Hvar stendur íslensk sagnfræði? Nýir straumar og stefnur

Laugardagurinn 14. mars kl. 11.00-16.30, með hádegis- og kaffihléi.Hvað er íslensk sagnfræði? Hvernig hefur hún breyst á síðustu áratugum og hver er staða hennar nú? Hefur „söguendurskoðunin“ sem hófst á níunda áratugnum kollvarpað söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar? Eða er póstmódernisminn búinn að taka yfir? Eru íslenskir sagnfræðingar kenningarlega sinnaðir eða eru þeir í grundvallaratriðum „staðreyndapósitífistar“? Hvaða greinar sagnfræðinnar eru í sókn? Hvernig hafa viðfangsefni sagnfræðinnar breyst og hver þeirra ber hæst á undanförnum áratugum?

Þessum spurningum mun fjölbreyttur hópur sagnfræðinga leita svara við á málstofunni og draga upp stóru línurnar í íslenskri sagnfræði og undirgreinum hennar á undanförnum áratugum. Fyrirlesarar leggja mat á einkenni íslenskrar sagnaritunar og leitast við að setja hana í samhengi við alþjóðlega strauma og stefnur. Tvö fyrstu erindin fjalla um sagnaritun um tiltekin tímabil, þ.e. miðaldir og árnýöld, en önnur fjalla um nokkur meginsvið sagnfræðinnar: félagssögu, hagsögu, stjórnmálasögu, menningarsögu, kvenna- og kynjasögu og sögu utanríkismála.

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, skipulagði málstofuna.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði: Ný miðaldasaga
  • Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði: „Fákænska, heigulsháttur og þrællyndi“: Hefur söguskoðun Íslendinga varðandi árnýöld breyst?

​Hádegishlé

  • Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í sagnfræði: Áherslur í félagssögurannsóknum á Íslandi 1970-2014
  • Sveinn Agnarsson, dósent í Viðskiptafræðideild: Hundrað ár af íslenskri hagsögu: Hugleiðingar um skrif um landbúnað, sjávarútveg og nútímavæðingu
  • Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði: Skuggamyndir á tjaldi: Um íslenska stjórnmálasögu og tengsl hennar við yrkisefnið

Kaffihlé

  • Ólafur Rastrick, lektor í þjóðfræði: Nýja þjóðháttafræðin: Íslensk menningarsaga eftir 2000
  • Erla Hulda Halldórsdóttir, nýdoktor, sagnfræði: „Vorum við kannski aldrei til?“ Kyngerving Íslandssögunnar
  • Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði: Stríð og fræði: Utanríkissaga Íslands í höndum sagnfræðinga, 1940-2015

Málstofustjóri: Guðmundur Jónsson og Guðmundur Hálfdanarson, báðir prófessorar í sagnfræði

Útdrættir:

Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði: Ný miðaldasaga

Viðhorf til íslenskrar miðaldasögu hafa breyst mjög frá því að greinin varð vísindalegt rannsóknarefni og hafin var heimildaútgáfa á 19. öld. Á þeim tíma var náið samhengi á milli miðaldarannsókna og íslenskrar þjóðfélagsbaráttu. Á fyrri hluta 20. aldar varð áhersla á félagssögu áberandi og tókust þar á samvirknikenningar og átakakenningar. Á undanförnum fjórum áratugum má greina þrjá meginstrauma þar sem sá fyrsti einkennist af heimildarýni og áherslu á miðlara sögunnar, annar á félagsleg kerfi sem greina má í heimildum en sá þriðji af áherslum sem kenna má við nýja menningarsögu.

Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði og Hrefna Róbertsdóttir: „Fákænska, heigulsháttur og þrællyndi“: Hefur söguskoðun Íslendinga varðandi árnýöld breyst?

Árnýöld er hér skilgreind sem tímabilið 1500-1830. Áherslan verður á sagnaritun um sögu Íslands eftir 1980 til dagsins í dag. Augljóst er að endurskoðun á sögunni hefur átt sér stað. Kúgun Dana er mikið til úr sögunni og nýjar túlkanir hafa komið fram varðandi einveldi og einokun. Ísland var hjálenda Danaveldis, fyrst látin nokkuð afskiptalaus en þegar leið á 18. öldina lagði danska stjórnin sig fram við að finna hlutverk fyrir Ísland í hinu víðáttumikla dansk-norska ríki. Fyrst og fremst verður

rætt um rannsóknir í stjórnmálasögu, hagsögu, félagssögu sem var áberandi á 20. öld og  menningarsögu sem er að ryðja sér til rúms. Áhersla verður einnig lögð á rannsóknir varðandi Ísland og umheiminn.

Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í sagnfræði: Áherslur í félagssögurannsóknum á Íslandi 1970-2014

Í erindinu er rætt um baksviði nýju félagssögunnar á Íslandi, einkum með hliðsjón af stefnum og straumum erlendis. Tímabilið frá lokum áttunda áratugarins var blómaskeið í félagssögurannsóknum hér á landi. Ungir sagnfræðingar, sem flestir höfðu menntast erlendis, lögðu drög að nýstárlegum rannsóknum á ýmsum sviðum félagssögunnar. Allt frá þeim tíma hefur félagssagan átt nokkuð ríkan sess í sagnfræðirannsóknum hér á landi. Flestir þeirra fræðimanna sem fengist hafa við félagssögu hafa tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og nokkuð hefur verið um þverfræðilegt samstarf um félagssögulegar rannsóknir. Hér verður sjónum einkum beint að fjórum sviðum félagssögunnar hér á landi, þ.e. sögu barnæsku, sögu menntunar og fólksfjölda- og fjölskyldusögu.

Sveinn Agnarsson, dósent í Viðskiptafræðideild: Hundrað ár af íslenskri hagsögu: Hugleiðingar um skrif um landbúnað, sjávarútveg og nútímavæðingu

Í erindinu eru raktir höfuðdrættir í rannsóknum á íslenskum landbúnaði og sjávarútvegi á 19. og 20. öld og nútímavæðingu íslensks samfélags. Fyrstu forystumenn íslensku sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld byggðu málstað sinn að hluta til á hagrænum rökum og studdust við dæmi úr íslenski hagsögu. Þetta varð til að efla og auka áhuga á þessu sviði sagnfræðinnar; það er vart tilviljun að eitt meginrita íslenskrar sagnfræði frá upphafi 20. aldar segir sögu dönsku einokunarverslunarinnar eða hve margir sagnfræðingar beindu sjónum sínum að þróun verðs og viðskiptakjara. Á áttunda og níunda áratugnum blésu nýir vindar í íslensku samfélagi sem annars staðar í heiminum. Vegur hagsögu óx og nemendum í sagnfræði við Háskóla Íslands fjölgaði sem lögðu stund á hag- og félagssögu. Ný kynslóð sagnfræðinga kom fram sem nýtti sér aðferðir og kenningar úr öðrum hug- og félagsvísindum og margir félags- og hagsögufræðingar sneru baki við hinni viðteknu söguskoðun og komu með nýja sýn á þróun íslenskrar sögu. Framan af létu alþýðufræðimenn til sín taka en undanfarna áratugi hafa rannsóknir nær eingöngu verið í höndum háskólamenntaðra sérfræðinga. Hagsöguleg greining hefur orðið flóknari, byggist oft á ákveðnum líkönum eða tilgátum og er studd tölfræðilegum rökum.

Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði: Skuggamyndir á tjaldi: Um íslenska stjórnmálasögu og tengsl hennar við yrkisefnið

Fræðileg umræða um íslensk stjórnmál hefur alla tíð hangið utan í stjórnmálunum. Fræðimenn hafa oftar en ekki lagt upp með spurningar sem urðu til á vettvangi stjórnmálanna og í raun er sagnfræðileg umræða um íslenska flokkapólitík enn föst í viðjum kaldastríðsorðræðunnar. Að sama skapi virðist aðferðafræðin hafa tekið litlum breytingum. Sagnfræðingar varpa upp sögu þeirra stjórnmálakarla sem fremstir stóðu í stjórnmálabaráttunni. Samskipti þeirra við valdhafa í öðrum ríkjum, sigrar þeirra og misgjörðir yfirgnæfa umræðuna. Og þeir sagnfræðingar sem vilja nálgast söguna með öðrum hætti hafa flestir hverjir haldið sig fjarri sögu íslenskra stjórnmálahreyfinga. En sé horft víðar yfir sviðið og litið til sagnaritunar um sjálfstæðisbaráttu og lýðræðisþróun á nítjándu og tuttugustu öld, má sjá rannsóknir sem fylgja nýlegum alþjóðlegum straumum og þá ekki síst þeim sem kenndir eru við menningarsögu.

Ólafur Rastrick, lektor í þjóðfræði: Nýja þjóðháttafræðin: Íslensk menningarsaga eftir 2000

Frá aldamótum má greina endurnýjaðan áhuga meðal íslenskra fræðimanna á sögulegum rannsóknum sem með einum eða öðrum hætti má kenna við menningarsögu síðari alda. Eins og víða erlendis eru það ekki einungis sagnfræðingar sem stunda slíkar rannsóknir heldur hefur í reynd skapast á Íslandi þverfaglegt svið með mikilsverðum framlögum fræðimanna sem starfa undir merkjum annarra fræðigreina s.s. bókmenntafræði, forleifafræði, mannfræði, menningarfræði og þjóðfræði auk sagnfræði. Í erindinu er leitast við að greina veigamestu áhersluþætti rannsókna á þessu sviði á síðustu árum hvað varðar efnistök og nálganir og varpa ljósi á stöðu þeirra nú um stundir.

Erla Hulda Halldórsdóttir, nýdoktor, sagnfræði: „Vorum við kannski aldrei til?“ Kyngerving Íslandssögunnar

Þegar Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur taldi myndir af konum í Íslandssögubók árið 1974 velti hún því fyrir sér hvar þær væru mamma, amma og hún sjálf og hlaut því að endingu að spyrja „Vorum við kannski aldrei til?“ Þetta var á þeim tíma sem kvennasaga var að hasla sér völl við erlenda háskóla og rétt að nema land á Íslandi. Í fyrirlestrinum verður stiklað á stóru um íslenska kvenna- og kynjasögu, samhengi hennar við erlendar rannsóknir og viðhorf til rannsókna á þessu sviði. Megin spurningin er auðvitað hvort kvenna- og kynjasagan eigi möguleika á að verða eðlilegur hluti af sögu lands og þjóðar eða hvort hlutskipti hennar sé að verða aldrei annað en viðhengi við ríkjandi frásagnir Íslandssögunnar.

Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði: Stríð og fræði: Utanríkissaga Íslands í höndum sagnfræðinga, 1940-2015

Í erindinu verður farið yfir helstu þætti í utanríkissögu Íslands frá seinni heimsstyrjöld til okkar daga. Rakið verður hvernig sagnfræðingar hafa lýst þeim og hvaða fræðilegu álitamál vakna við þá skoðun. Sjónum verður einkum beint að seinni heimsstyrjöldinni, kalda stríðinu, þorskastríðum, Evrópusamruna og hruninu 2008. Um leið verður fjallað um „landnámsöldina“ í íslenskri sagnfræði, þá spennu sem gjarnan myndast milli söguskoðunar ráðamanna og fræðasamfélags og hvernig nýjar heimildir geta mótað og breytt sýn fólks á söguna hverju sinni.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is