Jörð og orð: Samband náttúru og bókmennta

Föstudagurinn 13. mars kl. 15.00-17.00.

Í málstofunni verður hugað að hlutverki náttúrunnar í skáldskap frá 19. öld til nútímans. Rætt verður um birtingarmyndir hennar í bókmenntatextum eftir ýmis skáld og sjónum beint að hlutverki skáldskaparins fyrir sýn okkar á náttúruna. Þátttakendur í málstofunni koma úr ýmsum áttum og hafa nálgast náttúruskrif bæði á fræðilegan og skapandi hátt.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands: Fantasíur og fræðsla um raunveruleikann: Um Draumalandið og Tímakistuna eftir Andra Snæ Magnason       
  • Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði: Jarðnánd Jóhannesar S. Kjarvals
  • Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands: Ljós og myrkur, grænt og rautt: Andstæður í náttúrusýn íslenskra skálda

Málstofustjóri: Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur

Útdrættir:

Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands: Fantasíur og fræðsla um raunveruleikann: Um Draumalandið og Tímakistuna eftir Andra Snæ Magnason       

Í fyrirlestrinum verður fjallað um samfélagslegt hlutverk bókmennta hvað varðar náttúruna og raunar heiminn allan. Sjónum verðum beint að verkum Andra Snæs Magnasonar og þá sérstaklega Draumalandinu og Tímakistunni. Annars vegar er um að ræða beinskeytta ádeilu og sjálfshjálparbók og hins vegar fantastísk barnabók. Rætt verður um boðskap og áhrif Draumalandsins og Tímakistunnar í tengslum við framasetningu bókanna og einkum leitað í kenningakistu vistrýni eða grænna bókmennta. Einnig verður þó minnst á fantasíur og ýmislegt sem rætt hefur verið og ritað um sjálfshjálparbækur.

Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði: Jarðnánd Jóhannesar S. Kjarvals

Jóhannes Sveinsson Kjarval var ekki aðeins málari, heldur gagnrýnandi, smásöguhöfundur og ljóðskáld. Hin mörgu og fjölbreytilegu skrif Kjarvals hafa þó alls ekki hlotið sömu athygli og myndlist hans. Í erindinu verður fjallað um nokkra texta eftir Kjarval sem lúta að náttúrunni og hugað að þeim viðhorfum og hugmyndum sem þar birtast.

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands: Ljós og myrkur, grænt og rautt: Andstæður í náttúrusýn íslenskra skálda

Á 19. öld myndast ákveðin andstæðuhefð í íslenskum skáldskap. Skáldin leitast þá við að lýsa tveimur hliðum á náttúrunni, annars vegar þeirri sem kenna má við hjarðljóð eða sveitasælu og hins vegar þeirri sem lýsa má sem háleitri eða hrikalegri. Einstök skáld leggja mismikla áherslu á þessar ólíku hliðar náttúrunnar og stundum virðist önnur þeirra ráðandi, þannig að náttúrusýnin verður nokkuð einsleit. Til dæmis einkennist skáldskapur Steingríms Thorsteinssonar oft af samhljómi og sveitasælu, en aftur á móti ber meira á háleitum og hrikalegum náttúrumyndum í skáldskap Bjarna Thorarensens og Gríms Thomsens. Í fyrirlestrinum verður samspil þessara andstæðna rakið og spurt hvort hennar sjái ennþá stað í íslenskum skáldskap og náttúrusýn.  

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is