Kristnin í samtali við samtímann

Föstudaginn 14. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Kristin trú verður til í sögulegu samhengi sem hefur áhrif á mótun kristinnar trúarhefðar. Þannig byggir kristin trú ekki aðeins á gyðinglegum grunni, heldur hefur grísk-rómverskur hugmyndaheimur einnig mótandi áhrif á hugmyndir hennar. En kristnin verður ekki aðeins fyrir áhrifum, heldur hafa kristnar hugmyndir og kristinn trúararfur áhrif á samfélagslega umræðu. Með öðrum orðum þá er um að ræða gagnkvæm áhrif og virkt samtal á milli kristinnar hugmyndafræði og þess samfélags sem hún er hluti af hverju sinni. Í fyrirlestrunum í þessari málstofu er annars vegar fjallað um þróun kenningarinnar um náungakærleikann og áhrifa frá grísk-rómversku umhverfi kristninnar á þá þróun á árdögum kristinnar trúarhefðar. Hins vegar er til fjallað um þátttöku kirkjunnar og þjóna hennar í umræðunni um kvenfrelsi og brennivín, sem var áberandi hér á landi í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Rúnar Már Þorsteinsson, lektor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild: Kristinn náungakærleikur: Ávöxtur „að ofan“ eða niðurstaða samfélagslegrar samræðu?
  • Hjalti Hugason, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild: Kirkjan og brennivínið. Þátttaka kirkjunnar í þjóðmálaumræðunni í upphafi 20. aldar
  • Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild: Kvennabaráttan og kirkjunnar þjónar um aldamótin 1900

Málstofustjóri: María Ágústsdóttir, doktorsnemi við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Útdrættir:

Rúnar M. Þorsteinsson, lektor í nýjatestamentisfræðum: Kristinn náungakærleikur: Ávöxtur „að ofan“ eða niðurstaða samfélagslegrar samræðu?

Oft hefur því verið haldið fram, m.a. af félagsfræðinginum Rodney Stark, að kenningin um kristinn náungakærleika (og kristið siðferði almennt) hafi verið alger nýjung í fornöld og meira og minna óháð umræðu samtímans í Rómaveldi; m.ö.o að kenning þessi hafi nánast dottið af himnum ofan. Í þessu erindi verða hliðstæðar hugmyndir og kenningar í Rómaveldi á fyrstu öld skoðaðar og á grundvelli þeirra verður ofannefndri skoðun andmælt. Gegn henni verður því ennfremur haldið fram að kristin kenning um náungakærleika hafi myndast og mótast í samræðu við grísk-rómversk samfélög samtímans.

Hjalti Hugason, prófessor: Kirkjan og brennivínið: Þátttaka kirkjunnar í þjóðmálaumræðunni í upphafi 20. aldar

Bann við aðflutningi og sölu á áfengi voru eitt heitasta deilumálið á Íslandi á tveimur fyrstu áratugum 20. aldar auk sambandsmálsins sem fjallaði um réttarstöðu Íslands gagnvart Danmörku. Samhliða alþingiskosningum 1908 sem annars snerust einkum um „uppkastið“ var kosið um hvort innleiða skyldi áfengisbann eða ekki og greiddu um 60% atkvæði með banni. Gekk það að hluta til í gildi 1912 (aðflutningur) og að fullu 1915 (sala). Voru kosningarnar merkur áfangi í lýðræðisþróun á landinu.

Í aðdraganda kosninganna tókust mörg mismunandi sjónarmið á: Var um einkamál eða opinbert mál að ræða? Gerði Alþingi rétt í að setja lög á þessu sviði? Fælu slík lög í sér mannréttindabrot? Kæmu slík lög til með að skaða verslunarhagsmuni þjóðarinnar? Þá bentu margir á að áfengisneysla væri samfélagslegt vandamál á landinu og enn aðrir nálguðust málið út frá siðferðilegum og uppeldislegum sjónarhornum.

Þótt atkvæðagreiðsla hefði farið fram og lög verið sett héldu deilurnar áfram og margir vonuðu að konungur mundi höggva á hnútinn með mannréttindi og verslunarhagsmuni að leiðarljósi. Áður en hann hafði staðfest lögin hafði sóknarprestur austur í Flóa vakið athygli landsmálablaðsins Ingólfs í Reykjavík fyrir ummæli sem hann lét falla við kirkjulega athöfn. Spannst af þessu athyglisverð umræða milli blaðsins (einkum Gunnars Egilsonar ritstj.) og Þórhalls Bjarnarsonar biskups um málfrelsi presta í og utan kirkju.

Í erindinu verður gerð grein fyrir þessum deilum og bent á hvernig enn má nota margháttuð rök sem þar voru færð fram með eða á móti þátttöku þjóðkirkjunnar og talsmanna hennar í pólitískri umræðu. 

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor: Kvennabaráttan og kirkjunnar þjónar um aldamótin 1900

Vígðir þjónar kirkjunnar létu sig varða um baráttu kvenna fyrir bættum réttindum, ekki síst kosningarétti, sem var í algleymingi um aldamótin 1900. Einhverjir beittu sér gegn þessari réttindabaráttu á meðan aðrir gerðust ötulir talsmenn hennar. Á meðal þeirra sem lögðu sitt lóð á vogarskálina til stuðnings konunum var sr. Ólafur Ólafsson (1855-1937), sem oftast er kenndur við Fríkirkjuna í Reykjavík. Árið 1891 hélt Ólafur opinberan fyrirlestur sem síðar var gefinn út á prenti. Yfirskrift fyrirlestursins var „Olnbogabarnið. Um frelsi, menntun og rjettindi kvenna.“ Í þessum fyrirlestri verður fjallað um fyrirlestur Ólafs sem og frumvarp sem hann flutti á Alþingi ásamt Skúla Thoroddsen um aukin réttindi kvenna. Frumvarpið fékk ekki stuðning en mun hafa verið fyrsta frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi um konur og réttindi þeirra í íslensku samfélagi. 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is