Ljós og myrkur sannleikans í kennilegum bókmenntum

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-14.45.

Þessi málstofa skoðar myndmál ljóss og myrkurs í kennilegum bókmenntum, einkum í tengslum við sannleikshugtakið. Ljósið hefur þjónað sem tákn sköpunar og sannleika í heimsbókmenntunum frá alda öðli, að minnsta kosti frá goðsögu Biblíunnar um sköpun heimsins – „Guð sagði: ‚Verði ljós!‘ Og það varð ljós“ (1M1:3) – og fram á tíma „Upplýsingar“. Að sama skapi hefur rökkrið ekki aðeins tengst dauða, falsi, illsku og óreiðu, heldur hafa framsæknir hugsuðir og skáld gert sér í hugarlund að í myrkrinu leyndust fyrir ljósinu ýmis mikilvæg sannindi, t.d. þau sem enn ættu eftir að koma fram eða þau sem gætu valdið skaða, ef þau væru ekki hulin.

Fyrirlesarar málstofunnar, sem eru þrír, hyggjast skoða ljós og myrkur í heimspekilegum bókmenntum Forngrikkja, latneskum tíðasöng um Þorlák helga á íslenskum miðöldum og í Gleðileiknum guðdómlega eftir ítalska skáldið Dante Alighieri.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Eiríkur Smári Sigurðarson rannsóknastjóri: Sannleikurinn býr í myrkrinu
  • Stefano Rosatti aðjunkt: Ljósið í Gleðileiknum guðdómlega
  • Gottskálk Jensson gestaprófessor: Táknmál ljóss og myrkurs í Þorlákstíðum

MálstofustjóriGottskálk Jensson gestaprófessor

Útdrættir:

Eiríkur Smári Sigurðarson rannsóknastjóri: Sannleikurinn býr í myrkrinu

Sannleikurinn er oftast tengdur ljósinu og leið mannsins frá vanþekkingu til þekkingar er iðulega kennd við upplýsingu. Við upphaf sögu vestrænnar heimspeki, þar sem við finnum fyrstu heimspekilegu kenningarnar um eðli sannleikans og hvernig við öðlumst hann, er þó hefð fyrir því að sannleikurinn búi í myrkrinu. Heimspekiljóð Parmenídesar byrjar þannig með frásögn af ferð ungmennis (Parmenídesar) til gyðju sem opinberar honum allan sannleikann um heiminn. Þessi gyðja er að öllum líkindum nóttin sjálf og ferðin sem Parmenídes lýsir er skyld orfískum (og hugsanlega pýþagórískum) vígsluathöfnum. Leiðin til sannleikans er því sama leið og hinir dauðu fara eftir viðskilnað við líkamann. Platon eltir þennan þráð þegar hann segir frá ferðalagi sálarinnar eftir dauðann í Fædoni en líka í Ríkinu þar sem draumlaus svefn er tækifæri til að heimsækja sannleikann. Svefninn og dauðinn búa jú á sama stað.

Í fyrirlestrinum verður spurt um tengsl myrkurs og sannleika í forngrískri heimspeki. Sjónum verður einkum beint að heimspekiljóði Parmenídesar en Platon og Aristóteles koma líka við sögu ásamt Hesíodosi, Aristófanesi, Þúkýdídesi og orfísku gulltöflunum.

Stefano Rosatti aðjunkt: Ljósið í Gleðileiknum guðdómlega

Í upphafi hinna þriggja kviða Dantes birtir skáldið okkur forsmekkinn að því ljósi sem einkennir þær hverja og eina: Hinn dimmi skógur Vítis færir okkur inn í heim myrkurs; sólarupprás safírhiminsins í Hreinsunareldinum gefur okkur sýnishorn af þeim fölleita heimi og mjúku litum sem eru framundan; og sólarljósið í Paradís er forleikur að heimi fylltum birtu og gagnsæi. Hinir fjölbreyttu litatónar og ólíka birta samsvara einnig mismunandi siðferðilegri stemningu í kviðunum þremur. Dante sýnir okkur þessa litatóna af slíkri nákvæmni og samkvæmni í stílbragði að minnir á stórfenglegt málverk. Til að lýsa aðstæðum í Hreinsunareldinum og í Paradís getur hann nýtt sér náttúruleg fyrirbæri jarðlegrar tilvistar, en fyrir Víti stendur hann frammi fyrir því vandamáli að birta okkur heim sem samkvæmt skilgreiningu er „hljóður af öllu ljósi“ (d’ogni luce muto). Án þess að fórna raunsæinu og bregða fyrir sig langsóttum ýkjum, leysir Dante vandamálið með því að láta vítisljósið hafa þrjár aðaluppsprettur: árnar, logana og frosna mýrina. Í fyrirlestrinum er fjallað um fígúratífan möguleika „skuggans“ sem er eitt helsta listbragð Dantes við sköpun Vítis. Auk þess verður komið inn á „myndræna“ framsetningu Gleðileiksins, meðal annars sjónarhorn, með nokkrum tilvísunum í Dante-helgimyndir á miðöldum og hjá húmanistum endurreisnarinnar.

Gottskálk Jensson gestaprófessor: Táknmál ljóss og myrkurs í Þorlákstíðum

Í upphafi Þorlákstíða á latínu stendur að myrkrin, tenebre, flýi á Þorláksmessu og ljósið, lumen, upplýsi með geislum sínum huga trúrækinnar þjóðar sem dansar af fögnuði. Annars staðar í tíðunum er Þorlákur sagður ljós lífsins, iubar vite, sem úthellir ljósi sínu yfir þetta myrka land, terre huic caliginose. Í þessu erindi verður greint frá slíkum dæmum í íslenskum textum um Þorlák helga (d. 1193), þar sem ljósið er táknmynd guðdómlegrar leiðsagnar og innfluttrar upplýsingar frá klausturskólum Parísar en myrkrið þoka vanþekkingar sem umlykur ekki aðeins Ísland á hjara veraldar (í skammdeginu á Þorláksmessu) heldur sjálft Norðrið sem líður fyrir hættulega forneskju sína og trúvillu. Höfð verður hliðsjón af sambærilegum textum um Ólaf helga (d. 1030), helsta dýrlingi Norðmanna. Spurt verður hvort lesa megi inn í notkun hins staðlaða myndmáls Rómakirkju suðræna fordóma gegn möguleikum menningar á norðlægari breiddargráðum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is