Lokaeintak fyrir prentun

Við lok doktorsnámsins skilar doktorsefni ritgerðinni tvisvar sinnum til deildarinnar:


  1. Handrit: Þegar doktorsnefnd telur ritgerðina tilbúna til varnar skal skila rafrænu eintaki en bæta við prentuðum eintökum verði þess óskað, sjá nánar um þau hér fyrir neðan.

  2. Lokagerð: Þegar andmælendur hafa samþykkt ritgerð til varnar og vörn ákveðin er gengið frá lokagerð ritgerðarinnar. 

Athugið að reglum um doktorsnám var breytt á haustmisseri 2019 og ekki er lengur krafist prentaðra eintaka af lokagerð ritgerðar. Leiðbeiningar hér fyrir neðan eru því fallnar úr gildi en unnið er að nýjum leiðbeiningum. Vinsamlegast hafið samband við Maríu Gestsdóttur til að fá nánari upplýsingar, netfang mariage@hi.is

 

Sjá nánar um frágang lokagerðar ritgerðarinnar hér fyrir neðan.

Þátttaka Hugvísindastofnunar í prentkostnaði

Hugvísindastofnun greiðir fyrir prentun þeirra eintaka af lokagerð ritgerðar sem skylt er að skila til Háskólans og Hugvísindasviðs (jafnan 10 eintök en stundum fleiri). Þessi eintök fara til andmælenda, doktorsnefndar, deildar, sviðs og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Doktorsnemi afhendir stofnuninni þessi eintök að lokinni prentun, en hún sér um dreifingu þeirra.

Hugvísindastofnun greiðir því aðeins fyrir prentun þessara lokaeintaka að haft hafi verið samband við verkefnastjóra fyrir fram og að frágangur kápu, titilsíðu og upplýsingasíðu sé í samræmi við sniðmát og annar frágangur í nægilegu samræmi við sniðmát/leiðbeiningar, þótt ítrekað sé að ekki þarf að fylgja því nákvæmlega.

Leiðbeiningar um skilaeintök og frágang þeirra

Skil handrits

Þegar doktorsnemi hefur lokið ritgerð sinni, þannig að doktorsnefnd telur hana tilbúna til varnar, skal skila rafrænu eintaki (pdf) og prentuðum eintökum verði þess óskað.
Um er að ræða snyrtilega frágengið handrit í A4-stærð sem skal innihalda alla kafla og alla umfjöllun sem kveðið er á um í reglum . Einnig skal handritið prófarkalesið í þaula. Þetta er handritið sem fer til andmælenda.

Hér sniðmát að forsíðu í A4-stærð sem notist ef vill þegar ritgerð er skilað til mats, en aðeins þá: 

Lokagerð ritgerðar

Þegar andmælendur hafa samþykkt ritgerðina til varnar er lokagerð hennar prentuð fyrir doktorsvörnina, gjarna með einhverjum breytingum sem andmælendur hafa lagt til eða krafist. Ekki er að öðru leyti heimilt að gera breytingar á ritgerð eftir að henni hefur verið skilað til varnar.

Lokagerðin er í stærðinni B5 (sem er 86% af A4). Einfaldast er að minnka A4-skjal niður í þessa stærð um leið og prentað er. Einnig er hægt að brjóta ritgerðina um í B5-stærð. Með því nást aðeins meiri prentgæði, en það er talsverð vinna. Undir öllum venjulegum kringumstæðum mælir Hugvísindastofnun með minnkun A4-skjals og miðast leiðbeiningar hér við það.

Frágangur fyrir prentun lokagerðar

Kápa: Fylgja skal útliti kápu nákvæmlega og er sniðmát fyrir hverja deild til hjá Háskólaprenti. Einnig er val á milli ensku og íslensku. Þess þarf að gæta að velja rétta deild og velja sama tungumál og notað er í ritgerðinni. Þeir sem vilja prenta endanlega gerð ritgerðar annars staðar en hjá Háskólaprenti snúi sér til Hugvísindastofnunar (hugvis@hi.is). Athugið að í þessu felst að kápan er sérstakt skjal, en ritgerðarskjalið hefst á titilsíðu.

Ganga þarf frá handritinu í A4-stærð þannig að hægt sé að minnka það niður í 86% stærð svo vel fari. Huga þarf að leturstærð, línubili og spássíum. Í leiðbeiningum um frágang er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um frágang sem mikilvægt er að doktorsnemar kynni sér. Þar eru einnig sniðmát fyrir titilsíðu og upplýsingasíðu (bls. 2) sem fylgja skal nákvæmlega.  Leiðbeiningar um frágang eru hér. Athugið að leiðbeiningarnar eru á ensku á enskri gerð vefsíðunnar. Þar eru sniðmát titilsíðu og upplýsingasíðu á ensku.

Þeim sem hafa litla ritvinnslukunnáttu er bent á Ritver Hugvísindasviðs.


 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is