Íslenskt mál og málsamfélag á 19. öld: Tilbrigði – breytingar – viðhorf – stöðlun

Laugardagur 10. mars kl. 15-16.30
Stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Í málstofunni verður fjallað um íslensku á 19. öld frá málfræðilegu og málfélagslegu sjónarhorni. Hún tengist rannsóknarverkefni sem  verið er að hleypa af stokkunum með styrk úr Rannsóknarsjóði, Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals (sjáhttp://www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_ord_19old). Markmið þess er að skoða mál og málnotkun eins og hún birtist í 19. aldar textum, sérstaklega einkabréfum og blaðatextum, með áherslu á tilbrigði í máli og málsögulegar og málfélagslegar forsendur þess hvaða afbrigði verða fyrir valinu sem hluti þess opinbera málstaðals sem þróast á 19. og 20. öld. 

Að verkefninu stendur hópur málfræðinga við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands, Uppsalaháskóla og Vrije Universiteit Brussel og fyrirlesarar verða úr þeim hópi. Jóhannes Bjarni Sigtryggsson fjallar um málbreytingar sem áttu sér stað eða voru að breiðast út á 19. öld og tilbrigði sem spruttu af þeim. Ásta Svavarsdóttir fjallar um íslenskt málsamfélag á 19. öld, breytingar á stöðu málsins og áhrif þeirra á þróun þess. Loks fjallar Haraldur Bernharðsson um málheimildir frá 19. öld, gagnasöfn og nýtingu þeirra við málrannsóknir.

Fyrirlesarar:

  • Jóhannes B. Sigtryggsson, verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Mál í mótun á 19. öld
  • Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Íslenskt málsamfélag á 19. öld
  • Haraldur Bernharðsson, sérfræðingur hjá Miðaldastofu: Heimildir um íslenskt mál á 19. öld

Málstofustjóri: Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í málfræði

 

Útdrættir:

Jóhannes B. Sigtryggsson, verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Mál í mótun á 19. öld

Frekar lítið er vitað um breytingar á íslensku máli á 19. öld og fáar sérrannsóknir hafa verið gerðar á því. Margt er hins vegar athyglisvert  við málið á þessum tíma, meðal annars samspil málbreytinga og málhreinsunar sem jókst mjög á öldinni. Í erindinu er ljósi varpað á helstu málbreytingar og máltilbrigði 19. öld og samanburður gerður við málið á seinni hluta 18. aldar.

 

Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Íslenskt málsamfélag á 19. öld

Við rannsóknir á málbreytingum og einkanlega á útbreiðslu þeirra er nauðsynlegt að huga ekki einungis að málfræðilegum forsendum þeirra heldur einnig málfélagslegum. Hraði málbreytinga og það hvaða málfræðilegu og málfarslegu afbrigði verða ofan á þegar máltilbrigði eru til staðar ræðst að verulegu leyti af aðstæðum í málsamfélaginu. Einnig getur staða málsins og viðhorf málnotenda og annarra til þess haft margvísleg áhrif á málþróunina.

Í rannsóknarverkefninu Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals verður sjónum beint að samspili máls og samfélags, sjónarhornið er m.ö.o. bæði málfræðilegt og málfélagslegt. Í þessu erindi verður spurt hvernig íslenskt málsamfélag var á 19. öld, hvernig stöðu málsins var háttað og hvaða viðhorf komu fram gagnvart máli og málnotkun. Þar sem 19. öldin er mikið breytingaskeið verður ekki síst horft til þeirrar samfélagsþróunar sem helst má ætla að hafi hafti áhrif á tungumálið og þróun þess.

 

Haraldur Bernharðsson, sérfræðingur hjá Miðaldastofu
Heimildir um íslenskt mál á 19. öld

Heimildir um íslenskt mál á 19. öld eru í ýmsu tilliti ríkulegri en málheimildir frá öldunum á undan. Í fyrsta lagi eru fleiri textategundir varðveittar en frá öldunum á undan og því geyma ritaðar heimilidir 19. aldar fleiri málsnið en áður hafa sést. Í annan stað hefur varðveist frá 19. öld ritmál með hendi stærri og fjölbreyttari hóps  einstaklinga en frá öldunum áður. Ritmál 19. aldar geymir ekki aðeins skrif lærðrar yfirstéttar heldur má þar einnig finna skrif alþýðu manna í mun ríkari mæli en áður. Þar munar mest um einkabréf sem varðveist hafa í talsverðu magni frá 19. öld. Einkabréf sem skrifuð eru til fjölskyldu eða náinna vina eru ákjósanleg málheimild vegna þess að minni líkur eru á að bréfritari lagi þar mál sitt að einhverju tilteknu málviðmiði („viðurkenndu máli“) en til að mynda ef skrifað væri til birtingar á opinberum vettvangi. Einkabréfin eru því dýrmæt heimild um mál alþýðufólks á nítjándu öld — fólks sem ekki var svo mjög snortið af málhreinsunaranda síðustu áratuga aldarinnar — og geta skerpt þá mynd sem við höfum af íslensku máli eins og það var áður en kerfisbundinnar málstýringar fór að gæta að einhverju marki.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is