Hvað er í matinn? Fiskstautar, rúgbrauð með rjóma og lífrænar perur

Föstudagur 9. mars kl. 15-16.30
Stofa 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Matur er undirstaða lífsins og um leið tungumál sem tjáir menningu einstaklinga og samfélaga. Matariðnaðurinn er sá stærsti í heimi og á meðan heimsveldi rísa og hníga, þykknar hafragrauturinn hljóðlega í pottinum. Undanfarna áratugi hefur áhugi á mat og matarmenningu vaxið gríðarlega eins og greina má í matreiðsluþáttum, matreiðslubókum, matarbloggum, matartúrisma, skyndibita- og þægindamat, náttúrulegum og lífrænum mat, sögum og flökkusögum um iðnaðarsalt og rottubein, að ekki sé minnst á hungursneyð á heimsvísu. Frá örófi alda hefur maðurinn verið alæta og matarmenning á hverjum tíma og hverjum stað hefur tekið mið af pólitískum, félagslegum og menningarlegum þáttum. Framleiðsla og neysla matar hefur þannig endurspeglað aðlögunargetu og sköpunarþrá manneskjunnar en einnig harðneskju lífsins og djúpstæðan ótta. Matur vekur upp minningar um fólk og viðburði og í matarvenjum birtast sjónarmið sem vísa handan kaloríugilda. Matur skapar tengsl milli fólks þar sem menningarleg meltingarfæri brjóta fæðuna niður og næra ólíkar þarfir mannlegrar tilvistar.

Í þessari málstofu verður fjallað um matarmenningu á Íslandi, bæði í nálægri fortíð og samtíð. Markmið málstofunnar er að stofna til samræðu mismunandi fræðigreina og ólíkra fræðimanna sem eiga það sameiginlegt að finnast matur góður. Nýlega voru kynntar niðurstöður úr landskönnun á mataræði Íslendinga og því kærkomið tækifæri til þess að staldra við og velta fyrir sér hvað hafi verið í matinn í gær og hvað sé í matinn í dag. Við sögu koma frystir fiskstautar fyrir Bandaríkjamarkað (beint í ofninn eftir seinni heimsstyrjöld), rúgbrauð með rjóma og lífrænn matur. Verði ykkur að góðu!

 

 Fyrirlesarar: 

  • Jón Þór Pétursson, doktorsnemi í þjóðfræði og stundakennari: Þekktu matinn þinn
  • Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði og Örn D. Jónsson, prófessor í viðskiptafræði: Fiskstautar: Framlag Íslendinga til þægindamatar á Bandaríkjamarkaði eftir seinni heimsstyrjöld
  • Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði: Kolvetnafælni og kaloríur: Sagan um kornið í fæði Íslendinga

Málstofustjóri: Guðrún Hallgrímsdóttir, verkfræðingur

Útdrættir:

Jón Þór Pétursson, doktorsnemi í þjóðfræði og stundakennari
Þekktu matinn þinn

Lítill límmiði á yfirborði ávaxtarins hvatti mig til þess að kynnast bóndanum. Á heimasíðu sló ég svo inn númerið á miðanum og skyndilega stóð Eduardo ljóslifandi fyrir framan mig. Þarna stóð hann, úti á akri, og fræddi mig um ræktun og matarhefðir á meðan ég kjamsaði á safaríkri peru. Í gegnum hægvaxandi lífræna peru og háhraða nettengingu kynntist ég fjölskyldu frá Chile og í hvert sinn sem ég sé þessar perur úti í búð reikar hugurinn til þeirra. Á hverjum degi er okkur sagðar sögur af fólki og mat þegar við verslum, setjumst niður í hádegismat eða kaffi. Þetta á sérstaklega við um náttúrulegan og lífrænan mat og frásagnirnar tengja saman tíma og rúm, fólk og staði. Frásögnin er þannig orðin órjúfanlegur hluti af vörunni sjálfri og maturinn á að bera hið félagslega, pólitíska og menningarlega samhengi utan á sér. 

 

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði og Örn D. Jónsson, prófessor í viðskiptafræði
Fiskstautar: Framlag Íslendinga til þægindamatar á Bandaríkjamarkaði eftir seinni heimsstyrjöld

Ein mestu umskiptin í sjávarútvegi á 20. öld urðu þegar frystar afurðir leystu saltfiskinn af hólmi. Í erindinu fjöllum við um þróun frystiiðnaðarins og nýjar framleiðsluvörur sem honum fylgdu, sér í lagi fiskstautana sem seldir voru í stórum stíl á Bandaríkjamarkað eftir seinni heimsstyrjöld. Íslenskum fiskframleiðendum tókst þannig að skapa sér nýjan grundvöll og losna úr viðjum kreppu og markaðsáfalla. Inn í söguna fléttast ný tækni, framrás þægindamatar (convenience food) í Bandaríkjunum, pólitísk fyrirgreiðsla og síðast en ekki síst gjörbylting í gæðamálum sjávarútvegs.

 

Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði
Kolvetnafælni og kaloríur:
 Sagan um kornið í fæði Íslendinga

Norrænu korntegundirnar rúgur, hafrar og bygg, hollusta þeirra og þáttur í matarhefð og menningu, er viðfangsefni norræna öndvegisverkefnisins HELGA. Íslenskir og aðrir norrænir vísinda- og fræðimenn á sviði næringar, faraldsfræði, þjóðfræði og matarsögu hafa tekið þátt í verkefninu sem lýkur á þessu ári. Neysla á grófu kornmeti telst meðal sérkenna norrænna matarhefða enda þótt gildi þess í íslenskri matarmenningu hafi lítt verið hampað. Í erindinu verður fjallað um þátt kornsins í næringu og matarhefð Íslendinga frá því um miðja 19. öld og fram á okkar dag, og eiginleikar þess og hollusta dregin fram í dagsljósið. Stiklað verður á stóru og leitað fanga í niðurstöðum kannana Manneldisráðs á mataræði, faraldsfræðilegum og næringarfræðilegum rannsóknum, svo og rannsóknum sagnfræðinga og þjóðfræðinga. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is