Kvennakrans: Kvæði, sálmar og ljóð eftir konur og handa konum

Laugardagur 10. mars kl. 10-12
Stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Í þessari málstofu verður fjallað um kveðskap eftir konur og kveðskap ætlaðan konum frá ýmsum sjónarhornum. Frá fyrstu árum eftir siðbreytingu er varðveittur sálmur eftir samstarfskonu Lúthers, Elisabetu Cruciger. Arnfríður Guðmundsdóttir mun fjalla um Elisabetu og sálminn „Herr Christ, der einig Gottes Sohn“ sem prentaður var í fyrstu sálmabókunum sem gefnar voru út í upphafi siðbótarinnar og þýddur á íslensku, upphaflega af Marteini Einarsyni biskupi, og hafður fremstur í Grallaranum sem kom út árið 1589. Þórunn Sigurðardóttir fjallar um nokkur harmljóð frá 17. öld sem ort voru annaðhvort af konum eða í orðastað þeirra þeim til huggunar við fráfall náinna ættingja. Margrét Eggertsdóttir fjallar um sálma sem eingöngu varðveittust í handritum, t.d. sumarkomusálma og heillaóskasálma sem ortir voru sérstaklega handa ungum konum úr efri stétt. Guðrún Ingólfsdóttir ætlar að fjalla um ákveðið handrit sem geymir trúarlegan kveðskap ætlaður að hugga konu í raunum hennar. Bergljót S. Kristjánsdóttir ræðir um fáein ljóð Guðrúnar Hannesdóttur (f. 1944). Ljóðin eru úr bókunum Fléttur 2007 og Staðir 2010. Fjallað verður um einkenni þeirra ýmis; tengsl þeirra við aðra texta, jafnt trúarlega sem þjóðsögur – og hvernig þau orka á lesanda. Þótt lengi vel hafi lítið verið prentað af kveðskap kvenna er talsvert efni eftir konur og ætlað konum varðveitt í handritum. Á málstofunni verður kastljósi beint að kveðskap kvenna, á hvaða vettvangi hann varðveittist og birtist og hvernig hann endurspeglar líf kvenna.

 

Fyrirlesarar:

  • Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði: Yrkja konur sálma? Um sálmakveðskap kvenna frá siðaskiptum
  • Þórunn Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar: „Tak þú burt mitt sorgarstríð“. Syrgjandi konur á 17. öld
  • Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar: „Margrétar sögu eiga á / mín auðar ná“. Um nokkur handrit skrifuð handa konum
  • Guðrún Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur og gestafræðimaður hjá Stofnun Árna Magnússonar: „Heim til móður brjóstanna“. Mæðralag Sigríðar Stefánsdóttur á Espihóli og Jesú Krists
  • Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum: „í landslagi allra lófa“. Um fáein ljóð Guðrúnar Hannesdóttur

Málstofustjóri: Erla Hulda Halldórsdóttir, sagnfræðingur

Útdrættir:

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði 
Yrkja konur sálma? Um sálmakveðskap kvenna frá siðaskiptum

Sálmakveðskapur er bókmenntagrein sem varð til við siðaskiptin. Á meðal frumkvöðla á sviði sálmakveðskapar er Elizabeth Cruciger (1500–1535) sem orti fyrsta sálminn sem þekktur er í evangelísk-lútherskri trúarhefð. Oft var sálmurinn eignaður karli og aðeins nýlega hefur hinn rétti höfundur hlotið almenna viðurkenningu. Sálmur Cruciger var prentaður í fyrstu sálmabókunum sem gefnar voru út í upphafi siðbótar og var upphafssálmur í Grallaranum sem fyrst kom út árið 1589.    

Sálmur eftir íslenska konu kom fyrst inn í íslenska sálmabók árið 1772. Í útgáfu sálmabókar íslensku kirkjunnar frá 1997, eiga átta konur alls þrettán af rúmlega 700 sálmum. Fjölgun sálma eftir konur í íslenskum sálmabókum hefur því verið afar hæg og í hópi kvensálmaskálda hefur ekki orðið endurnýjun að nokkru marki. Þessvegna er ástæða til að spyrja hvort að fjöldi sálma eftir konur á prenti endurspegli virkni kvenna á þessum vettvangi eða hvort eitthvað annað hafi hugsanlega ráðið því að sálmar kvenna hafa ekki ratað inn í sálmabækur kirkjunnar í meira mæli en raun ber vitni.

 

Þórunn Sigurðardóttir, bókmenntafræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar
„Tak þú burt mitt sorgarstríð“. Syrgjandi konur á 17. öld
                                                                                     

Heimildir um sorg og sorgarviðbrögð á Íslandi á 17. öld er ekki víða að finna, en líklega helst í kveðskap sem ætlaður var til huggunar þeim sem um sárt áttu að binda. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að tveimur kvæðum þar sem ljóðmælandi ræðir um sorg sína og missi. Ljóðmælandinn er í báðum kvæðunum kona og líkindi eru til þess að kvæðin séu ort af þeim sjálfum. Annað kvæðið fjallar um sonarmissi en hitt um makamissi. Í kvæðunum má sjá hvernig ljóðformið er notað til þess að fá útrás fyrir sorg vegna ástvinamissis.

 

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar
„Margrétar sögu eiga á / mín auðar ná“. Um nokkur handrit skrifuð handa konum

Bækur og handrit í eigu kvenna og handrit sem skrifuð voru sérstaklega handa konum er lítt rannsakað viðfangsefni en áhugavert vegna þess að gera má ráð fyrir að innihaldið sé að einhverju leyti klæðskerasniðið fyrir eigandann og geti því veitt upplýsingar um hvað konur vildu eða töldu sig helst eiga og þurfa að hafa um hönd. Ætla má að efnið geti veitt upplýsingar um hvers konar bókmenntir höfðuðu til kvenna, hvað þær lásu og/eða sungu. Í erindinu verður fjallað um handrit að Margrétar sögu sem skrifað var á síðari hluta 18. aldar og nokkur handrit sem geyma sálma og kvæði, sum sérstaklega ort handa eigendum þeirra.

 

Guðrún Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur og gestafræðimaður hjá Stofnun Árna Magnússonar
„Heim til móður brjóstanna“. Mæðralag Sigríðar Stefánsdóttur á Espihóli og Jesú Krists

Fáar ítarlegar rannsóknir eru til á sálmahandritum í eigu kvenna. Þó hefur verið bent á að ólíkt opinberum sálmabókum fjalli sálmarnir í slíkum handritum fremur um daglegt líf kvenna og lýsi reynsluheimi þeirra. Í fyrirlestrinum verður kafað ofan í ÍB 665 8vo, handrit Sigríðar Stefánsdóttur (1734‒1818) á Espihóli, og reynt að varpa ljósi á ævi hennar og heimsmynd.

 

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum
„í landslagi allra lófa“. Um fáein ljóð Guðrúnar Hannesdóttur

Rætt verður um fáein ljóð Guðrúnar Hannesdóttur úr bókum hennar Fléttur(2007) og Staðir (2010). Fjallað verður um ýmis einkenni ljóðanna og áhrif þeirra á lesanda.  Augum verður þá m.a. beint að manninum sem líkamsveru og vikið að einstaklingsvitund, tilfinningum, samúð, samlíðan og draumum svo ekki sé minnst á hlátur.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is