Konur á köldum klaka

Laugardagur 26. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 225 í Aðalbyggingu Háskólans

Fjallað verður um handrit í eigu kvenna á síðari öldum, handrit með ævisögulegu efni eftir konur og handrit af kvæðum sem ort eru fyrir þær. Enn fremur verður rýnt í sendibréf kvenna og hlýtt á frásagnir þeirra af ævintýrum. Sjónum verður m.a. beint að sjálfsmynd kvenna á mismunandi tímum, sjálfstjáningu þeirra, viðhorfi og væntingum.

Málstofustjórar: Þórunn Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur, og Guðrún Ingólfsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum

 

Fyrirlesarar:

  • Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Höfðingsjómfrú eignast handrit
  • Guðrún Ingólfsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Hún fékk bók! Handrit í eigu kvenna
  • Erla Hulda Halldórsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði: Sjálfsmynd í bréfi

Kaffihlé

  • Þórunn Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur: Harmljóð Halldóru Guðbrandsdóttur, huggunarsálmur og eftirlangan til eilífs lífs. Umbreyting bókmenntagreinar í handritamenningu árnýaldar
  • Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur: „ ... því guð gaf mér málið eins og honum.“ Um handrit kvenna í meðförum karla
  • Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Ævintýrakonur: viðhorf og væntingar kvenna sem segja ævintýri

 

Útdrættir:

 

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Höfðingsjómfrú eignast handrit

Fjallað verður um nokkur handrit sem skrifuð voru handa ungum gjafvaxta dætrum embættismanna á Hólum og í Skálholti á sautjándu og átjándu öld. Reynt verður að svara eftirfarandi spurningum: Hver voru tengsl skrifarans við verðandi eiganda í hverju tilfelli, hvert er efni handritanna, hver valdi efnið og hvernig endurspeglar það sjálfsmynd og áhugamál þessara ungu kvenna? 

 

Guðrún Ingólfsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Hún fékk bók! Handrit í eigu kvenna

Engar formlegar athuganir hafa verið gerðar á handritaeign kvenna á síðari öldum. Í tengslum við doktorsritgerð mína, þar sem ég m.a. fjalla um handrit skrifað fyrir 18. aldar konu, gerði ég yfirlit yfir handritaeign kvenna eins og hún blasir við í handritaskrá Landsbókasafns Íslands. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar og fjallað um þau vandamál sem bíða þess er leggur í slíkan leiðangur.

 

Erla Hulda Halldórsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði
Sjálfsmynd í bréfi

Í fyrirlestrinum verður rætt um sköpun sjálfsmyndar í bréfasamböndum út frá kenningum um „mikilvægan hinn“ en einnig hvernig sú sjálfsmynd sem lesa má úr sendibréfum kvenna kemur heim og saman við þann „veruleika“ sem þær lifðu í.

 

Þórunn Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur
Harmljóð Halldóru Guðbrandsdóttur, huggunarsálmur og eftirlangan til eilífs lífs. Umbreyting bókmenntagreinar í handritamenningu árnýaldar

Í handritamenningu fyrri alda þótti það ekki athugavert þótt textum væri breytt með ýmsum hætti, erindaröð kvæða umbylt, köflum sleppt eða orðum skipt út fyrir önnur sem skrifaran­um hugnaðist betur. Samkvæmt nýju textafræðinni (e. material philology) voru slíkir textar miklu fremur hluti af samfélagslegri orðræðu en endanleg afurð eins listamanns. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig kvæði sem ort var af ákveðnu tilefni árið 1627 breyttist í meðförum skrifara á 17. og 18. öld. Færð verða rök fyrir því að sumar breytingarnar hafi verið gerðar beinlínis með það að markmiði að kvæðið glataði upprunalegri merkingu sinni en öðlaðist nýja merkingu annarrar bókmenntagreinar.

 

Guðný Hallgrímsdóttir, sagnfræðingur
„ ... því guð gaf mér málið eins og honum.“ Um handrit kvenna í meðförum karla

Sjálfsævisaga Guðrúnar Ketilsdóttur er hugsanlega elsta sjálfsævisaga íslenskrar alþýðukonu sem varðveitt er á handritadeild Landsbókasafnsins. Heimildir sem þessar, þar sem kona tjáir sig á jafn opin og einlægan hátt um eigið líf, eru einstakar og varpa mikilvægu ljósi á daglegt líf kvenna fyrr á tímum. Sjálfsævisaga Guðrúnar er líka ágætt dæmi um hvernig staðið var að skráningu á handritum kvenna. Sjálfsævisögu hennar skráði Páll Eggert í handritaskrár Landsbókasafnsins sem kímnisögur af kerlingarflóni og skipaði henni í flokk með álfa- og draugasögum. Við það „hvarf“ handritið í raun í handritaskránum, komst í flokk með efni sem ólíklegt væri að fræðimenn leituðu í, aðrir en þeir sem áhuga hefðu á álfa- og draugasögum. Viðfangsefni mitt er sjálfsævisaga Guðrúnar og hvernig karlarnir sem um hana fóru höndum, lifandi og dauða, réðu ráðum sínum.

 

Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknarlektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Ævintýrakonur: viðhorf og væntingar kvenna sem segja ævintýri

Það er viðtekin skoðun í þjóðsagnafræðum að ævintýri séu sagnagrein þeirra fátækustu og lægst settu í samfélaginu vegna þess að þau eigi auðvelt með að samsama sig söguhetjunum, sem þurfi að eiga við ýmsa erfiðleika og óvini, sem auðvelt sé að líkja við það sem fólkið þarf sjálft að fást við í raunverulegu lífi. Ég hef aftur á móti rekið mig á að a.m.k. nokkrar konur sem segja ævintýri inn á segulband tilheyra alls ekki þessum hópi fólks. Með þetta í huga langar mig að skoða ævintýri kvenna, jafnvel bæði hljóðrituð og skrifuð, og athuga hvort ástæðan fyrir því að þessar sagnakonur velja að segja ævintýri geti verið einhver allt önnur.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is