Íslensk fallaflóra: Ólík föll og fræðikenningar

Föstudagur 5. mars kl. 15-17 og laugardagur 6. mars kl. 10-12 Stofa 111 Íslenska fallakerfið hefur verið mikið í deiglunni meðal innlendra og erlendra mál- fræðinga undanfarna áratugi. Upphafspunktur í þeirri umræðu er án efa grein ástralska fræðimannsins Avery Andrews frá 1976 þar sem sýnt var fram á að rökliðir (frumlög og andlög) geta staðið í hvaða falli sem er í íslensku (nefnifalli, þolfalli, þágufalli eða eignarfalli). Í hefðbundinni málfræði er hins vegar gengið út frá því að frumlög séu jafnan í nefnifalli en andlög í einhverju af aukaföllunum þremur. Þessi niðurstaða hefur haft mikil áhrif á hugmyndir málfræðinga um samband fallmörkunar (þess hvaða falli setningarliðum er úthlutað) og málfræðihlutverka (þ.e. hvort um er að ræða frumlag eða andlag), ekki aðeins í íslensku heldur einnig í mannlegu máli almennt. Annað mikilvægt kennileiti í fallaumræðunni er grein sem Moira Yip, Joan Maling og Ray Jackendoff birtu árið 1987. Þar settu þau fram þá tilgátu að skipta bæri föllum upp í formgerðarfall, sem réðist af því hvaða hlutverki setningarliður gegndi í formgerðinni, og orðasafnsfall, sem réðist af því hver fallvaldurinn væri (t.d. sögn eða forsetning). Orðasafnsfalli hefur svo aftur verið skipt upp í reglufall (eða merkingarlega skilyrt fall) og „furðufall“ (óreglulegt og ófyrirsegjanlegt fall).

Í þessari málstofu verður tekist á um ofangreind atriði og önnur fræðileg álitamál í tengslum við íslenska fallakerfið. Jóhanna Barðdal sem er rannsóknardósent við Björgvinjarháskóla og sérstakur gestur málstofunnar, setur fram gagnrýni á tvískiptinguna í formgerðarfall og orðasafnsfall út frá sjónarmiði konstrúksjónsmálfræði en Jóhannes Gísli Jónsson snýst tilgátunni til varnar í generatífum anda. Anton Karl Ingason gagnrýnir hugmyndina um „furðufall“ og færir rök fyrir virkni minnihlutamynstra í fallmörkun. Einar Freyr Sigurðsson og Hlíf Árnadóttir ræða um breytingar á nefnifallsandlögum í íslensku nútímamáli og Þórhallur Eyþórsson ber saman ólíkar kenningar sem hafa verið settar fram um fallmörkun í nýju þolmyndinni svokölluðu og tekur dæmi úr færeysku til samanburðar. Joel Wallenberg fer í saumana á kenningum Paul Kiparskys um setningarfall og loks fjallar Höskuldur Þráinsson um breytileika í fallmörkun, sem kemur bæði fram í tilbrigðum í máli einstakra málnotenda og í máli sama málnotanda.

Föstudagur, kl. 15-17: • Jóhanna Barðdal: Formgerðarfall og orðasafnsfall: Kynning •           Jóhanna Barðdal: Formgerðarfall og orðasafnsfall: Stenst sú tvískipting? •         Jóhannes Gísli Jónsson: Formgerðarfall og orðasafnsfall: Hver er munurinn? •   Anton Karl Ingason: „Djöfull kannast mig við hann!“ Virkni minnihlutamynstra í

fallmörkun

Laugardagur, kl. 10-12: •        Einar Freyr Sigurðsson og Hlíf Árnadóttir: Fallvölt andlög. Breytingar á

nefnifallsandlögum •       Þórhallur Eyþórsson: Fallmörkun í þolmynd í íslensku (og færeysku) •       Joel Wallenberg: The Rise of Positional Licensing, Revisited •   Höskuldur Þráinsson: Innri og ytri breytileiki í fallmörkun

Fundarstjóri: Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is