Íslenska í skólastarfi

Laugardagurinn 14. mars kl. 13.00-16.30, með kaffihléi.

Í málstofunni verður fjallað um íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum, menntun íslenskukennara og áherslur faggreinarinnar eins og þær birtast í samræmdum prófum. Kynntar verða áfanganiðurstöður úr rannsóknarverkefninu „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ og fleiri yfirstandandi rannsóknum.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Ásgrímur Angantýsson, lektor í íslenskri málfræði við Menntavísindasvið: Orðræða íslenskukennara um mál og málfræði
  • Finnur Friðriksson, dósent í íslensku við Háskólann á Akureyri: Faggreinarundirbúningur íslenskukennara
  • Þórunn Blöndal, dósent í íslenskri málfræði og málnotkun við Menntavísindasvið: Horft yfir sviðið: Hvað þurfa íslenskukennarar framtíðarinnar að kunna?

​Kaffihlé

  • Hanna Óladóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Varðveisla málsins og veruleikinn í skólastofunni. Sýn kennara á hlutverk sitt gagnvart málbreytingum.
  • Kristján Jóhann Jónsson, dósent í íslenskum bókmenntum við Menntavísindasvið: Bókmenntakennsla og læsi
  • Sigurður Konráðsson, prófessor í íslenskri málfræði við Menntavísindasvið: Umræða um samræmd (könnunar)próf

Málstofustjóri: Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku og forstöðumaður ritvers á Menntavísindasviði

Útdrættir:

Ásgrímur Angantýsson, lektor í íslenskri málfræði við Menntavísindasvið: Orðræða íslenskukennara um mál og málfræði

Rýnt verður í viðtöl við íslenskukennara sem tekin voru í tengslum við rannsóknarverkefnið „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ og gögnin sett í samhengi við kenningar um tungumálið sem félagslegt og menningarlegt auðmagn og hugmyndir fræðimanna um menningarlega endursköpun á vettvangi menntunar (Bourdieu 1973, 2008; Grenfell, 2012). Í ljós kemur að viðmælendur koma gjarna frá heimilum þar sem bóklestur var í hávegum hafður og málfarsleiðbeiningar þóttu sjálfsagður liður í uppeldinu. Að mati kennaranna þjónar málfræðikennsla m.a. því markmiði að gera nemendur að betri málnotendum og sporna gegn óæskilegum málbreytingum. Margir þeirra telja að þáttur heimilanna í þessum efnum sé verulegur og að börn sem ekki fái tilhlýðilega sinnu á þessu sviði gjaldi þess í skólanum. Í gögnunum má finna vísbendingar um að tilhneiging sé til að verðlauna nemendur sérstaklega fyrir kunnáttu, færni og veruhátt (habitus) sem er afrakstur menningarlegrar endursköpunar utan skólans, þ.e.a.s. í fjölskyldum og félagshópum.

Finnur Friðriksson, dósent í íslensku við Háskólann á Akureyri: Faggreinarundirbúningur íslenskukennara

Nýlegar rannsóknir á íslenskukennslu (sjá t.d. Rúnar Sigþórsson, 2008 og Svanhildi
Kr. Sverrisdóttur, 2014) benda um margt til þess að ákveðnir efnisþættir fái meiri
athygli en aðrir og að kennsluhættir í greininni séu nokkuð einhæfir og stýrist að
talsverðu leyti af t.d. samræmdum prófum og fyrirliggjandi námsefni frekar en af
faggreinar- og kennslufræðilegri þekkingu kennara og beitingu þeirra á henni. Þá má finna vísbendingar um að allur gangur er á því hvort þeir sem kenna íslensku hafi til þess sértæka menntun (Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Ingibjörg B. Frímannsdóttir og Siguðrur Konráðsson 2010 og 2014). Þessi mynd vekur ýmsar spurningar, m.a. varðandi faggreinarundirbúning íslenskukennara. Þessum þætti hefur lítt verið sinnt í rannsóknum en í erindinu verður reynt að varpa nokkru ljósi á hvar íslenskukennarar standa í þessum efnum, einkum út frá því kennaranámi sem í boði er hér á landi og upplýsingum sem fram koma í viðtölum við kennara í rannsókninni „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“.

Þórunn Blöndal, dósent í íslenskri málfræði og málnotkun við Menntavísindasvið: Horft yfir sviðið: Hvað þurfa íslenskukennarar framtíðarinnar að kunna?

Kennarar sem vinna við að mennta kennara standa alltaf frammi fyrir því að þurfa að hugsa um það starfssvið sem nemendur þeirra hafa valið sér. Í erindinu verður fjallað um þrjú svið sem taka þyrfti tillit til í íslenskukennslu í kennaramenntun, þ.e. námsgreinasvið, fræðasvið  og samskiptasvið. Á námsgreinasviði þarf að huga að því að kennaranemi fái góðan grunn í kennslugrein sinni, hann kunni vel þá þætti greinarinnar sem honum er gert að kenna á tilteknu skólastigi skv. námskrá. Á fræðasviði þarf nemandi að fá góðan og hagnýtan fræðilegan grunn, t.d. fræðslu um íslenska málsögu, sögu kennslugreinarinnar, málið í samfélaginu og sálfræðilega þætti máls og máltöku svo eitthvað sé nefnt. Í þessum þætti væri ekki efni sem nemendur myndu kenna heldur sá brunnur sem þeir geta sótt í til að útskýra, rökstyðja og vekja áhuga. Samskiptasviðið er annars eðlis en hin tvö en ekki síður mikilvægt. Þar yrði kennt um samskiptin í kennslustofunni, um þau málsnið sem hver kennari þarf að hafa á takteinum og vera meðvitaður um, um samskiptareglur í hópvinnu og hvernig kennari getur nýtt sér kunnáttu sína um samskipti til að rýna í málhegðun nemenda og fengið þannig fyllri mynd af þeim.

Hanna Óladóttir, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Varðveisla málsins og veruleikinn í skólastofunni. Sýn kennara á hlutverk sitt gagnvart málbreytingum.

Það hefur lengi verið þekkt staðreynd að tungumál breytast með tímanum en samt er enn verið að reyna að setja bönd á þau í krafti forskriftarmálfræði og hefur íslensk málstefna hneigst í þá áttina. Það er ekki hvað síst innan skólakerfisins sem slík málstýring fer fram en í fyrirlestrinum verður einmitt fjallað um hvernig grunnskólakennarar sjá hlutverk sitt í þessu sambandi, nánar tiltekið íslenskukennarar í 10. bekk nokkurra grunnskóla, og í framhaldinu verður síðan reynt að kortleggja hvernig þeir bregðast við málbreytingum í máli nemenda sinna og vinna að varðveislu tungumálsins.

Kristján Jóhann Jónsson, dósent í íslenskum bókmenntum við Menntavísindasvið: Bókmenntakennsla og læsi

Rætt verður um bókmenntakennslu og markmið hennar. Læsi hefur orðið tískuorð á síðustu árum en virðist sjaldan tengt við bókmenntir þegar skólamál eru rædd. Læsi virðist í mörgum tilfellum notað eins og orðið merki skilning og þekkingu en ekki er talað um rökstudda túlkun. Vikið verður að vísbendingum um stöðu bókmenntakennslu í gögnum rannsóknarinnar „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“. Fyrirmæli námskrár um kennslu í bókmenntum eru fljótandi og erfitt er að greina heildarsvip eða stefnu í bókmenntakennslu. Stuðst er m.a. við Envisioning literature: literary understanding and literature instruction og Litteraturens spor: om literatur, fag og pædagogik.

Sigurður Konráðsson, prófessor í íslenskri málfræði við Menntavísindasvið: Umræða um samræmd (könnunar)próf

Samræmd próf í grunnskóla eru umdeild, jafnt hér á landi sem víða um hinn vestræna heim. Umræða um þau í Noregi og Bandaríkjunum verður rakin í stuttu máli. Fjallað verður um gagnrýni sem fram hefur komið á samræmd próf, einkum í 10. bekk, á undanförnum áratugum á Íslandi. Gagnrýnin hefur einkum komið frá kennurum í háskóla. Hún hefur einkum beinst að málfræðiþætti prófsins. Rakið verður hvernig gagnrýnin hefur þróast og hvernig við henni hefur verið brugðist. Loks verður farið í saumana á afstöðu kennara og skólastjórnenda til samræmdra könnunarprófa eins og hún birtist í rannsókninni „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is