Hvernig breytast tungumál?

Margir hafa sjálfsagt leitt hugann að því hvernig tungumál breytast og málfræðingar hafa sett fram ýmiss konar kenningar og hugmyndir um það. Sumir tala til dæmis um tungumál sem sjálfstætt kerfi sem geti „breytt sér“ eða falið í sér „tilhneigingu til einföldunar“ og slíkar tilhneigingar í kerfinu skýri málbreytingar. Slík hugmynd skýrir þó ekki af hverju tungumálið hefur ekki verið einfalt frá upphafi. Aðrir segja að á miklum breytingatímum í þjóðfélaginu hljóti tungumálið alltaf að breytast, án þess að skýra nánar hvers vegna svo hljóti að vera (nema þá að því er varðar orðaforðann). En ef horft er á málbreytingar frá sjónarmiði málnotandans er ein meginspurningin sú hvort mál breytist fyrst og fremst þannig að ný kynslóð (þ.e. börn á máltökuskeiði) tileinki sér annars konar mál en þær sem á undan eru gengnar eða hvort mál einstaklinga breytist í áranna rás. Í rannsóknaverkefninu „Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð“ (RAUN) er einmitt leitað svara við þessari spurningu og málstofan er tengd þessu verkefni.

Málstofustjóri: Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í málfræði

 

Fyrirlesarar:

  • Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslenskri málfræði: Málbreytingar í sýndartíma og rauntíma
  • Margrét Guðmundsdóttir, málfræðingur og verkefnastjóri hjá Hugvísindastofnun: Af framburði og flugnaskít
  • Ásbjörg Benediktsdóttir, meistaranemi í málfræði: Það var hrint mér aftur

 

Útdrættir:

 

Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslenskri málfræði
Málbreytingar í sýndartíma og rauntíma

Í fyrirlestrinum er fyrst fjallað almennt um hugtökin málbreytingar í sýndartíma og málbreytingar í rauntíma. Síðan er því lýst á hvern hátt nokkrar viðamiklar rannsóknir á íslenskum mállýskum og tilbrigðum í máli hafa gefið vísbendingar um málbreytingar í sýndartíma og vakið spurningar um málbreytingar í rauntíma. Hér er í fyrsta lagi um að ræða „Rannsókn á íslensku nútímamáli“ (RÍN) á 9. áratug síðustu aldar og samanburð á niðurstöðum úr henni við niðurstöður úr framburðarrannsókn Björns Guðfinnssonar (BG) 40 árum áður. Í öðru lagi má bera niðurstöður rannsóknarinnar „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“ fyrir fáeinum árum saman við niðurstöður úr viðamikilli rannsókn sem Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling (SS&JM) gerðu á nýju þolmyndinni svokölluðu (t.d. Það var hrint mér), en sá samanburður vekur spurningar um eðli málbreytinga og varanleika þeirra.

 

Margrét Guðmundsdóttir, málfræðingur og verkefnastjóri hjá Hugvísindastofnun
Af framburði og flugnaskít

Í þessum fyrirlestri verður greint frá því að meðal hinna 2900 þátttakenda í RÍN voru um 400 sem Björn Guðfinnsson hafði rætt við á sínum tíma. Nú stendur yfir rannsókn þar sem m.a. er reynt að hafa uppi á sem flestum í þessum hópi í þriðja sinn (RAUN). Fyrirlesari er meðal þátttakenda í verkefninu og ræðir um það hvaða ljósi gögnin úr þessum þremur rannsóknum (BG, RÍN, RAUN) geta varpað á breytingar sem mál fólks tekur á lífsleiðinni, m.a. hvaða áhrif það getur haft að flytja milli mállýskusvæða og hvort slík áhrif kunni að vera misjöfn eftir því hvaða framburðarmállýskur eiga í hlut. Í erindinu verður sagt frá gögnunum, þeim miklu möguleikum til rannsókna sem í þeim felast og hvernig hugmyndin er að nýta þau. Flugnaskítur kemur einnig lítillega við sögu.

 

Ásbjörg Benediktsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði
Það var hrint mér aftur

Hinn setningafræðilegi hluti RAUN felst í því að kanna hvort einstaklingar sem tóku þátt í rannsókn SS&JM á nýju þolmyndinni laust fyrir síðustu aldamót hafa þetta málfarseinkenni ennþá í sínu máli. Í því skyni verður úrtak úr þessum hópi „prófað“ á sambærilegan hátt og fyrir rúmum áratug. Meginástæðan er sú að nýja þolmyndin er stundum talin unglingamál og flestir þátttakendur í rannsókn SS&JM voru á unglingsaldri þegar rannsóknin fór fram. Fyrirlesari er meðal þátttakenda í RAUN og mun greina frá fyrstu niðurstöðum úr rannsókn á því hvort nýja þolmyndin lætur undan síga þegar málnotendur eldast og þroskast eða hvort hún er „komin til að vera“.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is