Hugræn fræði

Hugræn fræði (e. cognitive science) hafa verið fyrirferðarmikil í bókmennta- og málfræðirannsóknum erlendis síðustu 30-40 ár en lítið hefur borið á þeim hérlendis. Þau einkennast meðal annars af því að mál og bókmenntir eru skoðuð með hliðsjón af manninum sem lífheild og reynslu hans í veröldinni. Fyrir vikið er óspart sótt til annarra fræðigreina eins og gervigreindarfræða, sálfræði og líffræði svo að eitthvað sé nefnt.

Boðið verður upp á tvær málstofur þar sem bókmenntafræðingar og málfræðingar, miðlunarfræðingur og sálfræðingur ræða um ýmis efni.

Hugræn fræði I

Lykilhugtök: höfundur/sögumaður – blöndun – sýndarveruleiki – samlíðan – tilfinningasagnir 

Fyrirlesarar:

 • Ásta Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Í leit að andlegum vini. Þura í Garði og æviminningar Vestur-Íslendingsins Sigurðar Jóhannssonar
 • Hannes Högni Vilhjálmsson, dósent í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík: Samskipti í sýndarrými
 • Anna Lea Friðriksdóttir, MA-nemi í íslenskum bókmenntum: Maður og kind – hugleiðingar um erótík og annað smálegt í Svari við bréfi Helgu
 • Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Hvað skilur hún í því? Um samlíðan og smásögur Halldórs Stefánssonar
 • Svavar Steinarr Guðmundsson, MA-nemi í íslenskum bókmenntum: „Almenningsrithöfundurinn býður sig hvaða helvítis skríl og illþýði sem er [...]“ – Um höfund(a) handrits
 • Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í íslenskri málfræði: Að elska, sárna og gleðja: Um stöðu skynjandans í tilfinningasögnum

Málstofustjóri: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum.

Útdrættir:

Ásta Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Í leit að andlegum vini. Þura í Garði og æviminningar Vestur-Íslendingsins Sigurðar Jóhannssonar

Frá 1926 til 1933 fóru reglulega bréf á milli Vestur-Íslendingsins Sigurðar Jóhannssonar og Þuru Árnadóttur í Garði í Mývatnssveit. Þau hittust aldrei en með þeim tókst einlæg vinátta sem hélst allt þar til Sigurður lést árið 1933. Árið 1959 ákvað Þura að púsla saman bútum úr bréfum Sigurðar og setja saman ævisögu hans, sem er nú varðveitt í handskrifuðu handriti á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík. Það eintak er þó ekki með rithönd Þuru heldur bróður hennar, Arnþórs Árnasonar, sem skrifaði handritið upp og batt inn í bók ásamt ljóðum Sigurðar.

Æviminningarnar er skrifaðar í 1. persónu og Þura segist hafa notað óbreytt orðalag úr bréfum Sigurðar. Um uppruna orðanna verður þó varla dæmt þar sem Þura brenndi bréfin en bæði hún og Arnþór líta á textann sem sjálfsævisögu. Aftur á móti er erfitt að líta framhjá þætti þeirra systkina í samsetningu verksins.

Fjallað verður um handritið út frá hugmyndum hugrænna fræða um sjálfsævisögur. Flókið samband höfundar, sögumanns og sögupersónu í handritinu verður til umfjöllunar, sem og tengslin milli sjálfsævisagna sem bókmenntagreinar annars vegar, og hins vegar þeirra sagna sem við segjum öll um okkur sjálf á hverjum degi.

Hannes Högni Vilhjálmsson, dósent í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík
Samskipti í sýndarrými

Þegar horft er á sögu mannkyns, þá hafa samskipti okkar lengst af þróast augliti til auglitis. Það er ekki fyrr en á allra síðustu misserum sögunnar sem samskipti án okkar eiginlegra líkama verða möguleg. Líkamleg tjáning er því þétt ofin inn í okkar eðlilega samskiptamynstur, jafnvel þótt líkaminn þurfi ekki að vera til staðar. Sýndarrými eru grafísk rými þar sem fólk kemur meðal annars saman í netheimum. Í slíku rými birtist líkaminn sem stafrænn holdgervingur, eða avatar. Hvaða hlutverki þjónar þessi holdgervingur í samskiptum okkar í sýndarrýminu? Verða slík samskipti nokkurn tíma svipuð samskiptum okkar augliti til auglitis

Anna Lea Friðriksdóttir, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
Maður og kind – hugleiðingar um erótík og annað smálegt í Svari við bréfi Helgu

Hvað geta hugræn fræði sagt um erótík, losta og hið pólítískt kórrétta? Nýjasta skáldsaga Bergsveins Birgissonar, Svar við bréfi Helgu, verður skoðuð út frá kenningum hugfræðinga (t.d. blöndun og myndhverfingum).

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Hvað skilur hún í því? Um samlíðan og smásögur Halldórs Stefánssonar

Hvers vegna finnum við til samlíðunar með skálduðum persónum sem við lesum um? Í fyrirlestrinum verður fjallað um valdar sögur Halldórs Stefánssonar með hliðsjón af skrifum hugfræðinga um samlíðun lesenda með persónum í skáldskap.

Svavar Steinarr Guðmundsson, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
„Almenningsrithöfundurinn býður sig hvaða helvítis skríl og illþýði sem er [...]“ Um höfund(a) handrits

Mennt er máttur; Tilraunir með dramb og hroka er handrit eignað Þórði Sigtryggssyni lífskúnstner. Þórður fékk hins vegar hjálp hjá Elíasi Mar rithöfundi og góðum vini við skrásetningu þess. Rætt verður um langt og flókið ferli handritsins áður en það nær endanlegri mynd, en Elías rekur síðasta stafinn á ritvél sína 7 árum eftir andlát Þórðar og 11 árum eftir að vinirnir hófu þetta undarlega samstarf. Einnig verður hugað að samstarfi þeirra félaga, „sögumanni“ og „höfundi“, með hliðsjón af nýlegum skrifum í hugrænum fræðum og drepið á einkenni textans sem verks er seint verður talið pólitískt kórrétt á þeim tíma sem það var samið.

Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í íslenskri málfræði 
Að elska, sárna og gleðja: Um stöðu skynjandans í tilfinningasögnum

Sagnir sem tákna tilfinningar hafa lengi valdið málfræðingum hugarangri, ekki síst spurningin um tengsl merkingarhlutverksins skynjandi (e. experiencer) annars vegar og málfræðihlutverka og fallmörkunar hins vegar. Hvernig stendur t.d. á því að í sumum tilfinningasögnum í ensku birtist skynjandinn (þ.e. sá sem upplifir tilfinninguna) sem frumlag, sbr. (1a), en með öðrum sögnum sem andlag, sbr. (1b)? 

(1a)      I like music

(1b)     Music pleases me

Í íslensku tekur þetta vandamál á sig enn flóknari mynd því þar getur skynjandinn verið frumlag í nefnifalli, þolfalli eða þágufalli, sbr. (2a-c), og andlag í þolfalli eða þágufalli, sbr. (3a-b):

(2a)      Sveinn elskar Maríu

(2b)     Mig langar að fara til Rómar

(2c)      Henni sárnaði þessi athugasemd

(3a)      Þessar fréttir glöddu alla viðstadda

(3b)     Svona bréf koma manni í vont skap

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um stöðu skynjandans í tilfinningasögnum, bæði í íslensku og öðrum málum, og rætt um hugsanlegar leiðir til að skýra hana á viðunandi hátt.
Hugræn fræði II

Lykilhugtök: tilfinningar – pólitísk rétthugsun – viðbrögð við íróníu/kaldhæðni – tourette/ljóðlist – rammar – líkingar – húmor – blöndun

Fyrirlesarar:

 • Aldís Guðmundsdóttir, sálfræðingur/íslenskufræðingur: Yrsa og óttinn: tilfinningaþrunginn frásagnarstíll nýjustu bókar Yrsu Sigurðardóttur
 • Sigurrós Eiðsdóttir, MA-nemi í íslenskum fræðum: Ertu að grínast, eða?
 • Þorsteinn Surmeli, MA-nemi í íslenskum bókmenntum: „[...] að dreyma heiminn sem hús“ – Um líkingar og rými í ljóðum Þorsteins frá Hamri
 • Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: Tourette og ljóðlistin
 • Guðrún Steinþórsdóttir, MA-nemi í íslenskum bókmenntum: „En mér finnst mannakjöt bara svo gott.“
 • Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku: Vopnlaus í nýjum texta

Málstofustjóri: Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun 

Útdrættir:

 

Aldís Guðmundsdóttir, sálfræðingur og íslenskufræðingur
Yrsa og óttinn: tilfinningaþrunginn frásagnarstíll nýjustu bókar Yrsu Sigurðardóttur

Fyrirlesari veltir fyrir sér að hvaða leyti aðferðir Yrsu Sigurðardóttur, í bókinni Ég man þig, eru frábrugðnar þeim aðferðum sem „höfundar“ Íslendingasagna nota við að skapa spennu með lesendum eða við að lýsa tilfinningalegu ástandi sögupersónanna.

Sigurrós Eiðsdóttir, MA-nemi í íslenskum fræðum
Ertu að grínast, eða?

Oft er litið á íróníu sem bragð/trópa í máli, þar sem merkingin er gagnstæð því sem sagt er. Síðustu áratugi hafa fræðimenn úr ólíkum áttum, t.d. sálfræðingar, málvísindamenn og heimspekingar, komið fram með kenningar til skýringar á notkun og skilningi á íróníu. Þessar kenningar hafa einblínt á mismunandi/ólík viðhorf til hugrænna, málvísindalegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á íróníska málnotkun. Litið er til þess sem talar eða sendanda og viðmælanda/viðtakanda.

Innan fræðanna hefur oft verið litið svo á að viðtakandi dragi aðeins ályktun af því sem er sagt eða því sem er gefið í skyn. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt fram á það að svörun við því sem er sagt eða því sem er gefið skyn sé fremur háð aðstæðum og samhengi og að viðtakendur átti sig á því gapi sem verður á milli þessara beggja þátta, en bregðist ólíkt við eftir því hvað aðstæður leyfa.

Hér er ætlunin að fjalla um ólík viðbrögð fólks við sama texta og verða dæmi tekin úr íslenskum fjölmiðlum, það samhengi sem textinn birtist í og við hvaða aðstæður viðbrögðin verða.

Þorsteinn Surmeli, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
„[...] að dreyma heiminn sem hús“ – Um líkingar og rými í ljóðum Þorsteins frá Hamri

Fjallað verður um valin ljóð Þorsteins frá Hamri og sýnt hvernig ákveðnar kenningar hugfræða geta aukið skilning á þeim og aðferðum höfundar. Í brennidepli verða hugtakslíkingar.

Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum
Tourette og ljóðlistin

Í erindinu verður sagt frá nýlegum skrifum um tengsl tourette-syndrómsins og ljóðlistar og sýnt með dæmum hvernig nýta mætti þau við greiningu ýmissa texta.

Guðrún Steinþórsdóttir, MA-nemi í íslenskum bókmenntum
„En mér finnst mannakjöt bara svo gott.“ 

Í fyrirlestrinum verður skáldsagan Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson til umfjöllunar. Efni bókarinnar verður tengt við hugræn fræði og í því sambandi fjallað um blöndunar- og rammakenningar þar sem megináhersla verður lögð á húmor og ótta.

Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku
Vopnlaus í nýjum texta 

Í erindinu verður fjallað um hvernig sögur rússnesku rithöfundanna Ljúdmílu Úlitskaju og Ljúdmílu Petrúshevskaju rekast með nokkuð afgerandi hætti á hugmyndir hins íslenska lesanda um pólitíska rétthugsun og siðferðileg viðmið. Leitast verður við að gera grein fyrir í hverju þetta felst og hvernig lesandinn styrkist við hvern játaðan ósigur.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is