Málbreytingar: Kerfisvæðing, endurtúlkun, endurnýting og fleira skemmtilegt

 

Þema þessarar málstofu er málbreytingar og kenningar um stefnu þeirra og stefnuleysi. Sjónum verður einkum beint að kerfisvæðingu (grammaticalization), endurtúlkun (renalysis) og endurnýtingu á „efni“ í tungumálinu í nýjum formgerðum (exaptation). Fjallað verður um þann mun sem kann að vera á kerfisbundnum breytingum og stökkbreytingum í máli. Efnið verður sett í samband við ýmsar fræðilegar kenningar í málvísindum, t.d. generatífa málfræði og mynsturmálfræði (Construction Grammar). Dæmi verða tekin úr ýmsum málum, m.a. íslensku og öðrum germönskum og indóevrópskum málum, sem og úr íslensku táknmáli.

Fyrirlesturinn BIDD og kerfisvæðing í táknmálum verður túlkaður á íslenskt táknmál.

Málstofustjóri: Þórhallur Eyþórsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Þórhallur Eyþórsson, prófessor í málvísindum: Stefna og stefnuleysi í málbreytingum
  • Einar Freyr Sigurðsson, doktorsnemi í málvísindum við Pennsylvaníuháskóla: Nefnifallsvæðing afturbeygðra fornafna: Um þolmynd og skyldar setningagerðir
  • Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku: Um sögnina skella og veðrið

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Jóhannes Gísli Jónsson, Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir, prófessor í íslensku, lektor í táknmálsfræði og verkefnastjóri á táknmálssviði Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra: BIDD og kerfisvæðing í táknmálum
  • Jóhanna Barðdal og Spike Gildea, prófessor í málvísindum við Háskólann í Gent og prófessor í málvísindum við Háskólann í Oregon: Hvernig skarast kerfisvæðing og söguleg mynstursmálfræði?
Útdrættir:

Þórhallur Eyþórsson, prófessor í málvísindum: Stefna og stefnuleysi í málbreytingum

Orðið málþróun felur í sér að tungumálið „þróist“ á svipaðan hátt og lífverur. Það er þó engan veginn í samræmi við sumar áhrifamestu kenningar samtímans um málbreytingar en þar er gert ráð fyrir að hver málnotandi byggi málfræði sína upp á nýtt í máltökunni (t.d. Lightfoot 1998). Í þessum anda tala Roberts og Roussou (2003) um að málbreytingar séu í raun „stefnulaust ráp“ eftir þeim mögulegu leiðum sem allsherjarmálfræðin (e. Universal Grammar) býður upp á. Þar getur því ekki verið um neina þróun í bókstaflegum skilningi að ræða. Samt sem áður er ljóst að fjölmargar málbreytingar virðast fylgja ákveðinni „þróun“, ekki síst kerfisvæðing (e. grammaticalization) málfræðilegra eininga sem a.m.k. í flestum tilvikum stefnir í tiltekna átt, t.d. frá inntaksorðum til kerfisorða en ekki öfugt. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa þversagnakenndu stöðu sem hefur lengi þvælst fyrir kenningasmiðum í sögulegum málvísindum og reynt að sýna fram á hvernig hægt er að greiða úr flækjunni, m.a. með tilstyrk mynsturmálfræði (e. Construction Grammar).

Einar Freyr Sigurðsson, doktorsnemi í málvísindum við Pennsylvaníuháskóla: Nefnifallsvæðing afturbeygðra fornafna: Um þolmynd og skyldar setningagerðir

Venjulega er ekki gert ráð fyrir að einfalda afturbeygða fornafnið sig og samsetta afturbeygða fornafnið sjálfan sig séu til í nefnifalli. Í þessum fyrirlestri verða aftur á móti færð rök fyrir því annars vegar að sig sé ekki einungis þolfallsmynd einfalda afturbeygða fornafnsins heldur einnig nefnifallsmynd þess (svo sem í afturbeygðri þolmynd: Það var montað sig af þessu) og hins vegar að hann sé nefnifallsmynd samsetta afturbeygða fornafnsins (og raunar einnig þess einfalda í ákveðnum setningagerðum, svo sem langdrægri afturbeygingu: Jón segir að hann sé þreyttur, sbr. Jón segir að sig langi í ís). Athuganir á m.a. afturbeygðri þolmynd, nýju setningagerðinni og langdrægri afturbeygingu styðja þessar hugmyndir.

Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslensku: Um sögnina skella og veðrið

Sögnin skella er til í veikri og sterkri beygingu; veikbeygða sögnin er áhrifssögn en sterka sögnin áhrifslaus. Í fyrirlestrinum verður fjallað um afar þröngt notkunarsvið en það er þegar sögnin er veikbeygð og tekur með sér þemafrumlag í þágufalli enda er þá verið að lýsa veðri. Sögnin er áhrifslaus en tekur með sér fylgilið (ögn). Dæmi um þetta má sjá hér:

            En er þeir höfðu fermt skipið og voru að leggja frá landi skelldi á afspyrnuroki á sunnan. (1885)

            Fóru þeir 3 saman á bátnum, en þá skellti yfir glórulausri hríð. (1969)

Í nútímamáli er staðan (langoftast) önnur. Nefnifall hefur leyst þágufallið af hólmi og sögnin er sterkbeygð. Í fyrirlestrinum verður þetta skoðað nánar. Jafnframt verða aðrar sagnir skoðaðar til samanburðar.

Jóhannes Gísli JónssonRannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir, prófessor í íslensku, lektor í táknmálsfræði og verkefnastjóri á táknmálssviði Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra: BIDD og kerfisvæðing í táknmálum

Í þessum fyrirlestri verða færð rök fyrir því að í íslensku táknmáli (ÍTM) sé til tengisögn (e. copula) sem hefur orðið til við kerfisvæðingu fornafns. Kerfisvæðing af þessu tagi er vel þekkt úr raddmálum (sjá Gelderen 2011:128-142 og heimildir sem þar er vísað til) en kerfisvæðing almennt er líka til í táknmálum (Pfau og Steinbach 2006). Tengisögnin í ÍTM er kölluð BIDD vegna þeirra munnhreyfinga sem henni fylgja. Svo virðist sem BIDD sé dregin af tákninu DET-ER í danska táknmálinu en það er myndað á sama hátt og BIDD nema að því er varðar munnhreyfinguna. Setningafræðileg dreifing BIDD rímar vel við þá kenningu að táknið hafi orðið til við kerfisvæðingu frumlagsfornafns enda hegðar það sér eins og sögn í tíðarhausnum. Þannig getur BIDD ekki komið á eftir hjálparsögnum eða háttarsögnum og verður að koma á undan fyllilið sínum (þótt orðaraðir með fyllilið-sögn séu mögulegar í máli sumra sem hafa ÍTM að móðurmáli)

Jóhanna Barðdal og Spike Gildea, prófessor í málvísindum við Háskólann í Gent og prófessor í málvísindum við Háskólann í Oregon: Hvernig skarast kerfisvæðing og söguleg mynstursmálfræði?

Undanfarna áratugi hafa fjölmargar rannsóknir í sögulegum málvísindum, einkum þeim sem eru hlutverkamiðuð (e. functional), verið gerðar út frá þeirri stefnu sem kennd er við kerfisvæðingu (e. grammaticalization). Nýlega hefur komið fram annað kenningakerfi sem felur í sér aðra sýn á málbreytingar. Þetta kenningakerfi nefnist Construction Grammar á ensku og er stundum kallað mynsturmálfræði á íslensku. Undir merkjum mynsturmálfræði hafa sögulegar rannsóknir á tungumálum og rannsóknir á málbreytingum færst mjög í vöxt á síðustu árum og er oft vitnað til þeirra meðheitinu „söguleg mynsturmálfræði“ (e. Diachronic Construction Grammar).

Þessi nýja þróun innan sögulegra málvísinda kallar eftir svari við spurningunni hvernig kerfisvæðing og söguleg mynsturmálfræði skarast eða mætast. Hugtakið kerfisvæðing í sinni upphaflegu merkingu er klárlega þrengra en hugtakið „breytingar á málmynstrum“ (e. constructional change). En hver er þá staða kerfisvæðingar án breytinga á málmynstrum? Hvað er breyting á málmynstrum án kerfisvæðingar? Og getur kerfisvæðing átt sér stað án breytinga á málmynstrum? Í þessum fyrirlestri verða spurningar af þessu tagi reifaðar, hugleiddar og greindar.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is