Hvers eru vísindin megnug? Vísindaleg hluthyggja í nýju ljósi

Föstudaginn 14. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 52 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Vísindaleg hluthyggja boðar að vísindin geti fært okkur þekkingu á ólíkum hliðum raunveruleikans, jafnt hinu örsmáu og óáþreifanlegu sem hversdagslegum hlutum. Þótt þessi kenning liggi í raun til grundvallar margra greina vísinda hefur reynst vandasamt að rökstyðja hana og margar spurningar standa eftir ósvaraðar: Með hvaða hætti getum við sannfærst um tilvist og eðli hluta sem ekki er hægt að gera tilraunir á með beinum hætti? Styður saga vísinda við þá skoðun að þau færi okkur sífellt meiri þekkingu á slíkum hlutum? Er vísindaleg hluthyggja ósamrýmanleg breytingum á vísindakenningum og „vísindabyltingum“? Eru vísindin ekki alltaf bundin tilteknu máli og afmörkuðu sjónarhorni þannig að raunveruleikinn er alltaf utan seilingar? Í málstofunni verður nýju ljósi varpað á þessar spurningar út frá nýjustu rannsóknum á sviði vísindaheimspeki, þekkingarfræði og merkingarfræði.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Finnur Dellsén, doktorsnemi: Hluthyggja og keppinautar vísindakenninga
  • Huginn Freyr Þorsteinsson, doktorsnemi og aðjunkt: Tilvísunarvandi fræðiheita
  • Ólafur Páll Jónsson, dósent: Hugsmíðar og sannleikur

Málstofustjóri: Nanna Hlín Halldórsdóttir doktorsnemi 

Útdrættir:

Finnur Dellsén, doktorsnemi: Hluthyggja og keppinautar vísindakenninga

Þegar Newton setti fram þyngdarlögmál sitt hafði honum ekki dottið til hugar að skýra mætti þyngdaráhrif með því að eigna tíma or rúm ýmsa óevklíðska eiginleika, eins og almenna afstæðiskenning Einstein gerir. Ein veigamestu rökin gegn vísindalegri hluthyggju kveða á um að við séum nú í samskonar aðstöðu og Newton var í á sínum tíma, að því leyti að velflestar vísindakenningar nútímans eigi sér óuppgötvaða keppinauta af þessu tagi. Í þessu erindi verða þessi rök skoðuð á líkindafræðilegum grunni, en sú nálgun leiðir í ljós að rökin eiga ekki við um tiltekinn hóp vísindakenninga. Á þessum grunni eru svo færð rök fyrir hófsamri hluthyggju um vísindi með vísan til sögulegra og félagslegra staðreynda um nútíma vísindi. Þannig er leitast við að sýna fram á að almennt hafi vísindaleg hluthyggja ekkert að óttast af hendi sögulegra og félagslegra rannsókna á vísindum.

Huginn Freyr Þorsteinsson, doktorsnemi og aðjunkt: Tilvísunarvandi fræðiheita

Vísindaleg hluthyggja gerir ráð fyrir tilvist fræðigripa eins og rafeinda, atóma, fósturvísa og dvergstjarna.  Samkvæmt forsvarsmönnum hluthyggju er ein meginástæða þess að við getum verið viss um tilvist margra fræðigripa árangur þeirra vísindakenninga sem styðjast við þá. Vandi við þessa árangurstengingu er að í sögu vísinda er auðvelt að finna dæmi um vísindakenningar sem gáfu góða raun en engu að síður studdust við fræðigripi sem eiga sér ekki tilvist. Ljósvakakenningar í eðlisfræði veittu fjölmargar skýringar á eðli og hegðun ljóss en engu að síður teljum við að hugtakið ljósvaki vísi ekki til neins. Hið sama á við um kenningar um flógiston í efnafræði en fræðiheitið flógiston var notað í fjölmörgum skýringum um bruna og oxun sem eru markverðar. Flógiston reyndist þó ekki eiga sér tilvist. Í erindi mínu fjalla ég um þau fjölmörgu heimspekilegu álitamál er tengjast fræðiheitum eins og flógiston og ljósvaki og hvernig hluthyggjumenn hafa fjallað um þau. Færð eru rök fyrir því að ýmis viðbrögð þeirra enda í ógöngum en einnig hvernig hægt væri að sneiða hjá þeim.

Ólafur Páll Jónsson, dósent: Hugsmíðar og sannleikur

Hugsmíðahyggja er ríkjandi kenning eða sjónarmið í menntavísindum og víðar. Það er hins vegar óljóst nákvæmlega hvað slík hyggja felur í sér – því hugsmíðahyggjurnar eru margvíslegar. Gjarnan er litið svo á að hugsmíðahyggja sé ósamrýmanleg því að til sé hlutlægur sannleikur og að þekking geti verið á veruleika sem sé óháður mannlegri vitund. Þótt róttæk hugsmíðahyggja sé örugglega andstæð hluthyggju um veruleikann og vísindalega þekkingu og gangi einnig gegn samsvörunarkenningu um sannleika, þá eru til útgáfur af hugsmíðahyggju sem gera það ekki. Spurningin er þá hvort slíkar útgáfur af hugsmíðahyggju séu í samræmi við það innsæi sem hefur drifið áfram þá sem hafa haldið fram hugsmíðahyggju, t.d. í menntavísindum, svo sem Jerome Bruner o.fl. Í erindinu mun ég fjalla um rætur hugsmíðahyggjunnar, m.a. eins og Bruner lýsir þeim í Acts of Meaning, (1990) og færa rök fyrir því að hægt sé að vinna úr því innsæi, sem var kveikjan að hugsmíðahyggjunni sem einum meginstraumi í rannsóknum í menntavísindum á seinustu áratugum 20. aldar, án þess að gefa eftir hugmyndina um hlutlægan veruleika, hlutlæga þekkingu og samsvörunarkenningu um sannleika.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is