Hugsað gagnrýnið um gagnrýni og hugsun

Laugardagurinn 14. mars kl. 10.30-12.00.

Í opinberri og fræðilegri umræðu er að mestu gengið út frá því að gagnrýni sé af hinu góða og að hugsun eigi að vera gagnrýnin. En eru gagnrýni og gagnrýninni hugsun einhver takmörk sett? Er gagnrýnin hugsun í einhverjum tilvikum andstæð þeirri sannleiksleit sem fram fer í fræðum og vísindum? Getur gagnrýni gagnvart tilteknum aðilum eða skoðunum gengið of langt? Og hver er annars tilgangur gagnrýninnar, bæði í opinberri og fræðilegri umræðu? Í þessari málstofu verður leitast við að svara spurningum sem þessum og varpa þannig nýju ljósi á tilgang, eðli og mikilvægi gagnrýninnar í hugsun okkar og orðræðu.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Að rífa niður og/eða byggja upp?
  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri á Siðfræðistofnun: Hvað ef? Um heilaköst, hugkvæmni og gagnrýnið hugmyndaflug
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur á Heimspekistofnun: Andóf eða innkauparáðgjöf? Um tilgang gagnrýni

MálstofustjóriGeir Þ. Þórarinssonaðjunkt í grísku og latínu

Útdrættir:

Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Að rífa niður og/eða byggja upp?

Gagnrýnin fræði (e. critical theory) miðast að því að taka allan samfélagsrammann til gagnrýnnar skoðunnar, sérstaklega varðandi samband valds og þekkingar á hverjum tíma. Hins vegar hafa þessi fræði verið gagnrýnd fyrir að vera of niðurrífandi og fyrir að vera ekki alltaf tilbúin til þess að bjóða upp á nýja samfélagsmöguleika. Í þessum fyrirlestri verða hugmyndir tveggja gagnrýnna hugsuða, Karen Barad og Kathi Weeks, kynntar til sögunnar. Þær koma úr sitthvorri áttinni en eiga það sameiginlegt að huga að sambandi femínisma og efnishyggju (e. materialism) auk þess sem þær leggja báðar áherslu á hið hlýja (e. the affirmative) í gagnrýni sinni sem og að skapa rými í gagnrýnum fræðum til þess að horfa fram á við, jafnvel á útópískan hátt.

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri á Siðfræðistofnun: Hvað ef? Um heilaköst, hugkvæmni og gagnrýnið hugmyndaflug

Kennsla í gagnrýninni hugsun byggist oft að stórum hluta á því að fólki er kennt hvernig varast ber svokallaðar rökvillur. Í framhaldi af því er gjarnan kennt hvernig bera á kennsl á mælskubrögð og aðra áróðurstækni sem oft er náskyld rökvillunum. En getur þessi áhersla á rökvillur gengið út í öfgar? Er hún kannski ekki eins mikilvæg gagnrýninni hugsun og gefið hefur verið í skyn? Í erindinu verður sjónum beint að þremur þekktum rökvillum og hugað að takmörkunum þeirra í ljósi mismunandi skilgreininga á sérkennum heimspekilegrar hugsunar.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur á Heimspekistofnun: Andóf eða innkauparáðgjöf? Um tilgang gagnrýni

Þegar við skoðum það sem sett er fram undir heitinu „gagnrýni“ sést fljótt að þar kennir ýmissa grasa. Er eitthvað sameiginlegt með öllu því sem kallað er gagnrýni? Eins er umhugsunarvert hvort og þá hvernig öll svonefnd gagnrýni hafi einhver tengsl við eitthvað sem við myndum kalla gagnrýna hugsun. Mikilvægasti tilgangur gagnrýninnar hugsunar hlýtur alltaf að vera möguleikinn á að geta andæft ráðandi öflum og veita andspyrnu þegar hún skiptir máli. Þegar horft er til sögu rökgreiningarheimspekinnar á fyrri hluta tuttugustu aldar má sjá þræði í þessa veru, til að mynda lögðu heimspekingar á borð við Bertrand Russell og Susan Stebbing mikla áherslu á notkun röklegrar heimspekilegrar gagnrýni sem samfélagsgagnrýni. Í þessu erindi verður skoðað hvað gagnrýni hafi með gagnrýna hugsun að gera, hvort gagnrýni þurfi alltaf að vera kurteisleg og hvernig það að geta komið auga á valdaþræði er lykilatriði í öllu saman.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is