Í sólhvítu hofi Asklepiosar - Bókmenntir og læknisfræði

Laugardagurinn 14. mars kl. 10.00-12.00.

Titill málstofunnar er sóttur í ljóð Ara Jóhannessonar, „Við“ úr bók hans Öskudagar, Reykjavík, Uppheimar 2007.

Á Hugvísindaþingi 2012 var málstofan Sjúkar orðræður helguð bókmenntum og læknisfræði. Málstofan varð kveikjan að samstarfi læknadeildar og bókmenntakennara úr íslensku og menningardeild. Að þessu sinni leiða saman hesta sína tveir læknar og kennarar við læknadeild, prófessor í íslenskum bókmenntum og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum.

 

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Bryndís Benediktsdóttir, læknir og prófessor við Læknadeild: Hvernig má nota bókmenntir við kennslu læknanema
  • Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum, Íslensku- og menningardeild: Lýti eða fötlun? Um samfélagslega þætti lýtaaðgerðar Þorgils skarða
  • Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, Íslensku- og menningardeild: Sögur af plágum
  • Ari Jóhannesson, sérfræðilæknir á Landspítala, klínískur dósent við Læknadeild: Út úr hjartahólfinu - um hvað skrifa skáldlæknar?

Skipuleggjandi málstofunnar og fundarstjóri: Ásdís Egilsdóttir prófessor, Íslensku- og menningardeild

Útdrættir:

Bryndís Benediktsdóttir, læknir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands: Hvernig má nota bókmenntir við kennslu læknanema?

Læknanemar eru um tvítugt þegar þeir hefja nám við læknadeild, langflestir stúdentar frá raungreinadeildum menntskólanna, enda talinn öruggasta leiðin til að standast strembið inntökuprófið. Þetta unga fólk er hreystin uppmáluð og fæst þeirra hafa upplifað veikindi, erfiðleika eða dauða í nánustu fjölskyldu. Strax við upphaf náms hefst kennsla í klíniskri færni og samskiptum læknis og sjúklings, þar sem lögð er áhersla á umræðu og þjálfun í læknislist og sjúklingsmiðaðri nálgun. Vantrúin lýsir úr augum þeirra þegar talað er um að mikilvægasta verkfærið sem læknar hafa bæði við greiningu og meðferð, sé samtal læknis og sjúklings. Þeir lifna við ef talað er um blóðprufur, lyf, skurðaðgerðir og flókna tækni í læknisfræði. Af tali þeirra heyrist að með þessum aðferðum fáist „ekta sjúkdómsgreining og almennileg meðferð“. Þeim getur reynst erfitt að setja sig spor þeirra sem eru veikir og átta sig á hvað það þýðir að vera læknir. Áhrif samskipta, orða, látbragðs, hugmynda, ótta og væntinga getur verið erfitt að útskýra. Það er einmitt hér sem bókmenntir koma að notum með frásögnum og lýsingum, sem nýtast sem umræðugrundvöllur og uppspretta íhugana.  

Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum, Íslensku- og menningardeild: Lýti eða fötlun? Um samfélagslega þætti lýtaaðgerðar Þorgils skarða

Í Sturlunga sögu er sagt frá Þorgils Böðvarssyni, sem fæddist holgóma og gekkst undir skurðaðgerð í Noregi vegna þess. Skerðing hans hafði margþætt áhrif á líf hans. Saga hans gefur tilefni til hugleiðinga um menningarbundin áhrif á fötlunarhugtakið, vegna þess að það er ekki einungis mismunandi milli menningarheima hvað telst fötlun, heldur einnig innan samfélaga.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um fötlunarhugtakið almennt og í samhengi við Þorgils sögu og fleiri miðaldarit út frá þeirri grundvallarhugsun að menningartengdar hugmyndir skapi þjóðsöguna um líkamlega fullkomnun og orðræðuna um hina líkamlegu fyrirmynd.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, Íslensku- og menningardeild: Sögur af plágum

Sögur eru sagðar af drepsóttum (pandemi) sem fóru yfir löndin og eirðu engu. Skelfingunni sem fylgdi Svarta dauða sem geisaði í Evrópu 1347-1351 verður ekki með orðum lýst, pestin drap helming Evrópubúa og markaði djúp spor á öllum sviðum. Engin önnur drepsótt kemst í hálfkvisti við Svarta dauðann og þó hafa stærri og smærri drepsóttir herjað á heiminn síðan. Spænska veikin 1918 var inflúensufaraldur sem varð um 50 milljónum manna að bana og hún myndar bakgrunn hinnar mögnuðu skáldsögu Sjón, Mánasteinn (2014). Í fyrirlestrinum verður fjallað um skáldsögur sem reyna að fanga hrylling plágunnar og lýsa varnarleysi manneskjunnar þegar líkaminn tekur völdin og bæði rök og mannleg skynsemi mega sín lítils. Hvernig verður því lýst í orðum?

Ari Jóhannesson, sérfræðilæknir Landspítala, klínískur dósent, Læknadeild Háskóla Íslands: Út úr hjartahólfinu – um hvað skrifa skáldlæknar?

Sjúkdómar og veikindi ásamt lífi og starfi lækna hafa lengi verið uppspretta skapandi skrifa af ýmsu tagi. Þau birtast meðal annars í ljóðum, stuttum sviðsmyndum, smásögum, leikritum og skáldsögum. Verkin hafa oft alvarlegan undirtón þótt mörg dæmi finnist einnig um hið gagnstæða. Skáldsögurnar eru oftar en ekki spennu- eða glæpasögur sem hafa einkum afþreyingargildi. Líkt og styrjaldir, breyta sjúkdómar lífi einstaklinga en farsóttir heilum samfélögum. Í þennan efnivið sækja bæði almennir rithöfundar og læknislærðir. Fróðlegt er að bera saman yrkisefni og efnistök hinna fyrrnefndu og rithöfunda í læknastétt. Í fyrirlestrinum verður meðal annars fjallað um þekkt skáldverk nokkurra erlendra lækna og einnig skáldsöguna Lífsmörk sem út kom í fyrra.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is