Ísland og umheimurinn

Laugardagur 10. mars kl. 13-16.30
Stofa 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Fyrr á tímum var Ísland fremur einangrað land frá landfræðilega sjónarmiði en aldrei einangraðist þjóðin frá stefnum og straumum Evrópu og umheimsins. Í þessari þverfræðilegu málstofu verður farið vítt og breytt í tími og dregnir fram nokkrir forvitnilegir en ólíkir þættir sem sýna fram á fjölbreytileg tengsl Íslands við umheiminn.

Byrjað verður um aldamótin 1200. Á miðöldum var íslenska kirkjan hluti af kaþólsku kirkjunni og urðu Íslendingar að eignast sína dýrlinga eins og aðrir. Rætt verður um hið flókna valdatafl varðandi helgi Þorláks Þórhallssonar Skálholtsbiskups. Á 16. og 17. öld var Ísland lén í Danmörku en hverjir voru eiginlega þessir æðstu embættismenn konungs, hinir erlendu lénsmenn? Frændur okkar Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði 17. maí 1814. Hvernig brugðust Íslendingar við þeim sjálfstæðishugmyndum sem voru að ryðja sér til rúms í kjölfar byltinga á 18. og 19. öld? Á 19. öld fóru evrópsk þjóðskáld að upphefja þjóð sína og tungu með því að yrkja kvæði í anda endurreisnarskáldanna ítölsku. Hvernig stóðu Jónas Hallgrímsson og slóvenska skáldið France Preseren sig í samkeppninni? Íslendingar kynntust erlenda nautnadrykknum kaffi á 18. öld. Hvað einkenndi kaffidrykkju Íslendinga og hvernig dreifðist hún um samfélag Íslendinga á 19. öld?

Fyrirlesarar:

  • Gottskálk Jensson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Þegar helgi Þorláks „kom upp“ á Íslandi
  • Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði: Lénsmenn á Íslandi á 16. og 17. öld. Hvað gerðu þeir? Hverjir voru þeir?
  • Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði: Sjálfstæði Noregs 1814: Hvað fannst Íslendingum?
  • Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum: Land, þjóð og tunga: Samanburður á þjóðernislegri upphafningu í slóvenskri og íslenskri rómantík
  • Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Litill kaffe kétill gamall. Nautnadrykkir á fyrri hluta 19. aldar

Málstofustjórar: Anna Agnarsdóttir og Már Jónsson, prófessorar í sagnfræði

 

Útdrættir:

Gottskálk Jensson, prófessor í almennri bókmenntafræði
Þegar helgi Þorláks „kom upp“ á Íslandi

Í erindinu verður rakið eins ýtarlega og unnt er hvernig og hvers vegna hópur íslenskra klerka lét, skömmu fyrir aldamótin 1200, „koma upp“ helgi Þorláks Þórhallssonar Skálholtsbiskups, sem látist hafði nokkrum árum fyrr. Rakinn verður þáttur latneskra „bréfa“ í þessum viðkvæma tímamótagjörningi, bent á erlendar fyrirmyndir og þess freistað að útskýra flókið valdatafl höfðingja, munkareglna, biskupa og erkibiskupa í þessu máli, hér á landi og í nágrannalöndunum.

 

Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði
Lénsmenn á Íslandi á 16. og 17. öld. Hvað gerðu þeir? Hverjir voru þeir?

Í fyrirlestrinum verður fjallað um lénsmenn á Íslandi á 16. og 17. öld en lénsmaður var æðsti embættismaður konungs í léninu Íslandi á þessum tíma. Önnur heiti á lénsmanni  í íslenskum heimildum eru t.d.  hirðstjóri, höfuðsmaður, befalingsmaður og  umboðsmaður.  Lénsmenn  áttu m.a. að kunngera fyrirskipanir konungs, sjá um að þeim væri framfylgt og innheimta tekjur af eignum konungs. Þeir höfðu eftirlit með réttarfarinu, innheimtu sakeyris og að réttri kirkjuskipan væri fylgt. Lénsmennirnir voru oftast aðalsmenn af dönskum, norskum og þýskum ættum, en Eggert Hannesson var eini Íslendingurinn sem gengdi embættinu og þá aðeins í eitt ár. Þeir voru alls 23 talsins á tímabilinu 1541-1682 og verður æviágripa fáeinna þeirra getið.

 

Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði
Sjálfstæði Noregs 1814: Hvað fannst Íslendingum?

Árið 1814 lýstu Norðmenn yfir sjálfstæði, samþykktu eigin stjórnarskrá og völdu sér konung. Hver voru viðhorf Íslendinga - einkum eftir reynslu sína af sjálfstæði Íslands 1809?  Í þessu erindi verður tekið á þessari spurningu auk þess að ræða almennt um viðhorf Íslendinga til sjálfstæðis á öndverðri 19. öld. Hvaða áhrif hafði sjálfstæðisyfirlýsing Norðmanna á sjálfstæðisbaráttu frændþjóðarinnar?

 

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum
Land, þjóð og tunga: Samanburður á þjóðernislegri upphafningu í slóvenskri og íslenskri rómantík

Í fyrirlestrinum verður fjallað um hlutverk evrópskra þjóðskálda á 19. öld með samanburði á verkum Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) og slóvenska skáldsins France Preseren (1800-1849). Þjóðskáld víða um lönd leituðust við að upphefja þjóð sína og tungu með því að sýna að á móðurmálinu mætti yrkja kvæði sem stæðu jafnfætis þeim erlendu verkum sem best þóttu kveðin, en þá var jafnan miðað við verk endurreisnarskálda sem ortu á ítölsku. Preseren orti sonnettur á slóvensku sem tóku mið af fagurfræði og afstöðu ítölsku skáldanna, en þar kvað hann um örlög þjóðar sinnar í aldanna rás og upphóf ást sína til ungrar konu, rétt eins og ítölsku skáldin Dante og Petrarca höfðu gert. Hliðstæða viðleitni má greina í ýmsum kvæðum Jónasar sem taka mið af fagurfræði og afstöðu ítölsku endurreisnarskáldanna, en í verkum sínum leitaðist hann einnig við að upphefja fósturjörðina – ekki aðeins þjóðina og tunguna – að erlendri fyrirmynd. Upphafning fósturjarðarinnar fólst annars vegar í því að lýsa náttúru hennar sem listrænu landslagi og hins vegar í því að skilgreina ákveðna staði á landinu sem helga eða sameiginlega minningarreiti (lieux de mémoire) vegna mikilvægis þeirra í þjóðarsögunni eins og rakið verður í fyrirlestrinum.

 

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði
Litill kaffe kétill gamall. Nautnadrykkir á fyrri hluta 19. aldar 

Árabilið 1819-1840 nífaldaðist innflutningur á kaffi úr tæpum fimm tonnum í 44 tonn. Næstu árin jókst innflutningurinn enn og á sjöunda áratug aldarinnar voru að jafnaði flutt inn nærri 200 tonn á ári eða þrjú kíló á hvert mannsbarn í landinu. Til samanburðar má nefna að árin 2007-2011 voru flutt inn 2230 tonn af kaffi eða sjö kíló á mann. Í erindinu verða kaffikatlar, kaffikvarnir og bollapör í dánarbúum frá árunum 1830-1860 nýtt til að leggja mat á það hvernig kaffidrykkja dreifðist um íslenskt samfélag, með það að markmiði að greina hversu lítið fólk þurfti að eiga til að vilja geta notið hins nýja ávanabindandi munaðar. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is