Hvað er spilling?

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-14.45.

Hugtakið spilling hefur enga skýra eða óumdeilda merkingu. Skilningur valdhafa virðist oft birtast í tilhneigingu til að þrengja merkingu orðsins – spilling er þá skilgreind sem mútuþægni eða brot einstaklinga á lögum og reglum beinlínis í því skyni að hagnast persónulega. Á síðustu árum hafa alþjóðastofnanir á borð við OECD og félagasamtök eins og Transparency International aukið umræðu um spillingu og um leið barist fyrir dýpri og víðari skilningi á spillingu. Í málstofunni verður rætt um birtingarmyndir spillingar í víðu samhengi valds og yfirráða. Reynt verður að greina dæmi um spillingu hér á landi og í nágrannalöndum, sögulega, félagslega, heimspekilega, hagfræðilega og pólitískt og með hliðsjón af kenningum sem almennt má fella undir menningarfræði.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir lektor, Stjórnmálafræðideild: Hvernig eigum við að skilja spillingu og hvers vegna eigum við að hugsa um hana?
  • Jón Ólafsson prófessor, Íslensku- og menningardeild: Spilling og siðareglur: Hafa siðferðileg viðmið áhrif á spillingarhvata?
  • Ásgeir Brynjar Torfason lektor, Viðskiptafræðideild: Skandinavískir skandalar

Málstofustjóri: Jón Ólafsson prófessor

Útdrættir:

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir lektor, Stjórnmálafræðideild: Hvernig eigum við að skilja spillingu og hvers vegna eigum við að hugsa um hana?

Að nota opinbera aðstöðu til að hagnast persónulega á kostnað samfélagsins hefur verið viðtekin skilgreining á spilling. Þar beinist athyglin gjarnan að mútum, mútuþægni og mútugreiðslum eða einhverju því sem annað hvort má mæla eða sanna með rannsóknum. Þetta sjónarhorn á spillingu virðist ekki aðeins helgast af kröfunni um gagnreyndar upplýsingar sem forsendu fyrir aðgerðum, heldur gerir þetta sjónarhorn ráð fyrir því að taka skuli á spillingu aðeins ef hún sannast.

Þessi tegund skilgreiningar á spillingu horfir fram hjá þeirri staðreynd að stjórnsýsla vestrænna ríkja hefur á undanförnum 20-30 árum verið að umbreytast og færast frá miðstýrðu valdi ríkisins yfir í dreifstýrt kerfi flókinna tengslaneta og óljósra markaðs- eða viðskiptahagsmuna. Þetta umhverfi umbreytinga hefur borið með sér nýja og aukna spillingarhvata og freistnivanda í viðskiptum og stjórnmálum. Rannsóknir bæði austan hafs og vestan sýna að í þessu breytta umhverfi þrífst ný tegund spillingar, þ.e. spilling sem lætur lítið yfir sér, þar sem lög eru ekki endilega brotin, en túlkun reglna er hagrætt, oft í ákveðnum tilgangi. Í fyrirlestrinum er fjallað um niðurstöður nýlegra rannsókna og hvort draga megi ályktanir af þeim fyrir íslenskar aðstæður.

Jón Ólafsson prófessor, Íslensku- og menningardeild: Spilling og siðareglur: Hafa siðferðileg viðmið áhrif á spillingarhvata?

Eftir gjaldþrot bandaríska orkufyrirtækisins Enron árið 2001 jókst mjög krafa um það í Bandaríkjunum og í alþjóðlegu viðskiptalífi að fyrirtæki settu sér siðareglur. Slíkar reglur hafa einnig rutt sér til rúms í stjórnsýslunni og eftir fjármálakreppu síðustu ára má kalla það viðtekið að einhver viðmið eða reglur af þessu tagi séu til í fórum fyrirtækja, stofnana og stjórnsýslueininga. Á Íslandi hefur var töluverð áhersla á siðareglur eftir hrunið, slíkar reglur voru settar fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins og fyrir ráðherra. Einnig voru sett almenn viðmið um siðareglur fyrir opinbera starfsmenn. Unnið hefur verið að siðreglum fyrir Alþingi um nokkurt skeið, Samtök sveitarfélaga hafa unnið að innliðeingu siðareglna, svo og fyrirtæki og samtök þeirra, til dæmis Samtök fjármálafyrirtækja. Afar misjafnt er hins vegar hvernig unnið er með siðareglur eða hvort unnið er með þær yfirleitt. Þetta varðar notkun þeirra en einnig þá einstaklingsmiðuðu nálgun sem í þeim felst, en siðareglur beina sjónum fyrst og fremst að breytni einstaklinga. Í fyrirlestrinum er fjallað um hvort og hvernig siðareglur geta haft áhrif á hvata til spillingar í viðskiptum og opinberu lífi.

Ásgeir Brynjar Torfason lektor, Viðskiptafræðideild: Skandinavískir skandalar

Góðir stjórnarhættir eru menningarbundnir og birtast á mismunandi hátt en vondir stjórnarhættir birtast iðulega í krísum og hneykslismálum. Stjórnunarleg mistök og vondir stjórnarhættir geta – en þurfa ekki – að byggjast á spillingu. Spilling grefur hinsvegar undan trausti, en traust er ein mikilvægasta undirstaða viðskipta. Til að samningar að baki viðskiptum haldi þarf annars vegar lög og reglur með eftirliti en hins vegar traust manna á milli. Reikningsskil eru byggð á fjárhagsupplýsingum en velta jafnframt á því að treysta megi ársreikningum. Þannig er traust nauðsynlegt fyrir fjármálakerfið og því er spilling bein ógnun við stöðugleika þess og þar með við grundvöll viðskipta.

Í fyrirlestrinum verða nokkur spillingardæmi tengd reikningsskilum fyrirtækja greind þar sem menningarmunur og mismunandi sýn á stjórnarhætti geta varpað ljósi á vandann sem í þeim birtist. Þá verða skoðaðar tilraunir til að ná fram breytingum á stjórnarháttum með endurskoðuðum reglugerðum eftir fjármálahrun og tengsl þeirra við hneykslismál og spillingu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is