Liðin tíð

Laugardagur 10. mars kl. 10-12
Stofa 222 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Titill málstofunnar vísar til þess að efni hennar verður sögulegt. Margt er enn ókannað í sögu íslensks máls og mikilvægt að þeim þætti verði meiri gaumur gefinn.

Fyrirlesarar:

  • Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri orðfræðisviðs hjá Stofnun Árna Magnússonar: 18. aldar orðabók og málsagan
  • Jón Axel Harðarson, prófessor í málfræði: Núliðin tíð og hugmyndir Jóns Magnússonar og annarra málfræðinga um tíðir í íslenzku
  • Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku: Skiptar skoðanir um sjá
  • Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku: fjölgast, fækkast og önnur horfinst-form

Málstofustjóri: Gunnlaugur Ingólfsson, rannsóknardósent á Stofnun Árna Magnússonar  

Útdrættir:

Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri orðfræðisviðs hjá Stofnun Árna Magnússonar
18. aldar orðabók og málsagan

Árið 1738 gaf Jón biskup Árnason út latnesk-íslenska orðabók, Nucleus latinitatis, sem hann þýddi úr dönsku. Í bókinni er fjöldi flettna en einnig sýndur aragrúi latneskra notkunardæma sem öll eru þýdd. Íslenskur orðaforði er því töluverður í bókinni, bæði stök orð í ýmsum föllum og heilar setningar. Í fyrirlestrinum verður rætt um að hvaða leyti texti af þessu tagi getur lagt rannsóknum í málsögu lið og bætt við heimildir um málið á 18. öld. Dæmi verða sýnd um beygingu nafnorða og þau borin að málfræði Jóns Magnússonar frá fyrri hluta 18. aldar og doktorsritgerð Jóhannesar Bjarna Sigtryggssonar um málið á ævisögu séra Jóns Steingrímssonar sem hann varði 2011. 

 

Jón Axel Harðarson, prófessor í málfræði
Núliðin tíð og hugmyndir Jóns Magnússonar og annarra málfræðinga um tíðir í íslenzku

Bæði norður- og vesturgermönsk mál hafa núliðna tíð sem sérstaka formgerð sagna. Þó er hér ekki um frumgermanska arfleifð að ræða. Þetta sjáum við m.a. á því að gotneska, höfuðfulltrúi austurgermönsku, þekkir hana ekki. Í stað núliðinnar tíðar notar gotneska einfalda (ósamsetta) þátíð. Í norður- og vesturgermönsku er núliðin tíð sem sé nýmyndun. Í fyrirlestrinum verður fyrst rætt um uppruna og þróun núliðinnar tíðar í norrænu. Síðan verður vikið að stöðu núliðinnar tíðar í íslenzku. Þar verður m.a. gerð grein fyrir athyglisverðum hugmyndum Jóns Magnússonar (1662–1738) um tíðir í íslenzku. Andstætt eldri og ýmsum yngri málfræðingum leit Jón svo á að tíðir væru aðeins tvær í íslenzku, nútíð og þátíð. Hinar svokölluðu samsettu tíðir greindi hann ekki sem eiginlegar tíðir heldur sem orðasambönd er þjóni innri aðgreiningu tímastiga.

 

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku
Skiptar skoðanir um sjá

Forsaga ábendingarfornafnsins sjá er flókin og beyging orðsins í fornu máli er sérstök. Sú beyging hefur tekið allnokkrum breytingum. Helstu breytingar eru þær að myndin þessi tók við af sjá og myndir með einkvæðum stofni í þgf.kvk.et., ef.kvk.et. og ef.ft. (þessiþessarþessa) viku fyrir myndum með tvíkvæðum stofni (þessar(r)iþessar(r)arþessar(r)a). Á síðustu árum hefur talsvert verið fjallað um þessa beygingarþróun (Katrín Axelsdóttir 2003, de Leeuw van Weenen 2007, Kjeldsen 2010). Í fyrirlestrinum verður ýmislegt í henni rætt og sjónum helst beint að þeim atriðum sem skiptar skoðanir hafa verið um.

 

Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku
fjölgast, fækkast og önnur horfin st-form 

Í elsta máli eru fjölmörg dæmi um st-form af sögnunum fjölga og fækka, þ.e.fjölgast og fækkast. Smám saman líður þessi notkun undir lok og í ritmálssafni Orðabókarinnar eru dæmi sem þessi fá. En dæmi um notkunina má t.d. sjá í eftirfarandi setningu frá seinni hluta 18 aldar:

Hvernig getur fólk í bændastandinu fjölgast?

En það eru fleiri sagnir sem höguðu sér á sama hátt, t.d. minnask og hækkast. Í fyrirlestrinum verður hegðun þessara sagna skoðuð nánar og jafnframt athugað hvað það var sem kom í staðinn og þá hvers vegna. 

 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is