Hugmyndir um náttúruna

Laugardaginn 15. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 52 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Margs konar hugmyndir um náttúruna birtast í hugtökum og orðræðu hvers tíma. Í þessari málstofu verður skoðað hvernig slíkar hugmyndir mótast af því samhengi sem um ræðir hverju sinni. Reynt er að kryfja hvernig tíðarandi, skoðanir, hugsjónir og hagsmunir koma fram þegar íslensk náttúra er til umræðu. Í þremur erindum verða tekin jafnmörg dæmi um þetta. Fjallað verður um hlutgervingu og markaðssetningu norðurljósanna sem náttúru Íslands; um þróun landslagshugtaksins í íslenskum náttúruverndarlögum og þeirra hugmynda um náttúruna sem þar birtast; og um hugmyndina um þjónustu vistkerfa, sem mjög hefur rutt sér til rúms að undanförnu.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði og Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði: Að ferðast inn í myrkrið og fanga norðurljósin
  • Edda R.H. Waage, aðjunkt í land- og ferðamálafræði: Að ramma inn náttúruna með landslagið að vopni
  • Karl Benediktsson, prófessor í landfræði: Þjónusta vistkerfa – náttúrulaus hugmynd?

Málstofustjóri: Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður

Útdrættir:

Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði og Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði: Að ferðast inn í myrkrið og fanga norðurljósin

Myrkrið hefur löngum verið tengt neikvæðum öflum, ótta og hættum. Myrkrið flæðir yfir og hylur það sem dagsbirtan lýsir upp; það sem sýnilegt er. Nýlega hafa einstaka fræðimenn veitt myrkrinu athygli og leitast við að draga fram jákvæða eiginleika þess og þá ekki síst spurninguna um hvað ljós væri án myrkurs. Í þessu erindi verður athyglinni beint að norðurljósunum sem segja má að hafi á síðastliðnum þremur til fjórum árum lýst upp skammdegi íslenskrar ferðaþjónustu yfir vetrartímann. Norðurljósin hafa verið virkjuð sem vara og spila stóran þátt í framsetningu ímyndar Íslands í tengslum við markaðssetningu sem er áhugavert í ljósi hverfulleika ljósanna sjálfra sem lúta engri stjórn. Það eru ekki síst duttlungar ljósanna sem sveipa þau þeirri dulúð sem gerir þau eftirsóknarverð. Þetta er dulúð ómannlegra krafta sem manneskjan leitast við að fanga, í tilfelli ferðaþjónustunnar með það fyrir augum að selja myrkrið.

Edda R.H. Waage, aðjunkt í land- og ferðamálafræði: Að ramma inn náttúruna með landslagið að vopni

Hugtakið landslag hefur verið áberandi í náttúruverndarumræðu á Íslandi síðastliðin ár, eða allt frá því fyrst var farið að beita því með markvissum hætti við val á náttúruverndarsvæðum. Hefur merking þess verið túlkuð með mismunandi hætti í því samhengi. Hugtakið á sér þó mun lengri sögu innan náttúruverndar, enda kom það fyrir í fyrstu útgáfu almennra náttúruverndarlaga sem sett voru árið 1956. Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum rannsóknar á þróun landslagshugtaksins í lögum um náttúruvernd frá upphafi. Rannsóknin byggir á orðræðu- og textagreiningu á lögunum sjálfum og og tengdum skjölum. Með rannsókninni var leitast við að varpa ljósi á hugmyndafræðilegar forsendur náttúruverndar, og stöðu landslagshugtaksins í því samhengi. Niðurstöðurnar leiða í ljós breytingar á merkingu hugtaksins og útskýra þannig mismunandi túlkun þess á síðastliðnum árum. Rannsóknin sem um ræðir er hluti doktorsritgerðar höfundar sem hún varði við Háskóla Íslands í desember síðastliðnum. 

Karl Benediktsson, prófessor í landfræði: Þjónusta vistkerfa – náttúrulaus hugmynd?

Hugtakið „þjónusta vistkerfa“ (e. ecosystem services) hefur rutt sér mjög til rúms í umhverfisorðræðu á undanförnum árum. Með því er gerð tilraun til að draga fram í dagsljósið þau margþættu gæði sem mannlegt samfélag nýtur af hálfu náttúrunnar. Margt náttúruverndarfólk telur þarna vera hugtak sem geti gert náttúruvernd gjaldgenga – í orðsins fyllstu merkingu – í ákvörðunum sem teknar eru á markaði og í stjórnmálum. Það sem oftast hangir á spýtunni þegar rætt er um þjónustu vistkerfa er sú hugmynd að meta megi virði þeirra til fjár með því að verðleggja þá þjónustu sem þau veita. Í erindinu verður þetta skoðað gagnrýnum augum. Auk vafasamrar tengingar við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar felst gjarnan í talinu um þjónustu vistkerfa afar mannhverf sýn og trú á markmiðsbundna skynsemi, sem styðst við tilteknar tegundir vísindalegrar þekkingar. Um leið er hætta á að litið sé fram hjá þeirri fjölbreytni sem finna má í menningarlegum tengslum samfélaga við náttúruna, nýtingu auðlinda og stjórn. Samt sem áður er mikilsverð kjarnasannindi vissulega að finna í hugmyndinni um þjónustu vistkerfa. Hvernig má koma í veg fyrir að hún sé rænd allri náttúru – gerð náttúrulaus? 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is