Máltileinkun í víðu ljósi

Föstudagurinn 13. mars kl. 13.15-16.30, með kaffihléi.

Fræðimenn á sviði tileinkunar íslensku sem annars máls og erlendra mála sameinast í þessari málstofu undir merkjum RÍM: Rannsóknarstofu í máltileinkun.

Byrjendur í íslensku lenda augljóslega oft í því að skilja ekki allt í samskiptum við heimamenn. Hér verður fjallað um aðferð sem íslenskunemarnir nota til að halda samtalinu gangandi og svara spurningum sem þeir skilja ekki með ,,já“.

Um 150.000 manns hafa skráð sig inn á kennsluvefinn Icelandic Online – en hverjir eru þetta og hvað einkennir námsferli þeirra? Vöktunarkerfi hefur fylgt notendum eftir í níu ár og verður hér rætt um fyrstu niðurstöður rannsóknar á hegðun tungumálanema í netnámi.

Fjallað verður um notkun frumlagsfalls í máli stúdenta sem eru að læra íslensku sem annað mál og þá sérstaklega frumlög í aukafalli og spáð fyrir um í hvaða röð aukaföllin koma í fallatileinkuninni. 

Evrópski tungumálaramminn verður til umfjöllunar með tilliti til námsmats í frönsku. Leitað verður svara við spurningum um stöðu hans í námsmati í frönsku í framhaldsskólum, hvort tungumálakennarar nýti sér hann og þá á hvaða hátt. Námsmat á háskólastigi í frönsku verður einnig skoðað og hvort tenging sé þar við viðmið rammans.

Loks verður sjónum beint að málnotkun og námsefni í dönsku. Annars vegar verður rætt um vanda íslenskra dönskunema við að nota óákveðinn greini og ábendingarfornöfn á réttan hátt í ritun. Leitað verður leiða með samanburði á dönsku og íslensku til að auðvelda þeim tileinkun þessa þáttar. Hins vegar verður svo varpað ljósi á það hvernig námsbækur í dönsku, aðallega 10. bekk, falla að nýlegri námskrá. Einkum verður þá skoðaður orðaforði, efnisval, þyngdarstig og framsetning námsefnisins. Einnig verður könnuð stígandi í námsefni milli ára í skyldunámi í dönsku.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Guðrún Theodórsdóttir, lektor í íslensku sem öðru máli:
  • Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Notendur Icelandic Online dregnir fram í dagsljósið: Úrvinnsla úr gagnagrunni
  • María Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Frumlagsfall í íslensku sem öðru máli

​Kaffihlé

  • Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: Evrópuramminn og námsmat
  • Pernille Folkmann, lektor í dönskum málvísindum: Brug af artikler og demonstrative pronominer i dansk i sammenligning med islandsk
  • Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku og Brynhildur Ragnarsdóttir, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar grunnskólanna: Námsbækur í ljósi námskrár

Málstofustjórar: Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku sem öðru máli

Útdrættir:

Guðrún Theodórsdóttir, lektor í íslensku sem öðru máli:

Í þessu erindi skoða ég aðferð sem tveir byrjendur í íslensku sem öðru máli nota í raunverulegum samtölum við afgreiðslufólk á kaffihúsi. Í báðum tilvikum spyr afgreiðslukonan spurninga sem hluta af þjónustusamtalinu sem þeir svara játandi. Þegar kennarinn skoðaði upptökurnar með nemendunum kom í ljós að þeir skildu ekki spurningarnar og túlkuðu þær í ljósi þess sem gerðist næst í samtalinu. Spurningin er hvort þessi séu mynduð á þann hátt að viðmælanda megi vera ljóst að nemendur skilja ekki spurninguna. Önnur spurning er hvort þarna sé um að ræða áhættumat af hálfu nemendanna; með því að svara þá trufla þeir ekki flæði samtalsins og taka ekki mikla áhættu í aðstæðum sem þeir þekkja vel frá sínu heimalandi. 

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Notendur Icelandic Online dregnir fram í dagsljósið: Úrvinnsla úr gagnagrunni

Á sviði tölvustuddrar tungumálakennslu (CALL) hefur verið kallað eftir auknum rannsóknum á námshegðun nemenda þar sem byggt sé á gögnum úr vöktunarkerfi (e. tracking data) netnámskeiða. Bent hefur verið á (Fischer 2007, 2012) að slík gögn sýni raunverulega notkun kennsluforrita og séu nauðsynleg til mótvægis við gögn sem grundvallast á lýsingum nemanna sjálfra á notkuninni.

Innbyggt vöktunarkerfi Icelandic Online hefur fylgt nemum vefnámskeiðanna eftir um margra ára skeið og í fyrirlestrinum verður greint frá fyrstu niðurstöðum rannsóknar á gagnagrunni Icelandic Online. Auk upplýsinga um bakgrunn nemanna verður fengist við spurninguna um virkni þeirra í námskeiðunum og jafnframt hvort mismunandi námsumgjörð hafi áhrif m.t.t. virkar þátttöku (sbr. Harker o.fl. 2005). Þannig verður námsframvinda þriggja hópa á Icelandic Online skoðuð, þ.e.: a) nema í blönduðu námi; b) nema í fjarnámi; c) nema í opnum, almennum námskeiðum.

Virkni í netnámskeiðum hefur fengið aukna athygli með vaxandi framboði á MOOC-námskeiðum (Massive Open Online Course) víða um heim en lágt hlutfall þeirra sem ljúka slíkum námskeiðum hefur vakið nokkra athygli. Í fyrirlestrinum verður komið inn á þessa umræðu en Koller o.fl. (2013) hafa bent á að hvati nema í netnámskeiðum sé margvíslegur og að taka þurfi tillit til þess þegar árangur sé metinn.

María Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Frumlagsfall í íslensku sem öðru máli

Í fyrirlestrinum verður fjallað um notkun frumlagsfalls í máli stúdenta sem eru að læra íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands og frumlagsfallið skoðað í tengslum við sagnorðaforða málnemanna. Hugað verður sérstaklega að frumlögum í aukafalli og spáð fyrir um í hvaða röð aukaföllin koma í fallatileinkuninni. Hvaða aukafallsfrumlög nota þeir og með hvaða sögnum? Eru t.d. þágufallsfrumlögin bundin fáum og algengum aukafallssögnum eins og finnast? Eru málnemar „þágufallssjúkir“ eins og þeir sem hafa íslensku að móðurmáli og alhæfa þeir þágufallið á sama hátt? Nota málnemar yfirhöfuð önnur aukafallsfrumlög sem ekki hafa jafn skýr merkingarhlutverk og frumlög skynjendasagna? 

Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku: Evrópuramminn og námsmat

Í nýrri aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins fyrir framhaldsskóla er þýsku, spænsku og frönsku sniðinn þröngur stakkur og lítur út fyrir að erfitt verði fyrir nemendur að öðlast þá færni sem háskólastigið telur æskilegt að nýnemar hafi í byrjun náms í þriðja máli. Skýrt stendur í námsskránni að hæfniviðmið stúdentsbrauta skuli taka tillit til eða hafa til viðmiðunar hæfnikröfur fræðasviða háskólastigsins.

Í þessu erindi verður varpað fram spurningum tengdum Evrópurammanum og þá sérstaklega þeim hluta er snýr að námsmati í tungumálakennslu. Hvað erum við að meta? Varpar námsmatið ljósi á raunverulega færni nemenda í markmálinu? Og hvert er samband Evrópurammans og hæfniþrepa aðalnámskrárinnar?

Pernille Folkmann, lektor í dönskum málvísindum: Brug af artikler og demonstrative pronominer i dansk i sammenligning med islandsk

I foredraget vil jeg sammenligne dansk og islandsk og gøre rede for hvordan især artikler og demonstrative pronominer bruges forskelligt i de to sprog. En stor forskel er at der ikke findes nogen ubestemt artikel i islandsk, men det gør der i dansk. Det betyder at islandsk “hestur” kan oversættes til dansk “hest” eller “en hest”. Dette område er interessant fordi islandske studerende til tider er usikre på brug af artikel når de skriver dansk. For eksempel udelader de artiklen i kontekster hvor der normalt skal være artikel i dansk. I foredraget vil jeg diskutere nogle fejltyper og kæde dem sammen med forskelle på de to sprog. I sidste ende håber jeg at en større bevidsthed om forskellene mellem dansk og islandsk kan hjælpe de studerende når de skal producere danske tekster. 

Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku og Brynhildur Ragnarsdóttir, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar grunnskólanna: Námsbækur í ljósi námskrár

Erindið fjallar um greiningu á textabókum sem notaðar eru í dönsku í 7.-10. bekk í íslenskum grunnskólum og gefnar út af Námsgagnastofnun.

Greiningin tekur til efnisþátta, orðaforða, þyngdarstigs hvers árs frá 7. – 10. bekk. Einnig verður borið saman eldra og yngra námsefni og rýnt í þróun síðustu áratugi.

Ný námskrá fyrir gunnskóla sem tók gildi 2011/2013 gerir nokkuð aðrar kröfur til kennsluhátta og námsmats en áður. Byggt er á evrópska viðmiðunarrammanum um inntak námsefnis, hæfniviðmið og færniþætti. Öllum færniþáttum skal gert jafnhátt undir höfði og ýtt undir að nemendur séu meðvitaðir um færni sína á hverjum tíma og framfarir.

Til að gera nemendum fært að taka framförum verður að gera ákveðnar kröfur til námsefnis. Stígandi verður að vera í námsefninu frá ári til árs. Viðfangsefnið þarf að hæfa aldri, þroska og áhugamálum nemenda, auk þess sem orðaforði verður að hæfa æskilegri og eðlilegri málnotkun þessa aldurshóps.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is