Ljós heimsins í myrkri íslenskra sveita á 19. öld

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-14.45.

Í þessari málstofu verður skoðaður sá vettvangur samfélagsins sem má greina á milli tveggja skilgreininga á hugtakinu menning; annars vegar hinar lærðu menningar yfirstéttarinnar og hins vegar hversdagslíf alþýðunnar og þess sem flokkað er sem alþýðumenning. Á milli þessara póla fór fram samræða og flæði sem hafði áhrif á samfélagið langt út fyrir þann ramma sem hefðbundnum rannsóknum hefur verið markaður. Á þessu „gráa svæði“ (e. in-between-spaces) var statt fólk sem fór sínu fram og myndaði ramma utan um hugsun sína og hugmyndir sem smátt og smátt hafði bæði áhrif á hvernig pólarnir tveir þróuðust og samfélagið allt réði ráðum sínum. Áhrifa þeirra hefur lítið verið sinnt í rannsóknum þar til á allra síðustu árum að hópur fræðimanna hefur einbeitt sér að skipulagi hans og gjörðum. Í þessari málstofu verður þetta „gráa svæði“ til umfjöllunar, bæði samvinna fólksins sem tilheyrði hópnum og innri uppbygging.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði: Listi Magnúsar: Nítjándu aldar netverk neftóbakskarla og -kvenna
  • Davíð Ólafsson, aðjunkt í menningarfræði: Sex dagbækur, ein klíka: Vitjað um net skálda og alþýðufræðimanna á Vestfjörðum um aldamótin 1900
  • Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handrita í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og doktorsnemi í sagnfræði: Forsetinn og fótgönguliðarnir

MálstofustjóriSteinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði 

Útdrættir:

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði: Listi Magnúsar: Nítjándu aldar netverk neftóbakskarla og -kvenna

Um aldarmótin 1900 tók Vestfirðingurinn Magnús Hj. Magnússon – skáldið á Þröm – saman lista yfir skáld og fræðimenn, sem hann nefndi við annað tækifæri skáldyrðinga. Um er að ræða lista með rúmlega 200 nöfnum og um 100 þeirra koma frá svæðunum sem hann þekkti vel til á Vestfjörðum. Samsetning hópsins verður rædd og reynt að rýna í hvers vegna þessi hópur komst á lista Magnúsar. Unnið er með ákveðinn kjarna fræðimanna, um það bil fimm til sjö alþýðufræðimenn, og verða þeir tengdir við lista Magnúsar og rætt um þýðingu þessa netverks fyrir starfsemi þeirra.

Davíð Ólafsson, aðjunkt í menningarfræði: Sex dagbækur, ein klíka: Vitjað um net skálda og alþýðufræðimanna á Vestfjörðum um aldamótin 1900

Í erindinu verður fjallað um sex dagbækur sem varðvettar eru í Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni og eru ritaðar af alþýðumönnum á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta hinnar 20. Dagbókaritararnir voru fæddir á árabilinu 1828 og 1878 og hófu allir (með einni undantekningu) að rita dagbækur á tánings- eða tvítugsaldri. Þeir (allt karlar) eiga það sameiginlegt að hafa notið lítillar sem engrar formlegrar menntunar né veraldlegra efna, en helguðu líf sitt engu að síður bókmenntum og bóklegri iðju samhliða búhokri, sjósókn og verkamannavinnu.

Þessar dagbækur eru ekki síst merkilegar fyrir þá sök að ritarar þeirra þekktust og tengdust, ýmist í gegnum frændsemi, vináttu eða sameiginlega ástríðu fyrir skáldskap, sögulegum fróðleik, uppskriftum og bóklestri. Dagbækurnar sjálfar bera gjarnan vitni um netalagnir þeirra á milli og sama má segja um annað ritað efni sem eftir þá liggur, s.s. sendibréf, viðamikil kvæðasöfn, uppskrifaða texta og jafnvel útgáfur á prenti. Velt verður vöngum yfir þeim möguleikum sem felast í því að hafa aðgang að miklu magni ritheimilda frá hópi fólks sem tengdist í gegnum sameiginlegan áhuga á bóklegri iðju. Jafnframt verður rætt hvar sé rétt að skipa slíkum hópi gagnvart tvíhyggjuparinu alþýðumenninglærð menning.

Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handrita í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og doktorsnemi í sagnfræði: Forsetinn og fótgönguliðarnir

Ein helsta ástríða Jóns Sigurðssonar forseta var umfangsmikil söfnun bóka og handrita. Til að afla þeirra kom hann sér upp stóru tengslaneti einstaklinga víða um land, og voru þar í senn þekktir fræðimenn og óþekktir einstaklingar sem söfnuðu og sendu Jóni fornar skruddur og fágæt handrit. Í samræðu þeirra á milli má glöggt sjá sameiginlegan áhuga þeirra á að henda reiður á og varðveita handritaðan menningararf þjóðarinnar. Líta má á bréfaskipti þeirra sem vettvang þar sem skilin milli lærðra og ólærðra voru ekki niðurnjörfuð heldur deildu þessir aðilar áhuga á hvers kyns alþýðufróðleik sem seint eða aldrei komst á prent.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is