Mállýskur og ást

 

Í málstofunni verður fjallað um skáldsögur og sjónum einkum beint að tveimur ólíkum sögum frá ólíkum tímum sem snúast um ást, einni ítalskri og annarri íslenskri. Ekki er vitað með vissu hver höfundur ítölsku sögunnar er, en henni hefur verið vel afar tekið og hún selst í stórum upplögum. Vitað er hver höfundur íslensku sögunnar er, en hún er hins vegar nær óþekkt nú á dögum þrátt fyrir að vera í hópi fyrstu íslensku skáldsagnanna. Þótt sögurnar séu ólíkar eiga þær það sameiginlegt að í þeim báðum gegnir mállýskumunur nokkru hlutverki.

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 13-14 (stofa 051 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: Elena Ferrante. Frásögn af „framúrskarandi“ skáldsögu og ónauðsynlegri skáldkonu
  • Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku: Sæunn og Sighvatur – skáldsaga frá 19. öld
Útdrættir:

Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: Elena Ferrante. Frásögn af „framúrskarandi“ skáldsögu og ónauðsynlegri skáldkonu

Í svokölluðum Napólískum skáldsögum sem er fjögurra binda verk eftir Elenu Ferrante (titill fyrstu bókarinnar á íslensku er Framúrskarandi vinkona), fer lesandinn í gegnum skemmtilegt ævintýri sem virðist vera leyndardómsfullur leikur samansettur af rithöfundi sem við vitum ekki hver er.

Þetta er ferðalag Lenú, sögumanns og aðalpersónu, ferðalag í gegnum söguna og saga af sigrum hennar sjálfrar og stöðu hennar í samfélaginu. Samhliða er sögð saga af vinkonunni Lilu, sem minnir á ferðalag í anda Pasolini, einangruð frá atburðum líðandi stundar, í heimi sem er sífellt á barmi eyðileggingar, handan við lög og almenn gildi. Kvenfrelsisstefnan er tvíræð. Aðalpersónan, sem á að vera sigurvegari og óþvinguð, er stöðugt háð „alter egóinu“ eða vinkonunni Lilu, sem í upphafi, hverfur án þess að skilja eftir sig slóð eins og höfundur bókarinnar. Stíllinn er fágaður en samtengdur „frumstæðum“ undirstöðuatriðum lífsins: holdinu, blóðinu, tárunum, svikunum og ofbeldinu, fyrirbærum sem anga af napólískri mállýsku án þess við heyrum hana.  

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku: Sæunn og Sighvatur – skáldsaga frá 19. öld

Ástarsagan Sæunn og Sighvatur er frá ofanverðri 19. öld og er því í hópi elstu íslensku skáldsagnanna. Hún er þó ekki mjög þekkt enda birtist hún ekki á prenti fyrr en um miðja 20. öld. Höfundur sögunnar, sr. Eggert Briem (1840–1893), fékkst nokkuð við fræðastörf, ýmislegt er til eftir hann á prenti og eftir hann liggur talsvert safn af handrita á Landsbókasafni. Sæunn og Sighvatur er um margt óvenjuleg ritsmíð. Frásögnin er flókin, afar hröð og á köflum mjög fyndin, persónur birtast ítrekað í dulargervi og yfirnáttúrlegir atburðir eiga sér stað. Þá beitir höfundur málfyrningu í ríkum mæli og enn fremur spilar hann á mállýskumun. Í fyrirlestrinum verður fjallað um höfundinn og helstu einkenni sögunnar. Einnig verður sagan borin saman við tvær aðrar frá svipuðum tíma, Pilt og stúlku Jóns Thoroddsen og söguna Aðalstein eftir Pál Sigurðsson, en sú saga telst vera þriðja íslenska skáldsagan.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is