt og lét skoðanir sínar í ljós. Leitað verður uppruna hugmynda og hvernig (eða hvort) viðhorf almennings höfðu áhrif á ákvarðanir stjórnvalda. Niðurstöður rannsóknarinnar munu leiða til aukins skilnings á hver áhrif almennings voru á þróun nútímasamfélags á Íslandi.

 

Í verkefninu verða hegðun og viðhorf almennings greind með því að rannsaka vitnisburði persónulegra heimilda fremur en að draga ályktanir af útbreiddum hugmyndum, stuðningi við pólitísk öfl eða ákvörðunum lýðræðislegra stofnana. Sérstök áhersla verður lögð á Austurland sem á þessum tíma var skýrt aðgreint frá öðrum hlutum landsins vegna vegalengda og torveldra samgangna á landi. Austurland þessa tíma er líka áhugavert með tilliti til áðurnefndra samfélagsbreytinga og býður auk þess upp á sérstakar mótsagnir milli flókinna og öflugra tengsla við umheiminn og vissrar einangrunar frá öðrum hlutum landsins.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is