Hugsað með Aristótelesi

 

Um þessar mundir er 2400 ára afmæli eins áhrifamesta heimspekings sögunnar, Aristótelesar. Í málstofunni verður fjallað um ýmsar hliðar á heimspeki hans, jafnt siðfræði sem frumspeki, sem og um áhrif hans á heimspekinga síðari tíma.

 

 

Málstofustjórar: Eiríkur Smári Sigurðarson og Svavar Hrafn Svavarsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.45 (stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

 • Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknarstjóri Hugvísindasviðs: Sjálfselska og réttlæti hjá Antifón og Aristótelesi
 • Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í grísku og latínu: Siðfræði Evdemosar
 • Björn Þorsteinsson, lektor í heimspeki: Vorkunn og paþos í Skáldskaparlist Aristótelesar

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-16.45 (stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

 • Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Aristóteles, hamingjan og guð
 • Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Er konfúsíanismi dygðasiðfræði að hætti Aristótelesar?
 • Mikael M. Karlsson, prófessor emeritus í heimspeki: Aristóteles um viljandi og óviljandi breytni

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

 • Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Aristóteles og Habermas
 • Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki: Aristóteles á miðöldum
 • Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki: Vegvísir um Frumspekina, bók Z: Formleg og efnisleg rökræða.
 • Henry Alexander Henrysson, aðjunkt í heimspeki: Hvers vegna að spyrja til hvers? Aristóteles um verundir, tilgang og tilgang verunda

Fundarstjórar: Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknarstjóri Hugvísindasviðs og Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki

Útdrættir:

Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknarstjóri Hugvísindasviðs: Sjálfselska og réttlæti hjá Antifón og Aristótelesi

Aristóteles og sófistarnir voru sammála um að dyggðug (eða góð) manneskja væri sjálfselsk. Þeir höfðu þó mjög ólíka sýn á hvað felst í því að vera dyggðugur og mjög ólíka sýn á siðferði og réttlæti. Sófistarnir vísuðu í náttúruna máli sínu til stuðnings, bentu á að það væri náttúrulegt að hugsa um sjálfan sig og að dyggðin fælist einmitt í að gera það vel. Á þessum grunni byggðu þeir gagnrýni sína á hefðbundnar hugmyndir um réttlæti. Aristóteles leitaði líka til náttúrunnar og eftir umtalsverðar rannsóknir á dýraríkinu virðist hann hafa komist að því að þó dyggðug manneskja sé sjálfselsk þá sé sjálfselska í skilningi sófistanna ekki náttúrulegt ástand. Í erindinu verða skoðanir sófistans Antifóns greindar og spurt hvort Aristóteles sé að bregðast við kenningum hans (eða annarra sófista) þegar hann leitar að grunni siðferðilegrar breytni.

Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í grísku og latínu: Siðfræði Evdemosar

Í 10. bók Siðfræði Níkomakkosar  gerir Aristóteles því skóna að farsæld felist í ákveðinni tegund virkni, einkum í lífi fræðilegrar, helst frumspekilegrar hugleiðingar. Þetta þykir nokkuð óvænt miðað við það sem á undan fer, þar sem töluverð áhersla er lögð á siðrænar dygðir, en einnig miðað við það sem á eftir fer, því siðfræðin er eins konar forspjall að stjórnspeki. Í Siðfræði Evdemosar er farsæld einnig skilin sem ákveðin virkni en framsetning og áherslur aftur á móti aðrar en í Siðfræði Níkomakkosar og ef til vill í meira samræmi við stjórnspekilegar hugmyndir Aristótelesar. Hvers vegna horfum við þá ekki meira til Siðfræði Evdemosar? Í erindinu er spurt hvernig farsældarhugmyndin í Siðfræði Evdemosar rímar við dygðafræði, sálarfræði, stjórnspeki og manneðlishugmyndum Aristótelesar.

Björn Þorsteinsson, lektor í heimspeki: Vorkunn og paþos í Skáldskaparlist Aristótelesar

Í ritgerð sinni Um skáldskaparlistina setur Aristóteles fram skilgreiningu á harmleiknum sem orðið hefur fræg: markmið harmleiksins er að kalla fram kaþarsis (útrás) hjá áhorfendum fyrir atbeina vorkunnar og skelfingar. Í erindinu verður hugað að  þessari skilgreiningu með sérstöku tilliti til sambands vorkunnar og rauna (paþos) og kannað hvort sú sýn á harmleikinn sem Aristóteles virðist miða við geri viðfangsefninu nægilega góð skil.

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Aristóteles, hamingjan og guð

Það má gera greinarmun á því að maður láti eigin heill og hamingju stjórna breytni sinni og að maður stjórnist af umhyggju og virðingu fyrir öðrum. Greinarmuninn má setja fram á marga vegu. Hann snertir yfirleitt greinarmun siðferðis og hamingju. Það mætti t.d. segja að breytni væri ekki siðleg að svo miklu leyti sem ástæður hennar væru heill breytandans. Þetta viðhorf mætti kenna við Kant. Hins vegar er almennt talið að fornmenn hafi litið á siðferði (siðrænar dyggðir) sem einhvers konar forsendu og nauðsynlegan þátt hamingjunnar. Siðferði og hamingja takast ekki á hjá fornmönnum. Aristóteles er skýrt dæmi um þetta viðhorf, að talið er. Í lestrinum verður efast um þessa söguskoðun og lagt til að fornmenn – og Aristóteles – hafi skilið mikilvægi greinarmunarins og viðurkennt átökin.

Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Er konfúsíanismi dygðasiðfræði að hætti Aristótelesar?

Samanburður á forngrískri heimspeki og fornri heimspeki annarra menningarheima á sér langa sögu. Markmið slíks samanburðar voru lengi vel annarleg og oftar en ekki af pólitískum toga. Í seinni tíð hefur slík samræða hins vegar einkennst af aukinni viðleitni til að tefla saman heimspeki ólíkra menningarheima í því skyni að opna fyrir nýjar víddir og annars konar sjónarmið. Í þessu erindi verður fjallað um tilraunir til að túlka konfúsíanisma sem ný-aristótelíska dygðasiðfræði en um þessar mundir stendur sú þvermenningarlega samræða í miklum blóma. Dregnir verða fram kostir þessarar túlkunar en jafnframt varpað ljósi á það hversu vandasamt getur verið að túlka eina heimspekilega menningarhefð út frá annarri.

Mikael M. Karlsson, prófessor emeritus í heimspeki: Aristóteles um viljandi og óviljandi breytni

Í Siðfræði Níkómakkosar (III,i) setur Aristóteles fram kenningu um viljandi og óviljandi breytni (hekousion og akousion). Þessi kenning hefur oft verið lögð til grundvallar í siðfræði og lögfræði í umræðu um hvort athafnir séu lofsverðar og lastverðar og hvort menn eigi skilið verðlaun eða refsingu – eða þá fyrirgefningu – fyrir gerðir sínar. En kenningin hefur einnig verið harkalega gagnrýnd. Til dæmis skrifar Anthony Kenny að Aristóteles hafi reynt að greina á milli hekousion og akousion án þess að taka siðadóma með í reikninginn, sem Kenny telur vera grundvallarmistök og kallar rök Aristótelesar „óbærilega myrk“. Í þessu erindi verður reynt að varpa ljósi á kenningu Aristótelesar með því að velta fyrir sér merkingu lykilhugtakanna auk þess að gefa sérstakan gaum að uppbyggingu kaflans.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Aristóteles og Habermas

Þegar fjallað er um heimspeki Habermas ber mjög lítið á tenglum hans við Aristóteles. Ég færi rök fyrir því að ástæða þessa sé að þær samtímatúlkanir á Aristótlesi sem kenndar eru við ný-aristótelisma leggi áherslu á þætti sem eru í andstöðu við gagnrýna heimspeki að hætti Habermas. Í erindinu verður því haldið fram að mörg grundvallarstef í heimspeki Habermas megi rekja til Aristótelesar, þótt útfærslan sé gerólík. Ég mun einkum byggja röksemdir mínar á þrennu. Í fyrsta lagi greinarmuni Aristótelesar á siðrænni og tæknilegri skynsemi, samskiptum og framleiðslu, sem gegnsýri alla hugsun Habermas. Í öðru lagi að meginverkefni Habermas hafi verið að renna stoðum undir þá siðrænu fyrirætlun sem er fólgin í allri verklegri heimspeki samkvæmt hugsunarkerfi Aristótelesar. Í þriðja lagi að báðir hugsuðir leggi út af rökræðu- og málhæfninni sem menn þurfa að nota á réttan hátt í viðleitni sinni til þess að móta farsælt líf og réttlátt samfélag.

Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki: Aristóteles á miðöldum

Aristóteles var sá heimspekingur sem mest var lesinn og skýrður á Vesturlöndum á miðöldum. Ætla mætti að það væri vegna þess að skóli Aristótelesar hefði verið sérlega áhrifamikill í heimspekihefð síðfornaldar. Sú var þó ekki raunin. Verk Aristótelesar voru lesin innan nýplatónsku heimspekiskólanna og tóku smám saman við af ritum Platóns sem meginefni skólans í Alexandríu. Þýðingar á ritum Aristótelesar voru upphaflega hluti af tilraunum til að þýða námsefni platónsku skólanna á latínu og síðar arabísku en ýmsar tilviljanir urðu til þess að rökfræði Aristótelesar var það eina sem aðgengilegt var í Vestur-Evrópskum skólum fram á 12. öld, þegar ný þýðingabylgja hófst sem náði hápunkti seint á 13. öld. Því hafa sumir fræðimenn haldið því fram að heimspeki Vesturlanda frá síðfornöld fram á nýöld sé í grunninn heimspeki eins tiltekins heimspekiskóla, hins nýplatónska skóla Porfýríusar, og vilja því tala um heimspeki hinna löngu miðalda (300 –1700).

Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki: Vegvísir um Frumspekina, bók Z: Formleg og efnisleg rökræða

Í Frumspekinni, bók Z, greinir Aristóteles að, með mjög skipulegum hætti, það sem við gætum kallað formlega frumspeki – hluti hennar myndi falla undir málspeki í dag – og efnislega frumspeki eða eiginlega frumspeki. Heimspekingar hafa orðað það svo að rökræðan í Z gangi fram á tveim stigum (e. two levels). Í fyrirlestrinum mun ég einkum fjalla um eftirfarandi þrjár spurningar:

 1. Hvað greinir að þessi tvö stig?
 2. Hvernig skiptist Z á milli þessara tveggja stiga?
 3. Hvaða áhrif hafa vangaveltur eða niðurstöðu á einu stigi á það sem um er rætt á hinu stiginu?

Ég mun gera grein fyrir hugmyndum Miles Burneyeat, Michaels J. Loux and Alans Code um tvö rökræðustig í Frumspekinni Z. Í framhaldinu mun ég bæði gagnrýna greinarmuninn sem þeir gera á þessum tvennskonar rökræðustigum og þær ályktanir sem þeir draga á grundvelli hans. Þótt þessir þrír heimspekingar hafi ólíkar hugmyndir um greinarmuninn sjálfan líta þeir allir svo á að í Z komist Aristóteles að þeirri niðurstöðu að frumverundir séu form. Að mínu viti sýnir réttur skilningur á hinum ólíku rökræðustigum að í Z setur Aristóeles ekki fram niðurstöðu um hvað frumverundir séu.

Henry Alexander Henrysson, aðjunkt í heimspeki: Hvers vegna að spyrja til hvers? Aristóteles um verundir, tilgang og tilgang verunda

Margir þekkja söguna af því hvernig ný vísindi gerbreyttu því sem stundum er kallað „aristótelísk heimsmynd miðalda“. Þessi saga fer með það sem staðreynd að tilgangshyggju Aristótelesar hafi meðal annars verið kastað fyrir borð enda hafi hún fallið illa að nýjum skilning á heiminum. Í erindinu er því haldið fram að grundvallaratriði í frumspeki Aristótelesar eins og verundarhugtak hans og tilgangshyggja hafi aldrei þurft að víkja fyrir hinum nýju vísindum. Enn fremur er bent á að tilraunir á sautjándu og átjándu öld til að skipta út verundarhugtakinu og tilgangshyggju hafi ratað í eigin vandræði. Að lokum eru færð rök fyrir því að í tilgangshyggju Aristótelesar felist líklega besta tækifærið til að útskýra fyrirbærin sem við kennum við efnislegan veruleika.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is