Lifandi menningararfur: Birtingarmyndir og hagnýting í samtímanum

Laugardagur 10. mars kl. 10-12
Stofa 225 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Í málstofunni verður fjallað um hvernig menningararfur hefur verið hagnýttur með mismunandi hætti til að skapa og viðhalda tengslum við einhverja tiltekna fortíð. Á grunni dæma úr ólíkum áttum verður fjallað um nokkrar birtingarmyndir slíkrar notkunar í íslensku samfélagi og spáð í markmið og tilgang menningarmiðlunar af þessu tagi meðal annars með tilliti til fræðslu- og skemmtigildis, atvinnuþróunar og mótun sjálfsmyndar.

Fyrirlesarar:

  • Eggert Þór Bernharðsson, prófessor í hagnýtri menningarmiðlun: Lifandi miðlun á sögusýningum
  • Ólafur Rastrick stundakennari í sagnfræði: Hagnýting fortíðar við hönnun mannlegs umhverfis
  • Guðbrandur Benediktsson, deildarstjóri miðlunardeildar hjá Minjasafni Reykjavíkur: Lifandi miðlun á útisöfnum
  • Ingibjörg Þórisdóttir, kennslustjóri og stundakennari: Menningararfur og leikhús

 Málstofustjóri: Eggert Þór Bernharðsson prófessor

Útdrættir:

Eggert Þór Bernharðsson, prófessor í hagnýtri menningarmiðlun
Lifandi miðlun á sögusýningum

Í erindinu verður rætt um sögusýningar vítt og breitt um landið og hugað að miðlun sögunnar með sérstakri hliðsjón af fjölþættri miðlun og lifandi framsetningu.

 

Ólafur Rastrick stundakennari í sagnfræði
Hagnýting fortíðar við hönnun mannlegs umhverfis

Í erindinu verður sjónum beint að fáeinum eldri og yngri hugmyndum um hagnýtingu menningararfs við hönnun manngerðs umhverfis og fjallað um þau sjónarmið sem hafa legið slíkri notkun fortíðar í þágu samtíðar (og framtíðar) til grundvallar.

 

Guðbrandur Benediktsson, deildarstjóri miðlunardeildar hjá Minjasafni Reykjavíkur
Lifandi miðlun á útisöfnum

Lifandi miðlun hefur um árabil verið sögð mikilvægur hluti af miðlun á útiminjasöfnum, líkt og kemur m.a. fram í bók Sten Rentzhog, Open Air Museums. En hvernig er sú miðlun helst, hvernig hefur hún þróast  og hver eru markmið safnanna með henni? Fjallað verður um efnið í fræðilegu samhengi, en einnig stuðst við íslensk dæmi.

 

Ingibjörg Þórisdóttir, kennslustjóri og stundakennari
Menningararfur og leikhús

Í erindinu verður hugað að því hvernig menningararfi er miðlað í gegnum leikhús eða sviðslistir en á undanförnum árum hefur síst dregið úr leikhúsverkum sem byggð eru á íslenskum fornsögum. Íslensk leikritun hefur sótt í þessar sögur nánast frá upphafi leiklistar á Íslandi og varpað verður fram ýmsum spurningum þessu tengt, t.a.m. hvað það sé sem vekur áhuga leikhúsfólks á þessum menningararfi, hvernig sögurnar henta sem leikverk og hvernig viðtökurnar eru.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is