Landnámið í skarpari upplausn

 

Nýjar aðferðir við greiningu og tímasetningu fornleifa eru á skömmum tíma að gerbreyta þeirri mynd sem við höfum haft af landnámi Íslands.  Í málstofunni verður sjónum beint að nýjum spurningum um samfélag landnámsaldar sem hafa vaknað á undanförnum árum á grundvelli bættra uppgraftaraðferða, nákvæmari og fjölbreytilegri greininga af ýmsu tagi og breyttra viðhorfa til fornleifafræðilegrar túlkunar.

Málstofustjóri: Orri Vésteinsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 15.15-16.45 (stofa 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Albína Hulda Pálsdóttir og Jón Hallsteinn Hallsson, dýrabeinafornleifafræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands og erfðafræðingur og dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands: Landnámshænan - Er góð saga gögnum betri?
  • Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur á Fornleifastofnun Íslands og stundakennari: Að rjúfa kuml. Kumlateigurinn í Hrífunesi í stærra samhengi
  • Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði: Kynslóðin sem hvarf: Hvar eru landnámsmennirnir og börnin þeirra?
​Útdrættir:

Albína Hulda Pálsdóttir og Jón Hallsteinn Hallsson, dýrabeinafornleifafræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands og erfðafræðingur og dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands: Landnámshænan - Er góð saga gögnum betri?

Fjallað verður um íslensku landnámshænuna og leitast við að varpa ljósi á uppruna þessa áhugaverða stofns. Farið verður yfir erfða-, sagn- og fornleifafræðileg gögn sem varpað geta ljósi á uppruna og þróun stofnsins og lagt mat á hversu líklegt megi telja að um landnámsstofn sé að ræða. Þegar vel er að gáð reynist saga stofnsins flóknari en einföldustu upprunasögur gera ráð fyrir og í raun verður að teljast ósennilegt, byggt á fyrirliggjandi gögnum, að hér sé um að ræða hreinan landnámsstofn. Sérstaklega verður litið til þess hvernig markaðssetning hænsnastofnsins og skrif ræktenda og annars áhugafólks hafa haft áhrif á þekkingu almennings á íslenskum hænsnum og hvernig þessar upplýsingar hafa á endanum skilað sér í ritrýndar fræðigreinar, sem aftur eru notaðar til styrkingar á hugmyndinni um hinn hreina og ómengaða landnámsstofn. Íslenska landnámshænan þjónar því sem skemmtilegt dæmi um hvernig markaðsetning og ófullnægjandi heimildanotkun fræðimanna geta í sameiningu myndað vítahring sem viðhaldið getur upprunagoðsögn í beinni mótstöðu við fyrirliggjandi gögn.

Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur á Fornleifastofnun Íslands og stundakennari: Að rjúfa kuml. Kumlateigurinn í Hrífunesi í stærra samhengi

Sumarið 2011 voru grafin upp tvö kuml á kumlateignum í Hrífunesi í Skaftártungu sem komið höfðu í ljós vegna rofs af völdum Hólmsár. Rannsóknarsaga kumlateigsins er áratugalöng, en á árunum 1958-1982 voru grafin upp fimm kuml á staðnum í kjölfar þess að þau komu í ljós í brotbakka árinnar.

Vegna þess hve þétt gjóskulög eru á svæðinu, þá eru Hrífuneskumlin best aldursgreindu kuml sem grafin hafa verið upp á Íslandi, en hægt er að tímasetja þau á 60 ára tímabili á 9.-10. öld. Vegna þessa þá eru kumlin mikilvægur lykill í túlkun okkar og skilningi á greftrunarhefðum til forna. Í þessu erindi verður sagt frá rannsókninni í Hrífunesi í stuttu máli, og niðurstöður úr henni settar í víðara samhengi kumlarannsókna síðustu ára.

Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði: Kynslóðin sem hvarf: Hvar eru landnámsmennirnir og börnin þeirra?

Síaukin nákvæmni í tímasetningum veldur því að hægt er að greina mun skýrar en áður þróun og breytingar í íslensku samfélagi á víkingaöld. Hús sem áður voru hiklaust kölluð „landnámsskálar“ og kuml sem áður voru kennd við landnámsmenn reynast iðulega vera frá því á seinni hluta 10. aldar – tveimur til fjórum kynslóðum eftir að landnám sannanlega hófst á seinni hluta 9. aldar. Í Mývatnssveit er fjöldi staða með staðfesta mannvist frá því milli 870 og 940 en frá því tímabili eru hinsvegar engir skálar og engar grafir sem ótvírætt eru svo gamlar. Yfirgnæfandi meirihluti íslenskra kumla sem hægt er að tímasetja á annað borð er frá miðri 10. öld eða síðar. Þessi munstur koma á óvart og vekja upp spurningar, bæði um varðveisluskilyrði og rannsóknaraferðir, en líka um hverslags breytingar þau gætu endurspeglað.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is