Íslenskunám utan kennslustofunnar

 

Í þessari málstofu, sem skipulögð er af Rannsóknastofu í máltileinkun (RÍM), verður fjallað um tungumálanám utan hefðbundinnar kennslustofu og þætti sem skipta máli fyrir framvindu tileinkunar nýja tungumálsins.

 

 

Málstofustjóri: Þórhildur Oddsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.45 (stofa 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Guðrún Theodórsdóttir lektor í íslensku sem öðru máli: Um leiðréttingar, lagfæringar (e. repair) og íslenskukennslu utan kennslustofunnar
  • Kolbrún Friðriksdóttir aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Hvenær klárar maður kúrs? Um framvindu í netnámi
  • Stefanie Bade, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Erlendur hreimur. Einstaklingsbundnir og félagssálfræðilegir þættir í tileinkun annars máls

Fundarstjóri: Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar

Útdrættir:

Guðrún Theodórsdóttir lektor í íslensku sem öðru máli: Um leiðréttingar, lagfæringar (e. repair) og íslenskukennslu utan kennslustofunnar

Rannsóknir sýna að leiðréttingar á máli þeirra sem tala annað mál (L2) eru sjaldgæfar utan kennslustofunnar og eru þá þannig úr garði gerðar að raska samskiptunum sem minnst: en-passant leiðréttingar (Kurhila 2001; Brouwer, Rasmussen & Wagner, 2004). Oft eru leiðréttingar eða lagfæringar í samvinnu viðmælenda og þá er algengt að lagfært sé í hliðarrunu (e. side-sequence). Hér verður kafað dýpra í lagfæringar í íslensku sem öðru máli, þ.e. sjónum beint sérstaklega að þeim tilvikum þar sem sá sem leiðréttir bregður sér í hlutverk kennara/sérfræðings og heldur áfram útskýringum sínum eftir að ljóst er að viðmælandinn hefur móttekið leiðréttinguna. Þeirri spurningu er varpað fram hvort þessi tilvik megi greina sem kennslu utan kennslustofunnar. 

Kolbrún Friðriksdóttir aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Hvenær klárar maður kúrs? Um framvindu í netnámi

Innbyggt vöktunarkerfi Icelandic Online hefur fylgt nemum vefnámskeiðanna eftir um margra ára skeið og í fyrirlestrinum greini ég frá niðurstöðum fyrsta hluta doktorsrannsóknar minnar á gagnagrunni Icelandic Online.      

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru í fyrsta lagi þær að lágt hlutfall nemenda klárar námskeið sem er í samræmi við niðurstöður rannsókna á framvindu í MOOC-námskeiðum (Massive Open Online Courses). Í öðru lagi má sjá að námsumgjörð í netnámi er áhrifaþáttur og að nemar í blönduðu námi eru líklegri til að ljúka námskeiði en þeir sem eru í fjarnámi og sjálfsnámi. Og í þriðja lagi vekur greining á námshegðun þeirra sem klára ekki námskeið til enda upp spurningar um mælikvarða sem eru settir við mat á virkni og framvindu í netnámi.

Stefanie Bade, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Erlendur hreimur. Einstaklingsbundnir og félagssálfræðilegir þættir í tileinkun annars máls

Erlendur hreimur er eitt mest áberandi einkenni í tali útlendinga og hefur því oft verið haldið fram að líkurnar á því að tala hljóðfræðilega eins og innfæddur minnki þegar ákveðnum aldri er náð. Nýlegar rannsóknir erlendis hafa þó leitt í ljós að aðrir þættir, t.a.m. hvatning, viðhorf til erlenda tungumálsins og umhverfisins, sem og lengd dvalar og tungumálakennslu, notkun erlenda tungumálsins og eigin tungumáls, hafa áhrif á það hversu sterkur eða veikur hreimurinn er. Enn fremur spila sjálfsvaldar kennsluaðferðir innan og utan kennslustofunnar ákveðið hlutverk í því hvaða árangri í tileinkun framburðar annars máls verði náð.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um einstaklingsbundin og félagssálfræðileg atriði sem geta haft áhrif á stig hreims (e. degree of accent). Hliðsjón verður höfð af eigin rannsókn sem kannar mögulegt samhengi milli stigs hreims og hvatningar til að læra tungumálið annars vegar og milli stigs hreims og tilfinninga gagnvart því að nota íslensku og búa á Íslandi hins vegar. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is