Kirkja í krísu

Föstudagur 9. mars kl. 15-16.30
Stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Í málstofunni verður fjallað um kirkju í krísu í sögu og samtíð.

Ljósi verður varpað á eðli kirkjustofnunarinnar og sögulegt mikilvægi kirkna í vestrænni stjórnskipan en einnig gagnrýni á stofnunarvæðingu kirkjunnar. Glímt verður við spurninguna hversu alvarlegur vandi kirkjustofnana nú á dögum sé í samanburði við pólitískar sviptingar sem höfðu áhrif á stöðu kirkju á tólftu, sextándu og átjándu öld.

Þá verður fengist við viðbrögð íslensku þjóðkirkjunnar í þeirri krísu er henni mætti er ný heimsmynd ruddi sér til rúms á 20. öld og bjartsýni aldamótaáranna beið afhroð í kjölfar heimsstyrjaldanna.

Loks verður fjallað um þá krísu sem kristnar kirkjur mæta er þær þurfa að bregðast við málum eins og t.d. kynferðislegu ofbeldi eða  þegar leiða þarf málefni eins og hjónaband fólks af sama kyni til lykta.

Fyrirlesarar:

  • Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra: Hversu alvarlegur er vandi þjóðkirkjunnar? — Samhengið í stofnunarsögu þjóðkirkjunnar
  • Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu: Innhverfing íslensku þjóðkirkjunnar á síðari hluta 20. aldar.
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði: Kirkja + kynverund = Krísa

Málstofustjóri: Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir doktorsnemi

 

Útdrættir:

Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður Fræðaseturs HÍ á Norðurlandi vestra: Hversu alvarlegur er vandi þjóðkirkjunnar? —Samhengið í stofnunarsögu þjóðkirkjunnar.

Í fyrirlestrinum verður stofnunarvæðing kirkjunnar rakin í því skyni að varpa ljósi á eðli kirkjustofnunarinnar. Einnig verður fjallað um gagnrýni á stofnanavæðingu kirkna og sögulegt mikilvægi slíkra stofnana í vestrænni stjórnskipan. Þeirri spurningu verður velt upp hversu alvarlegur vandi kirkjustofnana nú sé í samanburði við pólitískar sviptingar sem höfðu áhrif á stöðu kirkju á 12. öld, 16. öld og á þeirri 18.

 

Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu: Innhverfing íslensku þjóðkirkjunnar á síðari hluta 20. aldar

Í upphafi 20. aldar ruddi ný heimsmynd sér til rúms og í kjölfar heimsstyrjaldanna beið bjartsýni aldamótaáranna afhroð. Íslenska þjóðkirkjan hafði mætt heimsmyndarskiptunum með frjálslyndri guðfræði og spíritisma. Í fyrirlestrinum varður varpað ljósi á hvernig þjóðkirkjan brást við uppgjöri eftirstríðsáranna. Litið verður svo á það hafi hún gert með því að leita inn á við í „arf“ eða „hefð“ kirkjunnar. Leiddi það til nýrrar „krísu“?

 

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði: Kirkja + kynverund = Krísa

Kynlíf einstaklinga af sama kyni hefur verið álitið bæði sjúklegt og syndugt lengst af í kristinni sögu og menningu. Í erindinu verður stuðst við kenningu mannfræðingsins Gayle Rubin (1984) til að varpa ljósi á þá krísu sem kirkjur víðast hvar í heiminum lenda í þegar einstaklingar af sama kyni fara fram á að mega ganga í hjónaband. Hjónaband og kynlíf samkynhneigðra gengur hreinlega ekki upp!

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is