Íslenskt mál og menning í Vesturheimi

Föstudaginn 14. mars kl. 13.00-16.00 í stofu 50 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Í þessari málstofu verða kynntar þær rannsóknir sem hafa verið unnar upp úr rannsóknarverkefninu „Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd“, sem hlaut Rannís styrk í fyrra. Í verkefninu verða málbreytingar og tengsl máls og sjálfsmyndar skoðuð út frá vestur-íslensku.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Kristín M. Jóhannsdóttir, nýdoktor í málvísindum: Tímatáknun í vesturíslensku
  • Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Upprunamál og menningarleg sjálfsmynd: Samspil máls og menningar í vestur-íslensku samhengi
  • Matthew Whelpton, dósent í enskum málvísindum og Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, málfræðingur: Fætur ofan á diski. Um merkingarlega könnun á vesturíslensku og kanadískri ensku.
  • Iris Edda Nowenstein, meistaranemi og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í málfræði: Sýki eða ekki sýki. Um málvernd og máltilbrigði á Íslandi og vestanhafs
  • Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði og Sigríður Mjöll Björnsdóttir, meistaranemi: Hvernig falla föll í gleymsku? Um andlagsfall og önnur föll í vesturíslensku og í málstoli

Málstofustjóri: Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli og Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent

Útdrættir:

Kristín M. Jóhannsdóttir, nýdoktor í málvísindum: Tímatáknun í vesturíslensku

Eitt af því sem hafa þarf í huga þegar gerðar eru rannsóknir á tungumálum er að hægt sé að stýra aðstæðum á þann hátt að myndin sem dregin er upp sé sem nákvæmust. Þetta þýðir að huga þarf vel að rannsóknaaðferðunum sem notaðar eru enda geta mismunandi aðferðir skilað gerólíkum niðurstöðum. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um rannsókn á tímatáknun í vestur-íslensku – sérstaklega hvað varðar notkun á tíð og horfi – og hvernig málhafar velja mismunandi setningagerðir eftir því hvert verkefnið er. Þannig kom t.d. í ljós að framvinduhorf var alls ráðandi þegar málhafar áttu að lýsa mynd sem sýndi einfaldan og einangraðan atburð en nútíðarformið varð æ algengara eftir því sem sagan varð samfelldari. Þá var greinilegur munur á notkun lýsingarháttar þátíðar og loknu horfi II eftir því hvor rannsóknaaðferðin var notuð. Það er því ljóst að ein rannsóknaraðferð dugar skammt þegar lýsa á máli.

Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Upprunamál og menningarleg sjálfsmynd: samspil máls og menningar í vestur-íslensku samhengi

Í þessu erindi verður fjallað um íslensku sem upprunamál (e. heritage language) í samhengi norður-amerísks fjölmenningarsamfélags, og hlutverk íslenskunnar í að þróa og viðhalda vestur-íslenskri sjálfsmynd. Hvert er viðhorf fólks til íslenskunnar, og hver eru menningarlegu áhrif á íslensku og íslenskukennslu í vesturheimi? Kynnt verða aðalkenningarnar á sviði upprunamála sem tengjast þróun sjálfsmyndar og upprunamenningar í fjölmenningarlegu samhengi, og íhugað hvernig þær gætu aukið skilning okkar á samspili máls og menningar í vestur-íslensku samhengi. 

Matthew Whelpton, dósent í enskum málvísindum og Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, málfræðingur: Fætur ofan á diski. Um merkingarlega könnun á vesturíslensku og kanadískri ensku
This paper reports on a semantic elicitation experiment carried out among speakers of North American Icelandic (hereafter NA Icelandic; cf. Arnbjörnsdóttir 2006 and references there) and local Canadian English during a trip to Manitoba, Canada, in April and May 2013. The experiment builds on work already conducted as part of a large European project (EOSS 1); Majid, Jordan, and Dunn 2011) studying the semantics of Indo-European languages, including Icelandic. During the Manitoba trip, the EoSS experiment was re-run for three domains (containers, body parts and spatial relations). Preliminary results show: significant vocabulary attrition; variation in lexical forms and grammatical class; no evidence of a shift from Icelandic extensions to Canadian English extensions but rather a broadening of extensional range; moreover, distinctive features of Icelandic usage persist, e.g. productive compounding and complex preposition usage (cf. Berthele et al. 2013).

Arnbjörnsdóttir, Birna. 2006. North American Icelandic – the Life of a Language. Winnipeg: University of Manitoba Press.
Berthele, Raphael, Matthew Whelpton, Åshild Næss, Pieter Duijff, and Cornelia van Scherpenberg. 2013. “Static Spatial Descriptions in Five Germanic Languages.” Language Sciences to appear.
Majid, Asifa, Fiona Jordan, and Michael Dunn. 2011. Evolution of Semantic Systems Procedures Manual. Nijmegen: Max Planck Institute for Psycholinguistics.

1) http://www.mpi.nl/departments/other-research/research-consortia/eoss/pro...

Iris Edda Nowenstein, meistaranemi og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í málfræði: Sýki eða ekki sýki. Um málvernd og máltilbrigði á Íslandi og vestanhafs

Íslenska og vesturíslenska hafa þróast við gjörólíkar málfélagslegar aðstæður síðan einir mestu brottflutningar Íslandssögunnar áttu sér stað undir lok 19. aldar. Í þessu er fólgið einstakt tækifæri til rannsókna á orsökum málbreytinga og þeim þáttum sem stýra útbreiðslu þeirra. Þannig er hægt að leita markvisst svara við spurningum á borð við: Koma sömu málbreytingar fram ef málfélagslegar aðstæður eru ólíkar? Hversu miklu máli skiptir forskriftarmálfræði þegar kemur að útbreiðslu þeirra? Hér verður einblínt á tvær umtalaðar setningafræðilegar breytingar, þágufallshneigð (þágufallssýki) og nýju setningagerðina (nýju þolmyndina). Vesturfararnir tóku að öllum líkindum þágufallshneigð með sér þegar þeir fluttu til Norður-Ameríku en aftur á móti virðist nýja setningagerðin hafa sprottið þar sjálfstætt. Sagt verður frá rannsókn sem sýnir sambærileg mynstur í útbreiðslu þágufallshneigðar í íslensku og vesturíslensku og einnig verða kynnt gögn sem benda til tilvistar nýju setningagerðarinnar í vesturíslensku.  

Höskuldur Þráinsson, prófessor í málfræði og Sigríður Mjöll Björnsdóttir, meistaranemi: Hvernig falla föll í gleymsku? Um andlagsfall og önnur föll í vesturíslensku og í málstoli

Fallmörkun eða fallstjórn er meðal þess sem getur farið úr skorðum þegar málnotendur missa tökin á máli sínu á einhvern hátt. Í þessum fyrirlestri verða skoðuð tilbrigði í fallstjórn sagna og forsetninga í vesturíslensku. Megináherslan er á þróun fallstjórnar í máli eins málnotanda sem skrifaði bréf til Íslands frá Vesturheimi 73 ár. Meðal þess sem kemur fram í þessum bréfum er að þágufall sækir allvíða á þegar fram líða stundir, þ.e. kemur fram á ýmsum stöðum þar sem þess er ekki að vænta. Þessi þróun er borin saman við svipaða tilhneigingu sem má finna í máli sjúklings sem missti tökin á málinu eftir málstol (málfræðistol). Einnig verður höfð hliðsjón af fræðilegum kenningum um tengslin milli fallstjórnar og merkingar sagna og ýmis dæmi skoðuð um fallstjórn í öðrum heimildum um vesturíslensku, ekki síst fallstjórn tökusagna úr ensku, sem og breytingar á fallmörkun sagna sem taka þolfallsandlög í staðalíslensku, en þágufallsandlög í vesturíslensku.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is