Loftslagsbreytingar og íslenskur veruleiki

Föstudagur 9. mars kl. 13-16.30
Stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Þótt loftslagsbreytingar séu hnattrænt vandamál verður í málstofunni fyrst og fremst fjallað um þær í íslensku samhengi. Höskuldur Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson ræða íslenska vefinn loftslag.is sem þeir ritstýra, en hann er helgaður umræðunni um loftslagsmál á Íslandi. Guðni Elísson fjallar um siðferðilegan og pólitískan vanda þess að dæla upp olíu úr íslenska landgrunninu, en Halldór Björnsson varpar fram spurningum um aðlögun Íslendinga í kjölfar loftslagsbreytinga og Þorvarður Árnason talar um loftslagsbreytingar sem nýja tegund af umhverfisvandamáli. Síðast en ekki síst fjallar Hrafnhildur Hannesdóttir um breytingar á jöklum síðustu alda og hvernig megi bera saman veðurgögn (hita og úrkomu) frá upphafi mælinga til þess að stilla af jöklalíkön og spá fyrir um framtíðina.

Fyrirlesarar:

  • Höskuldur Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson, ritstjórar loftslag.is: Loftslag.is - Umræða um loftslagsmál í fortíð, nútíð og framtíð
  • Halldór Björnsson, deildarstjóri rannsókna og þróunar á veðursviði Veðurstofu Íslands: Loftslagsbreytingar og aðlögun að þeim
  • Hrafnhildur Hannesdóttir, doktorsnemi í jarðfræði: Gildi sögulegra heimilda í rannsóknum á jöklabreytingum í Austur-Skaftafellssýslu
  • Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði: Vekjum ekki sofandi dreka: Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu
  • Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði: Hnattrænar loftslagsbreytingar sem umhverfismál

Málstofustjóri: Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands

 

Útdrættir:

Höskuldur Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson, ritstjórar loftslag.is
Loftslag.is - Umræða um loftslagsmál í fortíð, nútíð og framtíð

Leitast verður við að skoða umræðu um loftslagsmál á Íslandi fyrir og eftir tilurð vefsíðunnar loftslag.is. Kynnt verða markmið og tilurð vefsíðunnar loftslag.is. Með loftslag.is er hugmyndin að hvetja til umræðu og umhugsunar um loftslagsmál ásamt því að kynna orsakir, afleiðingar og lausnir varðandi gróðurhúsaáhrif af mannavöldum á vísindalegum grunni. Það eru margar mýtur eða villur í umræðunni á Íslandi sem loftslag.is hefur fjallað um og leiðrétt til samræmis við vísindalega þekkingu. Fjallað verður um hvort og þá hvernig tekist hefur til og hvað framtíðin beri mögulega í skauti sér.

 

Halldór Björnsson, deildarstjóri rannsókna og þróunar á veðursviði Veðurstofu Íslands
Loftslagsbreytingar og aðlögun að þeim

Hvað varðar loftslagsbreytingar má segja að stóra myndin sé á hreinu. Hlýnun heldur áfram í takt við losun á gróðurhúsalofttegundum. Þetta hefur áhrif á lífríki og samfélög víða um jarðkúluna. Skaðlegust verða áhrifin fyrir fátæk samfélög, sérstaklega þau sem eru háð loftslagstengdum gæðum svo sem staðbundnum vatns- og matarforða en hafa jafnframt takmarkaða möguleikar til aðlögunar. Áhrif sjávaryfirborðshækkunar fyrir byggð á  á strandsvæðum, áreyrum og flæðilöndum verða veruleg og skaðleg. Verði heildarlosun of mikil mun hlýnunar gæta í tugþúsundir ára. Verði dregið hratt úr losun verða skaðlegustu áhrifin umflúin, en eftir sem áður er aðlögun að óumflýjanlegum áhrifum losunar nauðsynleg. Á undanförnum árum hafa áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi verið rannsakaðar nokkuð en mati á aðlögunarþörf hefur minna verði sinnt. Augljósustu áhrif loftslagsbreytinga eru bráðnun jökla, grænkun landsins og sjávaryfirborðshækkun. Hvað aðlögunarþörf varðar hefur vatnsorkugeirinn lagt mat á áhrif afrennslisbreytinga á rekstur. Hvað sjávaryfirborðshækkun varðar eru til viðmiðunarreglur um byggð á lágsvæðum, en þær hafa ekki verið uppfærðar með tilliti nýrra upplýsinga um  sjávaryfirborðshækkun. Í þessu erindi verður aðlögun og aðlögunarþörf rædd frekar sérstaklega með tilliti til skammtíma aðgerða (næstu áratugir) og langtímaaðgerða. Að lokum verður minnst á takmarkanir aðlögunar.

 

Hrafnhildur Hannesdóttir, doktorsnemi
í jarðfræði
Gildi sögulegra heimilda í rannsóknum á jöklabreytingum í Austur-Skaftafellssýslu

Í verkefni um loftslagsbreytingar og viðbrögð suðurhluta Vatnajökuls við þeim er unnið með margvísleg gögn til þess að rekja sögu jöklabreytinga frá aldamótunum 1700. Brýnt er að skoða breytingar síðustu alda og bera saman við veðurgögn (hita og úrkomu) frá upphafi mælinga- til þess að stilla af jöklalíkön og spá fyrir um framtíðina. Safnað hefur verið saman rituðum heimildum, ljósmyndum og málverkum og tekin viðtöl við bændur til þess að varpa ljósi á þær miklu umhverfisbreytingar sem orðið hafa í sýslunni. 

 

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði
Vekjum ekki sofandi dreka: Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu

Í erindi sínu ræðir Guðni þá staðreynd að til þess að halda sig undir því marki að hlýnun andrúmslofts jarðar verði ekki meiri en 2°C að meðaltali, megi ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þekktar voru 2009. Ennfremur, forðast ber að sjá 2°C markið sem ástættanlegt eða ákjósanlegt, því að breytingarnar sem verða á vistkerfi jarðar við slíka hlýnun eru gríðarlega alvarlegar. Þó er 2°C markið álitið „pólitískt óraunhæft“ vegna þess, segir Guðni. ,,Nánast er útilokað að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn loftslagsbreytingum leiði ekki til efnahagssamdráttar, jafnvel þó að í þeim felist forsendurnar fyrir tækifærum framtíðarkynslóða.“

Guðni greinir þetta svo að almenningur á Vesturlöndum vilji að  stjórnmálamenn setji sér ýmis konar háleit markmið í umhverfisvernd, en slíkar stjórnvaldsákvarðanir megi þó ekki „skerða eftirsóknarverðan lífsstílinn sem kjósendur hafa vanist. Þetta vita stjórnmálamennirnir og tala því gjarnan fjálglega en framkvæma lítið. Engin hætta er síðan á því að almenningur mótmæli þegar markmiðunum er ekki náð. Fólk fylkir sér ekki undir merki efnahagssamdráttar og ,,meinlæta‘“ Guðni tekur síðan sláandi dæmi um það hvernig umhverfisrök sem byggja á vísindalegum grunni eru pólitískt óraunhæf, en ummæli Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra í viðtali við Stöð 2 apríl 2009 um að óábyrgt væri fyrir Íslendinga að dæla upp olíu á Drekasvæðinu (ef hana væri þá að finna) kostuðu hana líklega þingsætið nokkrum dögum síðar. Þó var hún fulltrúi helsta umhverfisverndarflokks landsins og kjósendurnir því líklegri til að virða sjónarmið hennar, en gengur og gerir meðal almennings.

 

Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
Hnattrænar loftslagsbreytingar sem umhverfismál

Hnattrænar loftslagsbreytingar eru um margt ólíkar þeim umhverfismálum sem heimurinn hefur áður þurft að glíma við. Jafnvel mætti ganga svo langt að segja að hér sé um algerlega nýja tegund af umhverfismáli að ræða, hvort sem litið er til uppruna vandans, áhrifasviðs hans eða alvarleika. Ef þetta er rétt athugað, þá vakna í kjölfarið fjölmargar spurningar, svo sem: Hvað er líkt og hvað ólíkt með hnattrænum loftslagsbreytingum og öðrum umhverfismálum, hver er staða loftslagsbreytinga gagnvart öðrum umhverfismálum, hvaða áhrif hefur aukin vitund um loftslagsbreytingar haft á umhverfismálaumræðuna almennt, hversu vel hentar sú hugsun og þau kerfi sem hafa verið byggð upp á undanförnum áratugum til að takast á við umhverfismál í baráttunni við loftslagsbreytingar og, síðast en ekki síst, er nauðsynlegt að breyta forgangsröðuninni í umhverfis- og náttúruverndarmálum þannig að loftslagsbreytingar fái meira vægi en nú er raunin? Reynt verður að leita svara við slíkum spurningum annars vegar út frá umfjöllun um hnattrænar loftslagsbreytingar sem slíkar og hins vegar í ljósi greiningar á stöðu umhverfis- og náttúruverndarmála á Íslandi almennt.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is