Kvæðabók séra Ólafs Jónssonar á Söndum – greining, dreifing, samhengi

Laugardagurinn 14. mars kl. 13.00-16.30, með kaffihléi.

Séra Ólafur Jónsson á Söndum í Dýrafirði (um 1560-1627) var eitt merkasta og vinsælasta skáld 17. aldar og verk hans fóru víða í handritum allt framundir aldamótin 1800. Síðan hefur verið hljótt um kvæði hans, en á síðustu árum hefur hópur bókmenntafræðinga og tónlistarfræðinga skoðað kvæðabók hans og ólíkar uppskriftir hennar, sem eru hátt á þriðja tug. Kvæðabók Ólafs er óvenjuleg fyrir þær sakir að henni fylgja nótur við 53 lög og er talið að skáldið hafi jafnvel samið einhver þeirra sjálft. 

Á málstofunni verða kynntar helstu niðurstöður rannsóknarinnar og ýmsar hliðar reifaðar á skáldskap Ólafs, tónlistinni við kvæði hans, uppruna og útbreiðslu handritanna, auk þess sem fjallað verður um þá heimsmynd sem birtist í verkum skáldsins.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Margrét Eggertsdóttir, rannsóknaprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: „Bókin Edda og Biblían“. Viðhorf til kveðskapar á dögum sr. Ólafs Jónssonar á Söndum
  • Árni Heimir Ingólfsson gestaprófessor, Listaháskóla Íslands: Lögin við kvæði sr. Ólafs Jónssonar á Söndum
  • Johnny Lindholm doktorsnemi, Kaupmannahafnarháskóla: „Að ljósið Jesús oss búi í hjarta“. Um kvæðabók Ólafs Jónssonar og varðveislu hennar

​Kaffihlé

  • Þórunn Sigurðardóttir, doktor í bókmenntafræði, sjálfstætt starfandi: „Gagnleg kvæðin gjöri eg yrkja“. Um kvæði séra Ólafs Jónssonar á Söndum
  • Ingibjörg Eyþórsdóttirtónlistar- og íslenskufræðingur: „Hýr gleður hug minn hásumartíð“. Heimsmynd Ólafs Jónssonar á Söndum
  • Guðrún Laufey Guðmundsdóttir verkefnisstjóri, Stofnun Árna Magnússonar: Tvö vinsæl skáld frá 16. öld og sérstaða þeirra

Málstofustjóri: Árni Heimir Ingólfsson gestaprófessor

Útdrættir:

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknaprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: „Bókin Edda og Biblían“. Viðhorf til kveðskapar á dögum sr. Ólafs Jónssonar á Söndum

Í erindinu verður fjallað um viðhorf til kveðskapar á 16. öld þegar hinn nýi lútherski siður var tekinn upp og festist í sessi. Sr. Ólafur Jónsson á Söndum tekur fram að hann forðist flókið og torskilið skáldskaparmál sem byggt er á heiðnum goðsögum enda vilji hann að alþýðufólk og börn skilji sálma hans og kvæði. Ólafur tekur fram að bókin Edda og Biblían hafi ekki sömu stöðu eða eigi jafnvel ekki saman. Á dögum Ólafs naut Snorra-Edda mikillar virðingar, hún var til í fjölda uppskrifta og talin mikilvæg skáldum sem fyrirmynd. Sr. Magnús Ólafsson (c. 1573–1636) skáld, fræðimaður og prestur í Laufási skrifaði Eddu upp í nýrri gerð til þess að hún yrði skáldum aðgengilegri og auðveldari í notkun. Sjálfur notaði Magnús kenningar og heiti óspart í kveðskap sínum. Í erindinu velti ég fyrir mér mismunandi stöðu sr. Ólafs og sr. Magnúsar í bókmennta- og menningarsögu landsins, m.a. í ljósi þess kveðskapur Magnúsar var prentaður meðan hann var á lífi en sálmar og kvæði Ólafs á Söndum komust ekki á prent fyrr en löngu seinna.

Árni Heimir Ingólfsson gestaprófessor, Listaháskóla Íslands: Lögin við kvæði sr. Ólafs Jónssonar á Söndum

Í hinum ólíku uppskriftum kvæðabókar Ólafs Jónssonar í handritum standa samtals lög við 53 kvæði. Lögin eru af ólíkum toga – flest eru sálmalög en einnig er þar að finna veraldlega söngva – og þau eru eitt stærsta lagasafn 17. aldar á Íslandi sem tengt er einu tilteknu skáldi. Í erindinu verður reifaður uppruni þeirra laga sem vitað er um í eldri heimildum, og fjallað um útbreiðslu þeirra bæði í handritum og prentuðum útgáfum eftir daga Ólafs.

Johnny Lindholm doktorsnemi, Kaupmannahafnarháskóla: „Að ljósið Jesús oss búi í hjarta“. Um kvæðabók Ólafs Jónssonar og varðveislu hennar

Í erindinu verður gefið yfirlit yfir tíu handrit sem varðveita kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum og til að gera tengslin á milli þeirra skýrari eru þau færð inn í 'ættartré'. Því næst verður fjallað ítarlega um tilgang Ólafs með kvæðabókinni sem er að hugga hina kvíðafullu sál – einkum í gegnum Krist, ljós mannanna.

Þórunn Sigurðardóttir, doktor í bókmenntafræði, sjálfstætt starfandi: „Gagnleg kvæðin gjöri eg yrkja“. Um kvæði séra Ólafs Jónssonar á Söndum

Hvert var hlutverk trúarlegra kvæða í samfélagi árnýaldar? Í fyrirlestrinum verður sýnt með dæmum úr kvæðabók sr. Ólafs Jónssonar á Söndum hvernig ýmislegt annað en trúarleg tjáning eða trúarleg viðhorf samtíma skáldsins birtist í einstökum kvæðum. Með því að lesa og túlka kvæðin fáum við innsýn í hversdagslíf þjóðarinnar, armæðu, gleði, sorgir og huggun. Við sjáum mannlífið í öllum sínum fjölbreytileika. Sálmaskáldið gefur okkur þannig snertingu við raunverulegar aðstæður fólks í fjarlægri fortíð.

Ingibjörg Eyþórsdóttirtónlistar- og íslenskufræðingur: „Hýr gleður hug minn hásumartíð“. Heimsmynd Ólafs Jónssonar á Söndum

Hvernig hefur veröldin horft við sr. Ólafi Jónssyni á Söndum? Hvaða mynd hefur hann gert sér af heiminum og sínu næsta umhverfi, hvaða skoðanir og hugmyndir hafa mótað viðhorf hans? Og hvaða leiða er hægt að leita til að finna svör við þessum spurningum?

Í titli fyrirlestrarins er því átt við tvenns konar heimsmynd: annars vegar náttúrufræðilega heimsmynd fólks á 16. öld eins og hún birtist á landakortum og hugmyndum um umhverfið sem búa þeim að baki og hins vegar þá hugmyndalegu sem markast af trúarbrögðum, goðsögum og lífsviðhorfi. Einnig verður velt vöngum yfir því hver staða Ólafs Jónssonar hefur verið innan ríkustu fjölskyldu Vestfjarða – en hann var barnungur tekinn í fóstur af Eggerti Hannessyni lögmanni, ömmubróður sínum sem talinn var ríkasti maður á landinu á sinni tíð og ólst síðan upp hjá Ragnheiði dóttur hans, sem giftist ung Magnúsi prúða Jónssyni, öðrum vestfirskum mektarmanni. Hvernig hefur þetta allt mótað Ólaf og skáldskap hans – og hvað geta vangaveltur um heimsmynd lærdómsaldar, sagt okkur um manninn á bak við skáldskapinn?

Guðrún Laufey Guðmundsdóttir verkefnisstjóri, Stofnun Árna Magnússonar: Tvö vinsæl skáld frá 16. öld og sérstaða þeirra

Skáldin séra Ólafur Jónsson á Söndum f. 1560 og samtímamaður hans, séra Oddur Oddsson á Reynivöllum f. 1565 hafa allnokkra sérstöðu meðal sálmaskálda fyrri alda. Báðir voru þeir afkastamiklir og eftir þá hefur varðveist fjöldi sálma með nótum í 17. og 18. aldar handritum. Lítið er vitað um upptök flestra þessara laga við sálmana og í einhverjum heimildum er skáldunum sjálfum eignuð lögin. Sá mikli fjöldi sálma þeirra og kvæða sem varðveist hafa við lög í handritum og ekki síst að um uppruna þessara laga er svo fátt vitað, skipar þeim Ólafi og Oddi á sérstakan stall og gerir framlag þeirra til íslenskrar menningar- og tónlistarsögu ómetanlegt. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is