Hvað eru miðaldafræði?

Laugardagur 10. mars kl. 15-16.30
Stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Hugvísindasvið hefur ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þverfaglegt samstarf í miðaldafræðum á næstu árum. En hvað eru miðaldafræði? Í málstofunni verður fjallað um hugtakið miðaldir og afmörkun miðaldafræða, um ávinninga og hindranir þverfræðilegrar samvinnu og um notkun nútímakenninga á fræðasviði miðaldafræða.

Fyrirlesarar:

  • Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild: Miðaldir og miðaldafræði: Hugtök, afmörkun, sjónarhorn.
  • Helgi Þorláksson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild: Steinar í götu samvinnu: Um miðaldabókmenntir sem opinn eða lokaðan heim.
  • Sif Ríkharðsdóttir, sérfræðingur við Bókmennta- og listfræðastofnun: Nútímakenningar og miðaldabókmenntir: Taugafræði, menning, texti.

Málstofustjóri:  Ásdís Egilsdóttir, prófessor

 

Útdrættir:

 

Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild
Miðaldir og miðaldafræði: Hugtök, afmörkun, sjónarhorn 

Ólíkur skilningur hefur verið lagður í hugtakið miðaldir. Þær eru tímabilið milli hinnar glæstu fornaldar og endurreisnartímans, hinar “myrku miðaldir”, en líka sérstætt og sundurleitt tímabil sem einkennist af stöðugri tileinkun fornrar menningar og skapandi endurtúlkun hennar. Sumir sagnfræðingar vilja reyndar tala um hinar löngu miðaldir sem nái allt fram til frönsku byltingarinnar eða iðnbyltingarinnar í lok 18. aldar og heimspekingar hafa haldið því fram að miðaldaheimspeki sé sú heimspeki sem stunduð var frá 200 til 1700. Hvað með miðaldir utan Evrópu? Eru þær til? Er hugtakið kannski ónothæft? Og hvað á þá að segja um miðaldafræði? Í fyrirlestrinum verður rætt um hinn ólíka skilning á hugtakinu miðaldir, en jafnframt um afmörkun miðaldafræða sem rannsóknarsviðs og sjónarhorn ólíkra fræðigreina á viðfangsefni miðaldafræða.

 

Helgi Þorláksson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild
Steinar í götu samvinnu: Um miðaldabókmenntir sem opinn eða lokaðan heim 

Sú skoðun á nokkru fylgi að fagna að bókmenntir, og þar með miðaldabókmenntir, séu lokaður heimur, þær séu ekki lífið eða raunveruleikinn, og að fræðimönnum í sagnfræði og félagsvísindum hætti til að misskilja það. Að vísu geti bókmenntir verið undir áhrifum samfélagsins en ekki heimildir um samfélagið. Best sé að skoða þær sem lokaðan heim, á forsendum þeirra sjálfra. Frá sagnfræðilegu sjónarmiði standa skoðanir af þessu tagi þverfræðilegri nálgun í miðaldafræðum nokkuð fyrir þrifum og er því brýnt að fara í saumana á þeim.

 

Sif Ríkharðsdóttir, sérfræðingur við Bókmennta- og listfræðistofnun
Nútímakenningar og miðaldabókmenntir: Taugafræði, menning, texti 

Hvernig stendur á því að nýlegar kenningar um taugalíffræði og tilfinningalíf geta verið nothæfar í miðaldafræðum og varpað ljósi á tilfinningalíf miðaldamanna? Upplifði miðaldamaðurinn ekki sjálfan sig og heiminn að mörgu leyti á alls ólíkan hátt og á allt öðrum forsendum en nútímamaðurinn? Í fyrirlestrinum verður leitast við að sýna hvernig brúa má bilið milli nútímafræðikenninga og miðaldatexta með það í huga að fortíðin sé ekki stöðug heldur að vissu leyti endursköpuð á hverjum tíma fyrir sig. Íhugað verður hvaða hlutverki rannsóknir á tilfinningum í bókmenntum gegna í því samhengi.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is