Í leit að betra lífi: Orðræða í samfélagi og bókmenntum

 

Í málstofunni verða fluttir þrír fyrirlestrar sem allir eru sprottnir af hugmyndum og leitinni að betra lífi og hagsæld, hver á sinn hátt. Íslendingar og aðrir Evrópubúar leituðu þessa í Ameríku í lok 19. aldar og þeir sem heima sátu veltu fyrir sér kostum og göllum bandarískrar menningar. Haukur Ingvarsson fjallar í sínum fyrirlestri um þær hugmyndir sem þar birtust. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir skoðar hins vegar þann sið að senda börn í sveit, sem þótti hafa marga kosti og mannbætandi. Í bókmenntum birtast þó fjölbreyttar myndir af þessari reynslu. Loks fjallar Guðmundur Jónsson um orðræðu í kringum síðustu aldamót um velferðarkerfi og velferðarríkið.

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Haukur Ingvarsson, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Ameríkanísering og vesturheimska
  • Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur: „Henni mömmu þinni þykir ekkert vænt um þig“: Sveitadvöl barna eins og hún birtist í íslenskum bókmenntum
  • Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði: Leitin að velferðarríkinu. Rýnt í pólitíska orðræðu aldamótaáranna

Fundarstjóri: Ólöf Garðarsdóttir, prófessor á menntavísindasviði

Útdrættir:

Haukur Ingvarsson, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Ameríkanísering og vesturheimska

Um miðja 19. öldina fundu ýmsar Evrópuþjóðir hjá sér þörf fyrir sérstök orð og orðasambönd til að gera grein fyrir áhrifum bandarískrar menningar heima fyrir. Lífseigast er hugtakið „américanisation“ sem rakið er til fyrstu heimssýninganna í London árið 1851 og París árið 1855.  Ameríka og Bandaríkin þar með talin verða hluti af heimsmynd og hugmyndaheimi Íslendinga í vaxandi mæli þegar líða tekur á 19. öldina. Þau tengjast draumum um betra líf á framandi slóðum og íslenskt alþýðufólk freistaði gæfunnar vestra á seinni hluta nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu rétt eins og íbúar annarra Evrópuþjóða.

Í fyrirlestrinum verður hugtakið ameríkanísering skoðað í íslensku samhengi og þeirri spurningu velt upp hvort heimasmíðaða hugtakið vesturheimska þjóni að vissu leyti sama hlutverki og ameríkanísering.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur: „Henni mömmu þinni þykir ekkert vænt um þig“: Sveitadvöl barna eins og hún birtist í íslenskum bókmenntum

Sá siður að senda börn úr þéttbýli í sveit yfir sumartímann er rótgróinn í íslenskri sögu og menningu og birtist t.a.m. mjög víða í bókmenntum. Frásagnir af sveitadvöl barna fá verðskuldað rými í barnabókum, skáldsögum fyrir fullorðna og ýmiss konar sjálfsævisögulegum skrifum, jafnvel í ljóðum. Þessir textar eru gaumgæfðir og í erindinu verða kynnt ákveðin stef eða þemu sem birtast ítrekað þegar fjallað er um sveitadvöl barna í íslenskum bókmenntum. Að fara í fyrsta sinn ein(n) að heiman er reynsla sem oft er lýst og mikið er skrifað um ýmiss konar menningarmun á borg og sveit, svo sem annað málfar, öðruvísi mataræði og meiri kröfur til vinnu barna í sveit en í borg. Algengt er að greint sé frá einhvers konar trámatískri reynslu úr sveitinni, allt frá því að barn sér skepnur aflífaðar og bregður óþyrmilega, til þess að barn verður vitni að dauðaslysi eða er beitt alvarlegu ofbeldi. Heimþráin herjar á borgarbörnin og getur verið æði sár, en sveitadvölinni er ennfremur oft lýst sem ævintýralegri. Í íslenskum bókmenntum hefur dvöl borgarbarna í sveit ýmist mannbætandi áhrif eða er börnunum erfið reynsla.

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði: Leitin að velferðarríkinu. Rýnt í pólitíska orðræðu aldamótaáranna

Um aldamótin síðustu færðist mikið líf í stjórnmálaumræðu á Íslandi um velferð og velferðarríkið. Ýmis mál kyntu undir umræðunni eins og öryrkjamálið, kjör aldraðra og vaxandi ójöfnuður. En hér kom einnig til uppstokkun á vinstri væng íslenskra stjórnmála þar sem nýju flokkarnir kepptust við að setja „endurreisn velferðarkerfisins“ á oddinn. Hægri flokkarnir sátu í ríkisstjórn og vörðu árangur hennar í velferðarmálum. Í erindinu er athyglinni beint að hugmyndum sem fram komu í stjórnmálaumræðu þessara ára um velferðarkerfið almennt og sérstaklega notkun hugtaksins velferðarríki og ólíkum merkingum þess.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is