Mál í þróun

 

Málþróun á sér margar hliðar. Málið breytist á æviskeiðinu og í tímans rás. Í þessari málstofu verður annars vegar fjallað um þróun málsins hjá nemendum í íslensku sem öðru máli og hins vegar áhrif samfélagsmiðla á íslenskan málstaðal.

Í þessari málstofu sem skipulögð er af Rannsóknastofu í máltileinkun (RÍM), verður málfræðitileinkun í öðru máli í brennidepli, en einnig hvernig samfélagsmiðlar hafa áhrif á málstaðal innfæddra.

 

 

Málstofustjóri: Þórhildur Oddsdóttir

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • María Anna Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Ég finnst það. Um skynjendafrumlag í máli byrjenda í íslensku
  • Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Aðgreining falla. Um þróunarröð falla í máltileinkun íslensku
  • Vanessa Monika Isenmann, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Frávik frá málstaðli í einka- og almenningsskilaboðum á Facebook

Fundarstjóri: Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar

Útdrættir:

María Anna Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Ég finnst það. Um skynjendafrumlag í máli byrjenda í íslensku

Í fyrirlestrinum verða kynntar niðurstöður rannsóknar á þróun skynjendafrumlaga hjá einum málnema í íslensku sem öðru máli yfir sex mánaða tímabil. Fram hefur komið í rannsóknum á máltileinkun íslensku (sjá t.d. María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir 2012; Gísli Hvanndal Ólafsson 2015) að frumlög í nefnifalli komi nokkuð snemma fram í tileinkuninni. Sýnt verður fram á það í fyrirlestrinum að skynjendafrumlög komi nokkuð seinna fram en nefnifallsfrumlög í tileinkunarröð frumlagsfalla.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna einnig að kennsla (bein og óbein) á skynjendafrumlögum hafi ekki áhrif á tileinkun skynjendafrumlaga hjá málnemanum og gagnist honum ekki fyrr en hann hefur tileinkað sér viðeigandi málfræðibúnað sem getur fengist við slíkar formgerðir. Þessar niðurstöður styðja kennslutilgátu (e. teachability hypothesis) Pienemanns þar sem því er spáð að kennsla geti ekki haft áhrif á þá föstu þróunarröð málfræðinnar sem gert er ráð fyrir í úrvinnslukenningunni (Pienemann 1989) og að kennsla komi best að gagni ef hún miðaðist við þær formgerðir sem væru á næsta stigi fyrir ofan það stig sem málnemar væru á. 

Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Aðgreining falla. Um þróunarröð falla í máltileinkun íslensku

Í fyrirlestrinum verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar á tileinkun þágufallsandlaga í íslensku sem öðru máli. Niðurstöðurnar verða ræddar í ljósi rannsóknar á þolfallsandlögum og nefnifallsfrumlögum (Sigríður Þorvaldsdóttir og María Garðarsdóttir 2015) þar sem í ljós kom að byrjendur reiða sig á stöðu liðanna í setningunni til að merkja föllin; þeir setja nefnifall á lið fyrir framan sögn og aukafall á lið fyrir aftan sögn. Síðar verða þeir færir um að nota þolfall á andlögum og nefnifall á frumlögum sem hafa verið flutt til í setningunni. Að auki virðast byrjendur tileinka sér fall á persónufornöfnum fyrr en fall á nafnorðum. Þágufallsandlög verða skoðuð á sama hátt, þ.e. með tilliti til stöðu þeirra í setningunni. Að auki verður notkun þágufallsins skoðuð út frá merkingarhlutverkum og jafnframt athugað hvort þágufall á persónufornöfnum komi fyrr en þágufall á nafnorðum.

Vanessa Monika Isenmann, doktorsnemi í íslenskri málfræði: Frávik frá málstaðli í einka- og almenningsskilaboðum á Facebook

Erindið veitir innsýn í óformlega ritaða íslensku í netsamskiptum (computer-mediated communication). Nánar tiltekið fjallar erindið um stílfræðilegan mun milli einka- og almenningsskilaboða í samskiptamiðlinum Facebook. Niðurstöður rannsóknaverkefnisins „Góð íslenska og miður góð“ frá árinu 2014 þar sem könnuð voru meðvituð viðhorf Íslendinga til málnotkunar í netsamskiptum bendir til þess að mat á málnotkun á Facebook sé háð skilyrðum eins og samskiptaháttum (e. communication form) og samskiptaaðilum (e. communication partners). Þátttakendurnir segja réttritun vera afar mikilvæga á Facebook-tímalínu þar sem margir lesa slík almenningsskilaboð og þeir óttast gagnrýni ef málfræðilegum reglum er ekki fylgt. Í einkaskilaboðum skipti málfar og réttritun hinsvegar minna máli. Af þessum sökum verður í erindinu greint frá athugun á hugsanlegum mun á málnotkun milli einka- og almenningsskilaboða á Facebook og hvort rekja megi þennan mun til þess hversu opnir samskiptatextarnir eru. Rannsóknin sem lýst er byggir á textasafni sem samanstendur af 13 einkaskilaboðum og 44 stöðuuppfærslum og ummælum tveggja íslenskra Facebook-notenda. Mikilvæg dæmi eru sýnd og eftirfarandi rannsóknaspurningum svarað: Er marktækur munur milli einka- og almenningsskilaboða varðandi tíðni slettna og frávik frá réttrituninni? Er munur varðandi aðlögun slettna að orðhluta- og setningagerð? Hvers eðlis eru frávik í réttritun í þessum samskiptaháttum?

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is