Laugardagur 26. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 51 í Aðalbyggingu Háskólans
Í málstofunni verður fjallað um rannsóknir á íslenska táknmálinu sem nú standa yfir og aðferðir við gagnaöflun og skráningu.
Fyrirlestrar verða túlkaðir yfir á íslenskt táknmál.
Málstofustjóri: Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í íslensku
Fyrirlesarar:
- Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði: Er gagn af gögnum? Gagnasöfnun og skráning í táknmálsrannsóknum
- Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, meistaranemi í almennum málvísindum: Staða HVER og HVAÐ auk annarra spurnarorða í hv-spurningum í íslenska táknmálinu
- Kristín Lena Þorvaldsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði: Venjulegar sagnir, áttbeygðar sagnir og próformasagnir í táknmálum
Útdrættir:
Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði
Er gagn af gögnum? Gagnasöfnun og skráning í táknmálsrannsóknum
Þegar um sjónrænt mál er að ræða sem að auki á sér ekki ritmál er ekki alltaf hægt að byggja á hefðbundnum leiðum í gagnasöfnun. Í erindinu verður fjallað um nokkrar leiðir til söfnunar táknmálsgagna og litið á kosti þeirra og galla. Rætt verður um þær leiðir sem farnar hafa verið í gagnasöfnun í nokkrum íslenskum rannsóknum. Einnig verður rætt um söfnun máldæma fyrir íslenskt táknmál (corpus) sem og skráningu gagnanna.
Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, meistaranemi í almennum málvísindum
Staða HVER og HVAÐ auk annarra spurnarorða í hv-spurningum í íslenska táknmálinu
Fram til ársins 2010 hafði staða spurnarorða í hv-spurningum í íslenska táknmálinu (ÍTM) aldrei verið rannsökuð. Í ársbyrjun 2010 fékkst þó þriggja ára styrkur frá RANNÍS fyrir verkefninu Málfræðilegar formdeildir og hlutverksliðir með hliðsjón af miðlunarhætti. Einn hluti þessa verkefnis er t.a.m. að skoða hv-spurningar í íslenska táknmálinu. Í fyrirlestrinum verður rætt um þær athuganir á hv-spurningum sem gerðar hafa verið í verkefninu og niðurstöður þeirra ræddar. Helstu niðurstöður eru líklega þær að spurnarfærsla virðist ekki vera skyldubundin en þó möguleg í ÍTM. Ef færsla á sér stað er hún þó líklega frekar til hægri en til vinstri, ólíkt því sem vaninn er að sjá t.d. í raddmálum.
Kristín Lena Þorvaldsdóttir, meistaranemi í íslenskri málfræði
Venjulegar sagnir, áttbeygðar sagnir og próformasagnir í táknmálum
Venjulegar sagnir, áttbeygðar sagnir og próformasagnir kallast þær þrjár tegundir sagna sem fyrirfinnast í flestöllum táknmálum heimsins. Þessar þrjár tegundir sagna hafa allar ólíka formgerð og eru sagnir sömu merkingar oft og tíðum sömu tegundar í ólíkum táknmálum. Svo virðist sem merking sagnanna geti haft þau áhrif að miðlunarháttur og formgerð þeirra breytist með tímanum. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þessum ólíku tegundum sagna og fjallað verður um yfirstandandi rannsókn á þeim og þróun þeirra í íslenska táknmálinu.