Krísumálstofan

Laugardagurinn 14. mars kl. 13.00-14.30.

Kreppur og lægðir eru okkar vanabundna umhverfi. Túlípanablaðran sem sprakk á sautjándu öld var efnahagskreppa þeirrar aldar. Nú ríða viðlíka hrun, krísur og kreppur yfir efnahagslífið á tíu ára fresti. Fyrir röskum tíu árum sagði Bandaríkjaforseti hugtaki stríð á hendur og síðan hafa Bandaríkin – og í raun heimurinn allur – lifað það sem Agamben nefnir „hina viðvarandi undantekningu“, það að undantekningin sem gerð er frá lögum réttarfarsríkisins á krepputímum sé orðið viðvarandi ástand. Í þessari málstofu verður lagt út af hinni viðvarandi kreppu, fyrst með tveimur erindum um krísu kynjasamskipta og kvenleikans, og svo með erindi um hvernig kynja má hina stóru krísu samtímans, loftslagsvána.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Alda Björk Valdimarsdóttir, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Konur í krísu: Jane Austen og sjálfshjálparmenning samtíðarinnar
  • Björn Þór Vilhjálmsson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Kata í krísu: Steinar Bragi og karlar sem hata konur
  • Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Endalokafyrirlesturinn: Um síðustu krísuna …

Málstofustjóri: Kjartan Már Ómarsson, stundakennari í kvikmyndafræði

Útdrættir:

Alda Björk Valdimarsdóttir, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Konur í krísu: Jane Austen og sjálfshjálparmenning samtíðarinnar

Einhleypa nútímakonan sem á vandræðum með að finna sér mann getur leitað í ýmsar sjálfshjálparbækur og fengið ráð um það hvernig hún eigi að hegða sér á stefnumótamarkaðinum. Sjálfshjálparbækur sem leita í smiðju skáldkonunnar Jane Austen hafa flætt yfir markaðinn á undanförnum árum. Þessar bækur eru skrifaðar inn í sjálfsögunarmenningu nútímans og taka á ýmsum aðkallandi vanda nútímakvenna. Þetta sést hvað skýrast í þeim bókum sem beinlínis eru markaðssettar sem sjálfshjálpar- eða stefnumótabækur, til dæmis í Dear Jane Austen eftir Patrice Hannon og Jane Austen’s Guide to Dating eftir Lauren Henderson. 

Björn Þór Vilhjálmsson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði: Kata í krísu: Steinar Bragi og karlar sem hata konur

Í erindinu verður fjallað um skáldsöguna Kötu eftir Steinar Braga og umfjöllun hennar um krísuna sem felst í því að kynferðisofbeldi gegn konum viðgangist um heim allan. Annars vegar verður umræðan um verkið greind og sett í samhengi við tískustrauma, ríkjandi fagurfræði og meginstraum bókamenningarinnar nú um stundir. Hins vegar verður gáð að því hvort og þá hvernig innra samhengi verksins tekur undir ákall um alþjóðleg herská neðanjarðarsamtök gegn kynferðisofbeldismönnum. 

Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Endalokafyrirlesturinn: Um síðustu krísuna …

Hvaða leiðir höfum við til þess að ræða yfirvofandi vistkrísu? Hvaða aðferð hentar best til þess að lýsa heimi sem er nánast óhugsandi? Eru bókmenntirnar hugsanlega hentugri leið til þess að draga upp mynd af veruleika án okkar, veruleika sem rifinn hefur verið úr mannlegu samhengi, heldur en t.d. vísindin og heimspekin? Á þessu og ýmsu öðru verður tæpt í endalokafyrirlestrinum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is