Konur sem myrða: Burial Rites (Náðarstund) eftir Hannah Kent, heimildir og textatengsl

Föstudagurinn 13. mars kl. 15.00-16.00.

Hannah Kent hefur slegið í gegn bæði á Íslandi og erlendis með skáldsögu sinni Burial Rites (ísl. Náðarstund) sem kom fyrst út árið 2013 og hefur unnið til ýmissa verðlauna. Hér er sögð saga Agnesar Magnúsdóttur sem ásamt Friðriki Sigurðssyni var líflátin 12. janúar árið 1830 fyrir morðið á húsbónda sínum Natani Ketilssyni og vinnumanninum Pétri Jónssyni aðfaranótt 14. mars 1828 á Illugastöðum í Húnaþingi vestra. Í þessari málstofu verður fjallað um skáldsögu Kent, meðferð hennar á sögu Agnesar, notkun og úrvinnslu höfundar á heimildum og þau áhrif sem skáldsaga Margaret Atwood, Alias Grace (1996), hefur greinilega haft á Kent í ritun sögunnar. Í þessu samhengi verður fjallað um hin ýmsu textatengsl sem greina má í Burial Rites og varpa nýju ljósi á efnistök höfundar og meðferð á sögulegum atburðum.

Málstofan er tileinkuð minningu Eggerts Þórs Bernharðssonar.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor í breskum bókmenntum: Kvenmorðingjar í kulda norðurs. Um áhrif Margaret Atwood á Burial Rites eftir Hannah Kent
  • Helga Kress, prófessor emeritus í almennri bókmenntafræði: Myrkraverk. Um morðnóttina á Illugastöðum í mars 1828 frá Árbókum Jóns Espólín (1855) til skáldsögu Hannah Kent, Burial Rites (2013)

Málstofustjóri: Júlían Meldon D'Arcy, prófessor í ensku

Útdrættir:

Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor í breskum bókmenntum: Kvenmorðingjar í kulda norðurs. Um áhrif Margaret Atwood á Burial Rites eftir Hannah Kent

Þessi fyrirlestur fjallar um skáldsöguna Burial Rites eftir Hannah Kent (2013) og þau greinilegu áhrif sem Margaret Atwood og skáldsaga hennar Alias Grace (1996) hafa haft á Kent í ritun skáldverksins. Sjálf hefur Hannah Kent sagt að hún líti á skáldverk sitt sem ævisögu byggða á tilgátum (e. speculative biography) fremur en sögulega skáldsögu, og nefnir enn fremur í því samhengi að skáldsaga Atwood og ritgerð hennar, „Í leit að Alias Grace (e. In Search of Alias Grace),“ hafi veitt sér mikilvægan innblástur við ritun Burial Rites. Farið verður yfir helstu þætti sem endurspegla þessi áhrif, m.a. uppbyggingu sögunnar, frásagnarhátt, persónusköpun og meðferð Kent og framsetningu á heimildum þeim sem styðja við Burial Rites.

Helga Kress, prófessor emeritus í almennri bókmenntafræði: Myrkraverk. Um morðnóttina á Illugastöðum í mars 1828 frá Árbókum Jóns Espólín (1855) til skáldsögu Hannah Kent, Burial Rites (2013)

Í hausthefti Sögu 2013 birtist grein eftir Eggert Þór Bernharðsson um svokölluð Natansmál, rannsóknaverkefni sem hann var með í smíðum. Með tilvísun til frumheimilda sýnir hann fram á að ástarsambandið sem samkvæmt sögusögnum á að hafa verið milli Natans Ketilssonar og Agnesar Magnúsdóttur eigi ekki við rök að styðjast og sé því ekki orsök þess að hann var myrtur. Orsökina rekur Eggert til geðvonsku Natans, þ.e. „skammanna“ sem hann lét dynja á vinnukonum sínum, þeim Sigríði og Agnesi, og hann túlkar sem ofbeldi í orðum. Ýmislegt bendir þó til að „skammirnar“ sem þær nefna ítrekað í yfirheyrslunum vísi til kynferðislegs ofbeldis. (Sjá nánar grein mína í vorhefti Sögu 2014, þar sem ég fylgi eftir athugunum Eggerts, með hans örláta samþykki).

Um Natansmál hefur mikið verið skrifað, bæði af sagnaþáttum og skáldskap, sem ýmist byggja á ótraustum munnmælum og/eða hvert á öðru. Einkennandi fyrir þessi verk er að þau snúast flest um Agnesi sem ævinlega er kennt um morðið á Natani ef hún er ekki beinlínis látin drepa hann. Það síðasta í þessari röð er skáldsaga Hönnuh Kent, Burial Rites frá 2013. Í erindinu verður fjallað um heimildanotkun hennar og tengsl við fyrri rit, með áherslu á atburði morðnæturinnar og lýsingu Agnesar, jafnframt því sem hugað verður að því „nýja ljósi“ sem hún á, samkvæmt auglýsingum, að hafa varpað á þetta mál. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is