Kristur og félagslegt réttlæti: Guðfræðiþrenning femínista les í krossinn

Föstudagur 25. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskólans.

Á kristin guðfræði að helga sig eilífðarvist annars heims handan mannlegra stofnana? Tengist líf og dauði smiðssonarins frá Nasaret baráttu fyrir jafnrétti kynjanna, umhverfismálum, baráttu fyrir lýðræðislegum umbótum og fleiri mannréttindamálum með einhverjum hætti, eða er slík umræða á villigötum tískustrauma? Er kristsfræði pólitísk eða einkamál milli tilbiðjandans og hins krossfesta? Eiga Kristur og félagslegt réttlæti eitthvað sameiginlegt og þá hvað?

Þrír doktorar í guðfræði og áhugamenn um kristni og kvennabaráttu: Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor, Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur og stundakennari, og Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent, feta furðuvegi krossins á Hugvísindaþingi á lönguföstu.

Málstofustjóri: Ingibjörg María Gísladóttir, doktorsnemi í guðfræði

 

Fyrirlesarar:

  • Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í samstæðilegri guðfræði með áherslu á kvennaguðfræði: Að rísa upp gegn óréttlætinu: Imitatio Christi og ofbeldislaust andóf
  • Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur og stundakennari: Græna tréð: Náttúruníðsla og kristsfræði
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði: Hlutverk trúarlegra röksemda í opinberri orðræðu

 

Útdrættir:

 

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í samstæðilegri guðfræði með áherslu á kvennaguðfræði
Að rísa upp gegn óréttlætinu: Imitatio Christi og ofbeldislaust andóf

Að feta í fótspor Krists (Imitatio Christi) hefur frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki í kristinni trú. Í fyrirlestrinum verður fjallað um merkingu Imitatio Christi í aðstæðum sem einkennast af óréttlæti og ofbeldi. Á meðan sumir hafa bent á skilyrðislausa kröfu Krists um að bjóða „hina kinnina“ hafa aðrir haldið fram nauðsyn þess að stöðva framgang ranglætisins. Sömuleiðis hafa verið deildar meiningar um hvort það sé undir einhverjum kringumstæðum réttlætanlegt að hvetja fólk til að leggja líf sitt að veði í baráttunni fyrir réttlætinu. Notuð verða dæmi um hópa sem beitt hafa ofbeldislausu andófi, m.a. þau sem börðust gegn kynþáttafordómum í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar og mæðurnar sem söfnuðust saman á Plaza de Mayo í Buenos Aires í kringum 1980 til þess að mótmæla hvarfi barna sinna.

 

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur og stundakennari
Græna tréð: Náttúruníðsla og kristsfræði

Í grein sinni „Timburhús“ frá 1993 ræðir vistfemínistinn Stephanie Kaza um tvöfalda krossfestingu Jesú og hins höggna trés sem bar hann uppi á Hauskúpuhæð. Fyrir Kaza táknar tréð jarðtengingu Jesú og jafnframt tengsl við umhverfisvá nútímans. Vistfemínistinn Mary Daly gagnrýndi forðum kristsfræði fyrir „kristgoðadýrkun“ (Christolatry) og taldi að dauðaþrá slíkrar dýrkunar leiddi til kúgunar kvenna og níðslu alls lífs. Í fyrirlestrinum er því haldið fram að myndir eins og sú sem Kaza dregur upp af hinum græna krossi geti skapað mótvægi við nekrófílískar hneigðir kristinnar guðfræði og vakið upp trúarlegt myndmál sem nýst getur til umhverfisbaráttu. Í kristinni hefð er Kristur krossfestur stundum táknaður sem grænt tré, t.d. hjá Hallgrími og Bónaventúra. Verður þessarar lífrænu krosshefðar vitjað í fyrirlestrinum og mat lagt á græna gagnsemi hennar.

 

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði
Hlutverk trúarlegra röksemda í opinberri orðræðu

Hvaða hlutverki eiga trúarleg rök að gegna í opinberri orðræðu í samfélaginu – er yfirleitt mögulegt að tefla fram trúarlegum rökum í samfélagslegum málefnum sem varða alla, óháð trúarskoðunum þeirra? Í erindi mínu leitast ég við að svara þessum spurningum með því að a) vísa til nýlegrar orðræðu í íslensku samfélagi sem átti sér stað kringum lögleiðingu einna hjúskaparlaga fyrir um ári síðar og b) með því að vísa til heimspekilegra/siðfræðilegra og guðfræðilegra hugmynda Jürgens Habermas, Jeffreys Stout og Pamelu Dickey Young.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is