Lífssögur, atburðir og ævintýri: Þrenn grein helgisagna á Íslandi

 

Í þessari málstofu verða haldin þrjú erindi um helgisagnir og skyld/afleidd frásagnaform í íslenskri sagnalist 12. til 15. aldar. Gottskálk Jensson, dósent á Árnasafni í Kaupmannahöfn, mun segja frá tilurð, formgerð og inntaki þeirra helgirita á latínu sem Íslendingar frumsömdu hér á 12. öld. Hjalti Snær Ægisson, doktornemi á Miðaldastofu, hugar að þætti jarteina í helgi- og dæmisögum 14. aldar og ber saman fornkristnar píslavottasögur bróður Bergs Sokkasonar og nýju franskættuðu ævintýrin sem Jón biskup Halldórsson flutti með sér til landsins. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, Marie Curie-styrkþegi hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fylgir sögu ævintýranna eftir fram á 15. öld, ensku öldina, og kannar ensk áhrif í kvæðum og frumsömdum riddarasögum; hún hyggst einnig setja ævintýri þýdd úr ensku í samfélagslegt samhengi síðmiðalda og skoða viðhorf til útlendinga, einkum kaupmanna í sögunum.

Málstofustjóri: Gottskálk Jensson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10.30-12.00 (stofa 050 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Gottskálk Jensson, gestaprófessor við Íslensku- og menningardeild og dósent á Árnasafni í Kaupmannahöfn: Latnesk helgisagnaritun 12. aldar á Íslandi
  • Hjalti Snær Ægisson, doktorsnemi á Miðaldastofu: Fáheyrðir atburðir og fögur dæmi. Um jarteinir og ævintýri í sagnabókmenntum 14. aldar
  • Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, Marie Skłodowska-Curie styrkþegi hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Bókmenntir, Ísland og England á 15. öld
Útdrættir:

Gottskálk Jensson, gestaprófessor við Íslensku- og menningardeild og dósent á Árnasafni í Kaupmannahöfn: Latnesk helgisagnaritun 12. aldar á Íslandi

Þegar sagnaritun hófst á Íslandi á 12. öld skrifuðu Íslendingar rit sín jöfnum höndum á latínu og þjóðtungu. Innfluttar bækur og afskriftir þeirra, flestar tengdar kristnihaldi, voru nær allar á helgri tungu Rómakirkju og fyrir kom að leyndust í bókasöfnum landsmanna verk sagnfræðinga og skálda hins forna Rómaríkis. Líklega hafa allir 12. aldar rithöfundar á Íslandi verið vígðir einhverri vígslu. Líkt og Guðrún Ósvífursdóttir nam saltarann fyrst kvenna, að sögn Laxdælu, lærðu drengir að syngja Davíðssálma á latínu, undirstöðu messusöngsins, sem auðveldaði þeim að hefja lestur sömu sálma á bókfelli. Í klaustrinu á Þingeyrum skrifuðu bræðurnir Oddur og Gunnlaugur eins konar helgisögur á latínu um norskan konung, Ólaf Tryggvason, sem þeir vissu af fornum heimildum að kristnað hefði Ísland og eyjarnar í norðri auk Noregs áratugum áður en nafni hans Haraldsson var helgaður í Noregi fyrir það sama. Í aldarlok urðu þau gleðitíðindi fyrir landsmenn að „upp kom“ helgi tveggja íslenskra biskupa. Þá var rituð lífssaga (vita) og jarteinir (miracula) þeirra beggja auk tíðasöngs (officia) fyrir nýja messudaga, allt á latínu. Í erindinu mun ég spjalla um tilurð, formgerð og hugmyndafræði íslenskra latínurita og velta fyrir mér ástæðunum fyrir slæmri varðveislu þeirra.

Hjalti Snær Ægisson, doktorsnemi á Miðaldastofu: Fáheyrðir atburðir og fögur dæmi. Um jarteinir og ævintýri í sagnabókmenntum 14. aldar

Dæmisögur (exempla) fullmótast sem bókmenntagrein innan latneskrar kirkjuhefðar í upphafi 13. aldar. Ýmis eldri form setja þó áfram mark sitt á dæmisögur eftir það og eru jarteinir (miracula) þar á meðal. Í fyrirlestrinum verður rætt um tengsl dæmisagna og jarteina og horft til heimilda sem benda til þess að þessi tengsl séu virk allt frá því í frumkristni. Hugað verður að þeim mismun sem einkennir framsetningarmáta þessara tveggja hefða og rætt um það hvort sá mismunur geti endurspeglað uppruna sagnaefnisins. Loks verður fjallað um um dæmigildi hefðbundinna jarteinafrásagna og sérstaklega horft til tveggja sagna sem eignaðar eru Bergi Sokkasyni: Nikulás sögu II og Mikaels sögu höfuðengils, en sú síðarnefnda er varðveitt er í AM 657 a-b 4to, sama handriti og elsta og stærsta dæmisagnasafnið sem til er í íslenskum miðaldabókmenntum.

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir, Marie Skłodowska-Curie styrkþegi hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Bókmenntir, Ísland og England á 15. öld

Ævintýri (exempla) voru þýdd á Íslandi sennilega úr norsku eða latínu a.m.k. á fyrri hluta 14. aldar en önnur þýðing var gerð úr ensku á 15. öld. Báðar þýðingarnar tengjast líklega biskupssetrum og veru erlendra biskupa á Íslandi en þær höfðu nokkur áhrif á innlendar bókmenntir, bæði þær trúarlegu og veraldlegu. Nýlega hefur nokkuð verið fjallað um ævintýri í tengslum við bókmenntalegar nýjungar og þróun í samfélagslegum viðhorfum á 14. öld en í þessum fyrirlestri mun ég ræða um sambærilegt efni á 15. öld – ensku öldinni, þegar Englendingar sigldu til Íslands og stunduðu gríðarleg viðskipti við íslenska höfðingja. Ég mun fjalla um áhrif ævintýra þýddum úr ensku á riddarasögur sem samdar eru á þeim tíma og spyrja hvort hefðin gangi í gegnum einhvers konar endurnýjun ca. 150 árum eftir að Íslendingar hófu að semja frumsamdar riddarasögur. Einnig mun ég styðjast við handrit þessara sagna sem og bókmenntarannsóknir til að staðsetja þessar frásagnir í víðara samfélagslegt samhengi. Ég mun meðal annars skoða tengsl við ensk bókmenntaáhrif í kveðskap sem og viðhorf sem hægt er að greina til útlendinga og sérstaklega kaupmanna í bókmenntum. Niðurstöður mínar munu vonandi varpa ljósi m.a. á þróun og nýsköpun í bókmenntum á síðmiðöldum og viðhorfi gagnvart erlendum menningaráhrifum og samskipti við útlendinga.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is