Föstudagur 25. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 207 í Aðalbyggingu Háskólans
Ofurneysla var ein helsta birtingarmynd „góðærisins“ sem ríkti hér á landi á árunum 1995 til 2008. Í málstofunni er leitast við að kortleggja einkaneysluna og rekja breytingar á neysluháttum Íslendinga frá góðæristímanum og fram í efnahagskreppu síðustu ára. Könnuð eru siðferðileg og pólitísk viðhorf fólks til neyslu og hvort merkja megi breytingar á viðhorfum þess í efnahagskreppunnni, t.d. til þess hvað telst til óþarfa og hvað til nauðsynja. Spurt er hvort aukið neysluaðhald í kreppunni muni leiða til varanlegra breytinga á lífsháttum og hvort með bættu siðferði opnist tækifæri til nýsköpunar.
Málstofustjóri: Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði
Fyrirlesarar:
- Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði: Þegar neyslugleðin var við völd
- Magnús Sveinn Helgason, doktorsnemi í sagnfræði: Flatskjáir og fellihýsi í aðdraganda hrunsins. Skilningur Íslendinga á „óþarfa“ og „lúxus“ frá góðæri til hruns
- Örn Daníel Jónsson, prófessor í nýsköpunarfræðum við Viðskiptafræðideild: Ekki hegða okkur svona aftur! Raunhæfar leiðir til ábyrgrar nýsköpunar
Útdrættir:
Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði
Þegar neyslugleðin var við völd
Hugmyndir okkar um neyslugleðina miklu sem ríkti á „góðæristímanum“ byggjast aðallega á sögum af ævintýralegum dellum „þotuliðsins“ og æði almennings í ákveðnar lúxusvörur. Í erindinu er reynt að festa betur hendur á neyslubólunni með því að rýna í neyslukannanir og gögn um einkaneyslu. Hvaða skilyrði skópu neyslubóluna og hvaða mynd hún tók á sig? Neyttu Íslendingar bara meira af því sama eða urðu markverðar breytingar á neysluháttum? Og hvaða áhrif hafði Hrunið á neyslu landsmanna?
Magnús Sveinn Helgason, doktorsnemi í sagnfræði
Flatskjáir og fellihýsi í aðdraganda hrunsins.
Skilningur Íslendinga á „óþarfa“ og „lúxus“ frá góðæri til hruns
Bankahrunið og kreppan sem því fylgdi hafa kallað fram nýja umræðu um hvað telst eðlileg neysla og hvað lúxus; siðferðislegir dómar hafa verið felldir jafnt um neyslu almennings sem útrásarvíkinga í góðærinu. Um leið hefur knappari fjárhagur flestra heimila neytt fólk til að endurskoða hvað telst til óþarfa og hvað telst til nauðsynja. Rætt er um þetta siðferðilega uppgjör Íslendinga við neyslu góðærisins, einkum eins og það birtist í viðtölum við tugi Íslendinga í rannsóknarverkefninu Kreppusögur. Hefur fólk endurskoðað neyslu sína í góðærinu? Hvaða breytingar hafa orðið á viðhorfum fólks til óþarfa og nauðsynja? Má merkja einhverjar breytingar á viðhorfum Íslendinga til neyslusamfélagsins?
Örn Daníel Jónsson, prófessor í nýsköpunarfræðum við Viðskiptafræðideild
Ekki hegða okkur svona aftur! Raunhæfar leiðir til ábyrgrar nýsköpunar
Fjallað verður um þá breyttu lífshætti sem bólutíminn fól í sér og þá þversögn sem Juliet Schor benti á þegar á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún taldi að aukin velmegun fæli í sér aukna skuldsetningu og lengri vinnutíma, vítahring sem erfitt hefur reynst að losna út úr.
Spurt er hvort yfirstandandi þrengingar og aðhald í neyslu séu aðeins sambland af eftirsjá og samviskubiti eða hvort þær leiði til varanlegra breytinga á lífsháttum. Ríkjandi viðmið, “grænt ef það kostar ekki of mikið”, er staðreynd sem taka verður alvarlega og snúa þarf kröfunni um breytt siðferði í tækifæri til nýsköpunar. Þegar er farið að vinna út frá þessu í þekkingarsamfélaginu víðsvegar um heiminn.